Játningar týnda ,,bóndans."

Á bóndabæjum er því iðulega þannig háttað að bæði hjónin ganga til verka. Þess vegna hafa stöðuheiti tekið ákveðnum breytingum. Það er ekki lengur talað um bónda og bóndakonu eða búkonu. Hjónin eru bæði bændur. Fullkomlega eðlileg breyting.
Núna vill þannig til að maðurinn minn er bóndi. Bróðir hans býr líka á bænum svo þeir eru tveir bændurnir á bænum.
Ég er kennari. Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og bjó þar fyrstu 35 ár ævinnar. Ég er enn þá að reyna að átta mig á þessu suður-norður dæmi í staðinn fyrir hið einfalda hægri-vinstri. En af því að ég er gift bónda og bý á bóndabæ þá er talað við mig eins og að ég sé bóndi. Öh, ókeeyy...
Ég get mjólkað og þekki fyrirbærið júgurbólgu en þar með er það eiginlega upptalið.
Ég hitti fólk og það hefur samræður eins og ekkert sé eðlilegra á spurningu eins og: ,,Hvernig koma tún undan vetri?" Mér skilst, ekki að ég hafi nokkra hugmynd um það, að þessar flatir sem vex gras á séu ekki allt tún. Sumt er víst hagar eða eitthvað svoleiðis. Svo ég reyni að skima út um gluggann og svara svo: ,,Hérna... bara vel.. held ég." (Hef enga hugmynd, þetta gæti allt verið kalið.)
Eða: ,,Ætlið þið að sá (hér kemur yfirleitt eitthvað fræ eða kornheiti) í ytri akurinn?" Hef enga hugmynd hvað ,,ytri" akurinn er. ,,Öh, hérna, jáá...Kannski." Um þetta leyti er ég farin að fá grunsamleg augnaráð eins og viðkomandi gruni að ég hafi enga hugmynd um um hvað ég er að tala. Það er rétt, ég hef enga hugmynd um það. Það er alveg jafn óþægilegt samt að fólk skuli gruna þetta því einhverra hluta vegna virðist ég eiga að vita þetta.
Ég skil það ekki. Ég er ekki bóndi. Ég er kennari. Ekki ætlast ég til að maðurinn minn viti allt um mína vinnu. Ég ræði stundum við hann um femíníska bókmenntagreiningu. Hann er ekkert sérstaklega uppveðraður. Hins vegar virðist svo vera sem það að vera bóndi sé ekki starf heldur lífstíll og ég sem eiginkona bóndans falli þar undir.Og ég er bara úti á túni. Eða akri. Eða haga...

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir