miðvikudagur, október 29, 2014

Stofnun Stórutjarnasveitar

Æi, já. Ég ætlaði ekki að hugsa né skrifa meira um sveitarstjórnarmál í Þingeyjarsveit svo ég ætla að
telja mér trú um að ég sé að skrifa um málefni sveitarfélagsins núna. Mjög sannfærandi, er það ekki? Nei...?
Hvað um það.
Það eru stór mál í gangi. Skýrslur um Þingeyjarskóla,  bréf frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga og ljósleiðari. Samkvæmt bréfi frá sveitarstjóra er þetta ekki jafnslæmt og upphaflega var sagt frá og sýnist mér á öllu að það sé rétt. Hvort fjármál sveitarfélagsins séu á hægri niðursiglingu veit ég ekki né heldur hvernig neikvæðri veltufjárstöðu var bjargað í ár. Þá veit ég ekki heldur hvort Þingeyjarsveit sé enn þá í fjögurra ára gjörgæslu eða hvort skýringarbréfið hafi hreinsað okkur af þeim lista. Ég hef hvorki tíma né nennu til að plægja í gegnum þetta. Það væri voða gaman af einhver hlutlaus staðarfréttamiðill myndi gera það. Kannski þessi sem eiginmaður sveitarstjórans gefur út.
Nú er búið að bæta við 4., 5. og 6. skólaskýrslunni. Hinar þrjár allar orðnar ómögulegar. Mig langar að velta upp þeim möguleika hvort fólkið sem er alltaf að panta skýrslur frá óhæfu fólki og borga fyrir skýrslur sem eru ekki skeinipappírsins virði ætti kannski að fara að axla einhverja ábyrgð á þeim gjörðum sínum. Nei?
Ókey. Nýju fínu skýrslurnar segja að það sé skynsamlegast að sameina Þingeyjarskóla á einum stað. Það sem meira er; skýrsla HLH segir að Þingeyjarskóli sé mjög dýr skóli. Þar fyrir utan, ef heimildir mínar eru réttar,  er stöðugildum við skólann ofaukið um ein 7 og yfirvinnukostnaður gríðarlegur. 5% yfirvinna sé eðlileg í viðlíka stofnunum en er 17% í Þingeyjarskóla. Kostnaðurinn við þessa (illskiljanlegu) viðbótaryfirvinnu er um 50 milljónir á ársgrundvelli.


Og hvaðan skyldu nú fjármunirnir koma sem dælt er í þessa botnlausu peningahít? Jú, frá sveitarfélaginu sjálfu eða nánar tiltekið útsvarsgreiðendum sveitarfélagsins. Öllum útsvarsgreiðendum. Líka þessum sem búa ekki á skólasvæði Þingeyjarskóla. Þið vitið, þessum sem mega núna fá að taka þykjustuþátt í skoðanakönnun en svo verða skoðanir þeirra sorteraðar sér og léttvægar fundnar. Þetta er kannski löglegt en mikið djöfull er það siðlaust.
Hvert var ég nú aftur komin? Já, íbúafundurinn. Það var sem sagt haldinn íbúafundur í gær. Það gengur hér fjöllunum hærra að hrossakaup hafi átt sér stað og sameinaður skóli verði í Hafralækjarskóla hinum forna. Reykdælingar eru ekki par hrifnir af þeim hugmyndum. Ramm reykdælski fréttamiðillinn 641.is leggur t.d. sérstaka áherslu á að það kosti meira að gera upp húsnæði Hafralækjarskóla en að byggja við húsnæði Litlulaugaskóla. Það er að vísu til enn eitt skólahúsnæði í sveitarfélaginu sem er í góðu lagi but let's not go there.
Hvorki Aðaldalur né Reykjadalur vill missa skólann sinn svo það er varla hægt að segja að sátt sé um málið. Endanleg ákvörðun er í höndum sveitarstjórnarinnar sem í sitja annar aðstoðarskólastjóranna við Þingeyjarskóla, mágur hins aðstoðarskólastjórans og eiginmaður kennara við skólann. Jááá...
Ljósleiðarinn? Það má vona.
Um daginn setti Aðaldælingur fram þá fullyrðingu að sveitarfélagið skiptist í tvennt; Þingeyjarsveit sem hefði að geyma Þingeyjarskóla og Stórutjarnasveit sem hefur Stórutjarnaskóla. Þetta er með betri hugmyndum sem ég hef séð. Ég varð ekki alveg jafnglöð og þegar ég uppgötvaði Reference í Word en næstum.
Það er málið. Girða þvert yfir og stofna fríríkið Stórutjarnasveit.
Nei, það verður ekki einveldi.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...