Ákvörðunin

Jæja, þá liggur loksins fyrir ákvörðun um sameiningu starfsstöðva Þingeyjarskóla. Fagna því allir góðir menn. 
Auðvitað eru sumir ánægðari en aðrir. Það lá alltaf ljóst fyrir.

Mér finnst ákvörðunin rökrétt og fagna bréfi meirihlutans sem ég hef vistað á öruggum stað því þegar kemur að sameiningu Þingeyjarskóla og Stórutjarnaskóla þá eiga öll þessi rök betur við Stórutjarnaskóla. Fagnar því enginn nema vond kona úti í sveit.
Að öllu gamni slepptu þá hentar Hafralækjarskóli betur því þótt viðhaldskostnaðurinn sé meiri en viðbygging við Litlulaugaskóla þá eru a) viðbyggingar alltaf leiðinlegar og óhentugar, b) það þarf hvort sem er að fara í þetta viðhald á Hafralækjarskóla. Undan því verður ekki komist nema með sölu. Eða jarðýtu og varla viljum við það.
Ég er ekki heldur jafn sannfærð um þetta gríðarlega mikilvægi Lauga . Ég hef rætt það áður og læt nægja að vísa til þess .
Hins vegar er ég algjörlega sammála því að Framhaldsskólinn sé mikilvægur sveitarfélaginu og mjög mikilvægt að hlúa að honum. Ég skil samt ekki af hverju börnin okkar verði að vera í grunnskóla við hliðina á honum til að vilja fara í hann? Og viljum við virkilega átthagafjötra börnin okkar? Er ekki eðlilegt að þau hafi val eins og önnur ungmenni? Framhaldsskólinn á Laugum hefur líka skapað sér sérstöðu á landsvísu og er spennandi valkostur fyrir mörg önnur ungmenni.

Þótt ég sé ánægð með þessa ákvörðun þá er eitt sem ég velti fyrir mér núna. Ég hélt að þrír fulltrúar væru vanhæfir og þrír fulltrúar viku sæti við afgreiðslu. Einn af þeim var hins vegar ekki einn af þeim sem ég hélt. Ég hafði ekki áttað mig á að annar maður Sveitunga væri vanhæfur. Fyrsti maður Sveitunga er kvæntur kennara í skólanum og er þ.a.l. vanhæfur.  Hann vék hins vegar ekki sæti. Það hefur ekki þýðingu varðandi úrslitin en rétt á að vera rétt. Eiginkonan er reyndar með tímabundna ráðningu og sennilega hefur það skipt sköpum.
En þarna áttaði ég mig á einu: Það sitja sjö fulltrúar í sveitarstjórn, af þeim tengjast fjórir skólanum, þ.e. meirihluti fulltrúa í sveitarstjórn. Nú víkja þeir sæti við afgreiðslu máls en þetta er samt fólkið sem er að stjórna þessu máli.* Þótt hver sveitarstjórnarmaður sé ekki bundinn af neinu nema sinni eigin sannfæringu þá eru það samt aðalmennirnir sem leggja línurnar, við þurfum ekki að vera með einhvern þykjustuleik varðandi það.
Að meirihluti fulltrúa í sveitarstjórn tengist inn í skólann finnst mér ekki rétt gott.

*Sumir hafa setið sem fastast á fundum sem leiddu til þessa fundar og tillögu.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista