Þessi frasi: „Let them deny it“ eða „Let the bastards deny
it“ er kenndur bæði við Nixon og Johnson fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Merking
frasanna, látum þá neita því eða
látum helvítin neita því er sú að setja fram einhverja algjöra ósvinnu og láta
andstæðinginn eyða tíma, orku og trúverðugleika í að neita því. Þá er líka
búið að strá fræinu, þar sem er reykur þar er eldur.
Ég mundi eftir þessum frasa nýverið þegar ég las grein Ara
Teitssonar Menntaþankar á 641.is. Ari fjallar þar um hin endalausu
skólasameiningarmál sveitarfélagsins og setur fram þessa ótrúlega ósmekklegu
fullyrðingu:
Á nýafstöðnum sveitarfundi í Ýdölum voru lagðar fram þrjár skýrslur varðandi skólamál sveitarfélagsins og þar komu fram ýmsar athygliverðar upplýsingar.(Skýrslurnar má finna á heimasíðu Þingeyjarsveitar).
Af skýrslu Haraldar Líndal má ætla að ekki sé gætt nægs aðhalds í rekstri Þingeyjarskóla og árlega megi spara þar mikla fjármuni án breytinga á staðsetningu skólastarfs. Ekki voru birtar sambærilegar tölur um rekstur Stórutjarnarskóla en þar til þær verða lagðar fram verður að gera ráð fyrir rekstur sé með svipuðum hætti þar. (Skástrikun mín.)
Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að sama ónæga aðhaldið í fjármálum sé í gangi í Stórutjarnaskóla og í Þingeyjarskóla. Nákvæmlega
ekki neitt. Það hlýtur að vera hægur vandi að sýna ársreikninga ef út í það er
farið. (Og hér eru þeir.*)
Reykdælingum er hins vegar ákveðin vorkunn. Þeir sjá fram á
að skólinn þeirra sé að fara. Einhverra hluta vegna hafa þeir sem standa í baráttunni tekið þann pól í
hæðina að andskotast út í Stórutjarnaskóla til að verja sinn eigin.
Aðalsteinn Már segir í aðsendri grein í sama miðli:
Ég er mjög ósáttur við vinnubrögð í Þingeyjarsveit þegar kemur að skólamálum. Það á að skoða heildarmyndina í öllu sveitarfélaginu, horfa fram á veginn, hugsa stórt, og taka djarfar ákvarðanir. (Skáletrun mín.)
Mér er alveg sama hvort sameinaður Þingeyjarskóli sé á
Litlulaugum eða Hafralæk, það klagar ekkert upp á mig. Ég er líka tiltölulega
sannfærð um að allt skólahald Þingeyjarsveitar mun að lokum færast á einn stað.
En hvað varðar notkun á Stórutjarnaskóla í varnarstríði Reykdælinga langar mig
að benda á eftirfarandi:
- Það er ekki starfsandavandi með tilheyrandi sálfræðikostnaði í Stórutjarnaskóla.
- Húsnæði Stórutjarnaskóla er í toppstandi og hægt að senda alla nemendur Þingeyjarsveitar þangað strax eftir helgi án þess að kosta til þess krónu í viðhald eða endurbætur á húsnæðinu núna né í náinni framtíð.
Eru talsmenn Reykdælinga vissir um að þeir vilji halda þessum
málflutningi til streitu?
*Stórutjarnaskóli er innan við 10% yfir meðaltali á meðan Þingeyjarskóli er slagar í um 60% yfir meðaltal. Það er himinn og haf á milli þarna.
*Stórutjarnaskóli er innan við 10% yfir meðaltali á meðan Þingeyjarskóli er slagar í um 60% yfir meðaltal. Það er himinn og haf á milli þarna.
Mér þykir leitt ef þú upplifir sem svo að ég sé að taka þig sérstaklega út sem einhvern sem andskotast út í Stórutjarnaskóla. Mér hefur fundist þetta undirliggjandi í öllum málflutningi varnarmanna Litlulaugaskóla. Stríð vinnast með því að vinna orrustur. Orrustan núna stendur um staðsetningu Þingeyjarskóla. Nú er ekki barist um Stórutjarnaskóla, þið dreifið orkunni með því að blanda honum í málið.
SvaraEyðaÉg er búin að setja krækjur á þessar skýrslur, þú og allir sem vilja geta séð svart á hvítu að fullyrðing Ara er út úr öllu korti.
Persónulegar skoðanir mínar breyta engu um góða stjórnsýslu. Það er góð stjórnsýsla að allir íbúar hafi eitthvað um svo stór mál að segja.
Ég skil ekki síðustu spurninguna. Einhliða skýrsla bara um Stórutjarnaskóla? Ég get ekki sett það í neitt samhengi sem ég get myndað mér skoðun um.
Mig langar að segja í lokin á þessari langloku minni að ég er ánægð með þín skrif og þá umræðu sem hún skapar.
Þau átti þetta auðvitað að vera.
SvaraEyðaNú eer ég aðeins búin að hugsa síðustu spurninguna og langar að svara henni með annarri, þótt það sé leiðinleg rökræða.
Gefum okkur að sveitarfélagið sé skuldum hlaðið, með ca. 66% skuldahlutfall og það eigi að fara í stóra fjárfestingu eins og t.d. ljósleiðaravæðingu sem mun auka skuldahlutfallið mun meira.
Gefum okkur nú að Stórutjarnaskóli og Hafralækjarskóli hafi verið sameinaðir í Aðaltjarnaskóla með tvær starfsstöðvar. Aðaltjarnaskóli er rekinn með gríðarlegum halla og fram koma hugmyndir um að reka skólann á einum stað og ákveðið að hafa skoðanakönnun um það. Ekki HVAR hann á að vera heldur HVORT hann eigi að vera á einum stað eða tveimur. Finnst þér sem útsvarsgreiðandi ekki eðlilegt að þú hefður skoðanarétt í slíku máli?
Mér tókst með ótrúlegum klaufaskap að eyða ummælunum hans Alla :(
SvaraEyðaÞau eru svona:
Alli Már hefur skilið eftir ný ummæli við færsluna þína, „Látum helvítin neita því“;:
Sæl Ásta.
Það gleður mig að þú skulir hafa gefið þér tíma til þess að lesa grein mína sem þú vitnar í. Ég harma það að skrif mín hafi gefið þér tilefni til þess að draga þá ályktun að ég sé að "andskotast" út í Stórutjarnarskóla. Ég hafði ekki komið auga á þann mögulega vinkil á skrifum mínum. Ég hef enga ástæðu til þess að rengja þær staðhæfingar sem þú setur fram um Stórutjarnaskóla en ég hefði kosið að hafa skýrslu í höndunum til þess að geta þá t.d. metið það hvort hagkvæmast sé fyrir sveitarfélagið að "senda all nemendur Þingeyjarskóla þangað strax eftir helgi án þess að kosta til þess krónu í viðhald eða endurbætur á húsnæðinu."
Ég væri alveg til í að sjá meira frá þér um þetta mál. Þú lagðir áherslu á það að allir íbúar Þingeyjarsveitar fengu að segja sitt um framtíð Þingeyjarskóla, nú segir þú að þér sé alveg sama hver framtíðarstaðsetning Þingeyjarskóla verði. Finnst þér ekki að gera hefði átt skýrslu um stöðu Stórutjarnaskóla og að allir íbúar Þingeyjarsveitar ættu að fá að segja eitthvað um hans framtíð?
Sæl aftur og takk fyrir að svara mér.
SvaraEyðaÉg gat auðvitað ekki annað en tengt mín skrif við álit þitt á háttsemi Reykdælinga. Þú tengdir það beinlínis saman.
Ég kann því annars illa að vera settur í flokk og að fólki sé raðað í fylkingar almennt. Ef ég liti á sveitunga mína sem andstæðinga eða jafnvel óvini væri ég varla að kalla eftir málefnalegri umræðu og rökræðum. Ég sé það, að reka sveitarfélagið okkar á skynsaman og framsýnan hátt, sem sameiginlegt verkefni okkar allra þrátt fyrir það að við séum ekki öll á einu máli um það hver sú leið sé. Ég vil leggja fram rök sem ég tel vega sterkt en hef um leið kallað eftir rökum þeirra sem eru ekki á sama máli og ég.
Ég er ekki á því að ég eigi í orrustu við einn né neinn en fer ekki leynt með skoðanir mínar þegar mér finnst menn hafa komist að illa rökstuddum niðurstöðum. Það er einmitt sökum þess að Þingeyjarsveit þarf að fara vel með peningana sína sem mér finnst að gera hefði átt úttekt á öllum kostnaði við grunnskóla í sveitarfélaginu (ef það átti að eyða pening í það yfir höfuð) og skoða allar mögulegar leiðir í því að hagræða í þeim rekstri (en ekki loka fyrirfram á marga möguleika).
Ef við værum í þeirri stöðu í dag að til stæði að sameina Stórutjarnaskóla og Hafralækjarskóla þá hefði ég blandað mér í það mál. Ekki til þess að krefjast þess að fá að tjá mig um það hvort hann ætti að vera áfram á báðum stöðum eða bara öðrum heldur um það að mér fyndist eðlilegra að skoða allan rekstur grunnskóla í sveitarfélaginu en ekki eingöngu í hluta þess. Ef það mál væri eins vaxið og núverandi og engin leið að opna á fleiri möguleika eða opnari umræðu myndi ég að vísu þá að sjálfsögðu vilja sjá færð rök fyrir hvorri staðsetningu fyrir sig og útreikninga á því hvor staðurinn væri skynsamari. Út frá þeim rökum sem kæmu fram hefði ég svo sjálfsagt tekið afstöðu til þess hvorn staðinn ætti að velja, jafnvel þó svo að ég byggi ekki á skólasvæðinu. Jafnvel það kemur manni við. Sveitarfélagið er jú rekið fyrir almannafé og framtíðarútgjöld þess og -tekjur skipta okkur öll máli. Að ekki sé minnst á byggðarþróun, atvinnuuppbyggingu og velferð íbúanna, sérstaklega þeirra yngstu og elstu.