mánudagur, nóvember 03, 2014

Stærsta barnið á heimilinu


Fyrir mörgum árum síðan heyrði ég móður mína ræða það við einhverja vinkonu sína að pabbi minn væri stærsta barnið á heimilinu. Ég hef væntanlega verið á forgelgjunni (pre-teen) því á þessum tímapunkti tók ég öllum hlutum bókstaflega. Eflaust hefur mamma mín verið að fíflast (ég alla vega vona það) en pabbi minn setti alveg ótrúlega niður þegar ég heyrði þetta. Ég sá hann ekki í réttu ljósi í talsverðan tíma.

 Ég hef heyrt þessa fullyrðingu síðan en blessunarlega sjaldnar og sjaldnar. Það er allt rangt við þessa fullyrðingu. En samt lýsir hún svo nákvæmlega tvískinnungnum sem við höfum búið við.
Því var þannig farið á mínu heimili að pabbi vann úti en mamma heima við. Pabbi fór frakkaklæddur í vinnuna með vindil og skjalatösku. Hann „skaffaði“ og sá um flest utan heimilis. Að þessi fullorðni, ábyrgðarfulli maður sem fór út í heiminn á hverjum degi væri krakki var eitthvað sem gekk ekki upp í höfðinu á mér.
Að heyra svo fleiri konur segja þetta um aðra menn var eiginlega alveg óþolandi.  Sérstaklega vegna þess að þær voru alltaf með þetta þolinmóða, skilningsríka píslarvættisbros á andlitinu. Þetta viðbjóðslega bros sem sagði hljóðlaust: „Boys will be boys.“ Argh!!!


Skilaboðin og skilningurinn á hlutverkum kynjanna var þessi:
Karlarnir ráða öllu og stjórna. Þeir bera ábyrgð á öllum hlutum og konum er ekki treyst til að koma að
Et tu, John Lennon.
stjórn heimsins, hvað þá fjármálum. En, innst inni eru karlar litlir strákar sem konur eiga að hugga og vera góðar við og vera fullorðni og þroskaði aðilinn í sambandinu. Bíddu, hvað!?!
Þvílíka, andskotans kjaftæðið. Og þetta töldu konur sér trú um alveg lon og don. Kannski var það eina leiðin til að þola misréttið, ég veit það ekki.  En hitt veit ég:
Pabbi minn var ekki stærsta barnið á heimilinu. Hann var fullorðinn og þroskaður maður. Alveg nákvæmlega eins og afi minn og maðurinn minn og reyndar flestallir karlmenn sem ég þekki. Auðvitað hef ég hitt óþroskaða karlmenn. Ég hef líka hitt óþroskaðar konur.
Þetta er óþolandi orðatiltæki og lítilsvirðandi gagnvart karlmönnum. Hættum endanlega að nota það.


                  Sýnishorn af þolinmóða, skilningsríka píslarvættis ógeðs brosinu á 0.28.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...