Allt leyfilegt í ást og stríði

Það er mjög vont að búa við óvissu. Það er mjög vont að missa vinnuna sína. Ég veit það, ég hef reynt það á eigin skinni.
Það er líka mjög vont þegar óvissuástandið fær að krauma og malla árum saman. Svona eins og grautur sem er búið að sjóða en stendur síðan á heitri hellunni. Hann verður þykkur, hann verður vondur og brennur á endanum við.
Svona ástand er búið að vara í Þingeyjarsveit árum saman. Skólasameining hefur legið í loftinu, það verður sameinað en hversu margir skólar, hvernig,  það kemur ljós ... einhvern tíma seinna... seinna... seinna. Á meðan varir óvissan og nagar.
Á þessu ástandi ber enginn ábyrgð nema sveitarstjórn Þingeyjarsveitar. Það er sveitarstjórnin sem hefur tafsað, hikstað og dregið lappirnar. Af því hún stendur virkilega í þeirri meiningu að það sé hægt að þóknast öllum. Það er ekki hægt. Hefur aldrei verið. Verður aldrei.
Ég skil mjög vel að því fólki sem þarf að búa við þessa óvissu líði illa. Ég skil líka að það vilji gera allt sem í sínu valdi stendur til að vernda vinnu sína og aðstæður.
Þetta skil ég allt.
En að geta hugsað sér að vega gróflega að starfsheiðri fólks sem hefur ekkert gert annað en að vinna það verk sem það var beðið um, það skil ég ekki.
Ályktun frá kennarafundi Litlulaugadeildar Þingeyjarskóla syrgir mig. Þar er vegið að starfsheiðri tveggja manna, annars vegar Ingvars Sigurgeirssonar og hins vegar Haraldar Líndals Haraldssonar. Í ályktuninni segir:
Kennurum við Litlulaugadeild Þingeyjarskóla finnst þau vinnubrögð Ingvars Sigurgeirssonar við skýrslugerð sína að senda starfsmönnum drögin til yfirlestrar áður en hún var fullkláruð til fyrirmyndar, þó svo að okkur finnist vanta upp á faglegu hliðina sem hann átti að skoða í henni. Okkur finnst hinsvegar skýrsla Haraldar Líndal Haraldssonar illa unnin, þar sem ekki var nóg gert með þær athugasemdir sem gerðar voru að hálfu skólastjóra við yfirlestur, og því er hún full af staðreyndavillum. Einnig finnst okkur kennurum við Litlulaugadeild að okkur vegið í skýrslu Haraldar þar sem ýjað er að því að menn skammti sér hér yfirvinnu eftir hentugleikum. Þar sem þessar skýrslur eru nú orðnar heimildir um skólahald er það verulega bagalegt að ekki skuli farið rétt með staðreyndir. (Undirstrikanir mínar.)
Síðan var þessum ásökunum slegið upp í staðarmiðlinum með vægast sagt villandi fyrirsögn.
Ingvar Sigurgeirsson  er prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands og okkar helsti skólamálafrömuður. En gagnrýnin á hann er hjóm eitt miðað við ásakanirnar sem beint er að Haraldi.
Haraldur L. Haraldsson er reyndur sveitarstjórnarmaður og hagfræðingur og hefur tekið út á annað hundrað grunnskóla. Allt sem stendur í skýrslunni byggir hann á upplýsingum frá skrifstofu sveitarfélagsins og stjórnendum skólans. Sé eitthvað rangt í skýrslunni þá hafa þessir aðilar veitt rangar upplýsingar. Fyrir utan eina óverulega athugasemd telur hann sig hafa tekið tillit til allra athugasemda sem bárust tímanlega.
Að þessu hefðu kennarar Litlulaugadeildar getað komist með einum tölvupósti. Þá hefði mér fundist mun betra ef staðarmiðillinn hefði borið þessar ásakanir undir mennina og leyft þeim að svara fyrir þær frekar en að slá þessu upp í æsifréttastíl.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir