Einn daginn fékk ég hugmynd: Mig langaði að taka mynd af þeim við húsið þeirra. Svart-hvíta og eitthvað breytta, í höfði mér var mjög flott mynd. Því miður er hún þar enn því ég kom mér aldrei að því að taka myndina.
Ég hugsa stundum um þessa mynd og sé eftir að hafa ekki tekið hana. Samt veit ég að þetta skiptir auðvitað engu máli. Þessi mynd var aldrei neitt nema eitthvað í höfðinu á mér. Og jafnvel þótt ég hefði tekið hana þá hefði það ekki breytt neinu. Ég hefði kannski póstað henni á snjáldurskinnunni og sennilega gleymt henni.
Tók eina af Helga úr fjarlægð þegar hann leit til veðurs. |
Í framhaldi af þessum þankagangi hef ég verið að velta fyrir mér þessu fyrirbæri; eftirsjá. Og ég hef velt fyrir mér hvort þeir bræður, ógiftir og barnlausir hafi séð eftir einhverju í lífi sínu.
![]() |
Náðum samt mynd af þremur kynslóðum bræðra á Hálsi. |
Ég gat aldrei fundið neina eftirsjá eða beiskju hjá þeim. Þeir höfðu áhuga á því sem var að gerast á bænum, lífsglaðir og sáttir. Samt höfðu þeir alið nánast allan sinn aldur á Hálsi og lifðu ósköp fábrotnu lífi.
Kannski er það feillinn hjá mér og okkur flestum; kannski felst hamingjan í því fábrotna. Kannski er hana að finna einhvers staðar í hjartarótunum á okkur sjálfum. Ekki í öðru fólki, hlutum eða flandri. Þegar upp er staðið þá skiptir þetta engu máli. Við erum bara ryk í vindinum.
Og sennilega er ég bara að fresta verkefnayfirferðinni :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli