sunnudagur, janúar 25, 2015

Þingeyjarsveit er víða

Ég tók meðvitaða ákvörðun um að skrifa lítið um sveitarstjórnar- og skólamál fyrir nokkru. Ég hef samt fylgst með og ég virði tilraunir sumra Reykdælinga til að hnekkja ákvörðun meirihlutans. Þetta eru kostir lýðræðissamfélags með óheftu tjáningarfrelsi. Ég er engu að síður undrandi á þeirri ályktun að þegar tveir skólar séu sameinaðir komi aðeins önnur staðsetningin til greina. Ég trúi ekki að að hinn mikli meirihluti íbúa sem samþykkti sameininguna í skoðanakönnuninni hafi ekki áttað sig á að það væru helmingslíkur á því að skólinn þeirra yrði fluttur.
Þetta er tilfinningamál og sumir hafa látið frá sér undarleg ummæli. Sum eru mjög heiðarleg eins og t.d. þetta þar sem viðkomandi segir beinum orðum að hann vilji bara hafa skólann hjá sér.


Já, við í sveitinni viljum það gjarnan líka.

Ýmislegt er sagt í hita leiksins og það er bara eins og það er. Meira segja þegar fulltrúar mínir í sveitarstjórn upplýstu það að einn angi sveitarfélagsins skipti þá meira máli en aðrir lét ég það liggja á milli hluta. Samt kaus ég Sveitunga en ekki Laugalistann.



Í gær var mér hins vegar nóg boðið. Þá rakst ég á þessa athugasemd í undirskriftasöfnun til stuðnings kyrrsetningu Litlulaugaskóla.



Ég veit að þetta er ein skoðun einnar manneskju en ég veit líka að skoðanir myndast ekki í tómarúmi.
Fullyrðingin fyrir því að bændur skili litlu útsvari er rökstudd með því að þeir borgi lægri fasteignagjöld. Ég hélt reyndar að útsvar byggðist á tekjum en það er nú svo fátt sem ég veit og skil. Það er alveg rétt að bændur borga lægri fasteignagjöld en bændur þurfa líka mjög stórar byggingar undir sinn atvinnurekstur. Við erum t.d. með fjós, fjárhús, hlöðu, verkstæði og vélaskemmu. Þá standa þrjú íbúðarhús á lóðinni. Það getur verið að við borgum lægri prósentu af atvinnuhúsnæðinu en við borgum talsvert meira til sveitarfélagsins í fasteignagjöldum en margur. Jafnvel fyrirtæki á Laugum.
Bent er á þá staðreynd að tekjur þurfi að koma annars staðar frá og talið upp að á Laugum sé alls konar fyrirtækjarekstur  m.a. rafmagnsverktaki. Eflaust hefur hann einhverja aðstöðu, ég bara hreinlega veit það ekki. Á Laugum var rekið rafmagnsverkstæði sem hætti fyrir nokkru. Það hætti áður en ákveðið var að flytja skólann svo ekki var það nú það sem olli.
Hins vegar er líka rafmagnsverktaki í Útkinn sem rekur stærðarinnar járnsmíðaverkstæði ásamt bróður sínum. Útkinn tilheyrir Þingeyjarsveit, bara svo það sé á hreinu.
Í Útkinn er líka rekið bakarí. Það er líka rekið bakarí í Hraunkoti. Hraunkot er í Þingeyjarsveit svo því sé haldið til haga.
Það er rétt að verslun er rekin á Laugum. Það er reyndar líka rekin verslun á Fosshóli. Og jú, það er framhaldsskóli á Laugum og hausaþurrkun sem ekki er annars staðar.
Hins vegar er skógrækt á Vöglum sem veitir 5-6 heilsársstörf.
Þá er tiltekið að rekin sé ferðaþjónusta á Laugum. Já, einmitt það er bara rekin ferðaþjónusta á Laugum. Það er nefnilega ekki rekin ferðaþjónusta í Rauðuskriðu, á Fosshóli, Staðarhóli, Draflastöðum, Illugastöðum og í Árbót svo eitthvað sé nefnt. Ég biðst afsökunar ef ég er að gleyma einhverjum sem ég er örugglega að gera. Er þá ónefnd bændagistingin.

Þingeyjarsveit er víða. Ekki bara á Laugum.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...