Fara í aðalinnihald

Kennslufræðilegar spekúlasjónir

Mig langar að bæta mig sem kennara. Það verður að viðurkennast að ég hef helst beitt útlistunaraðferðinni, stend uppi við tjaldið og renni í gegnum glærupakka. Svo legg ég fyrir verkefni til að neyða nemendur til að lesa. Draumurinn er að nemendur mæti undirbúnir í tímann og að umræður skapist. Sá draumur rætist sjaldan. Því miður finnst nemendum ekkert sérstaklega gaman að lesa, og það einskorðast ekki við minn skóla. Og hins vegar þá eru nemendur misáhugasamir um að tjá sig. Yfirleitt eru einn til tveir nemendur sem taka þátt í „umræðunum“. Það eru auðvitað ekki miklar umræður og aðrir nemendur geta upplifað kennslustundirnar þannig að kennarinn sýni sumum nemendum meiri áhuga en öðrum.

Þá bendir Ingvar Sigurgeirsson á í bók sinni Litróf kennsluaðferðanna að það sé hálf tilgangslaust að eyða tíma í að staggla í gegnum bókina í tímum þegar nemendur eiga að lesa heima.*
Það er tvennt sem kemur til að ég hef hangið á þessari aðferð: Þetta er hin hefðbundna kennsluaðferð og hún er ósköp þægileg. Hins vegar, og þetta skiptir ekki síður máli, þá vil ég endilega „vinna vinnuna mína.“ Þegar ég er inni í kennslustofunni þá á ég að kenna. Ég er tiltölulega sannfærð um að ég sé ekki ein um þessa tilfinningu. En mikið er ég hrædd um að þetta sé einhver sú versta kennsluaðferð sem til er. 


Mig langar mjög mikið að breyta kennsluháttum mínum en það er erfitt að mjaka sér upp úr hjólfarinu. Ég veit heldur ekki alveg hvernig ég á að fara að því. Ég er t.d. að skrifa þetta bara til að hjálpa sjálfri mér að hugsa. Svo eru góð ráð auðvitað alltaf vel þegin.
Við kennarar í FSH fórum í heimsókn í Fjölbrautarskóla Snæfellinga í haust.  FSN er opinn skóli, kennt að mestu í einum sal og allt opið á milli. Ég veit ekki alveg hvort allir kennararnir séu búnir að kasta námsbókunum en einhverjir eru búnir að því. Kennarinn sem ég talaði mest við notaði enga bók heldur notaðist við leitaraðferðir og svo settu nemendur upp heimasíðu.
Mig langar að herma eftir þessu að ákveðnu leyti. Ég treysti mér ekki til að kassera bókinni, verð að hafa öryggisnet.
Það sem ég er að hugsa er að setja upp heimasíðu (og það eru hæg heimatökin fyrir alla með google-aðgang) þar sem að nemendur myndu síðan vinna inn útdrætti, glósur og ítarefni úr bókinni. Ef ég tek sem dæmi ÍSL403 þá myndi ég byrja á að setja upp í kassa h-in 5; hver, hvað, hvers vegna, hvar og hvenær. T.d svona:

Hver
Hvað
Hvers vegna
Hvar
Hvenær
Marteinn Lúther
Mótmælti því að katólska kirkjan gæti selt aflátsbréf
Ekki hægt að kaupa sig frá syndinni.
Spilling innan kirkjunnar
Þýskalandi
1483 – 1546

Þá myndi ég setja fram einhver verkefni og t.d. Gerið grein fyrir Jóni Arasyni og/eða Sviðsetjið aftöku Jóns og sona hans miðað við frásögnina í Rótum úr Skarðsárannál.
Innlifunaraðferðir og tjáning held ég að séu góðar þótt ekki sé nema bara til að breyta til og hafa gaman. Þarf að fá einhvern til að kenna okkur hringdans.

Svo með tímanum myndi nemendur sjálfir fylla inn í kassann. Sjálf myndi ég samt alltaf fara almennt yfir kaflana og draga fram aðalatriðin.
Ég las núna í jólafríinu áðurnefnda bók Ingvars Litróf kennsluaðferðanna. Þar talar hann um tvenndarnám eða tvenndarvinnu sem mér lýst vel á. Þá myndu tveir og tveir vinna saman annar sem gerandi (doer) hinn sem athugandi (observer). Þá vinnur annar nemkandinn en hinn metur og svo snýst það við. Ég er farin að nota svona jafningjamat svolítið, mér finnst nemendur átta sig betur á eftir hverju við erum að leita og hvað er verið að æfa.
Þá myndi ég líka nota hópavinnu talsvert t.d. púslaðferðina en Ingvar vinur minn bendir á að: „Alkunna er að fáar aðferðir duga betur til að læra námsefni en að þurfa að kenna það öðrum.“ (Ingvar, bls. 146)
Þetta er það sem ég er að spá og eins og áður sagði þá þigg ég gjarna góð ráð og ábendingar.

*Það eru skiptar skoðanir um heimanám. Nú er hins vegar verið að taka upp svokallaðar feiningar eða F-einingar í framhaldsskólum og heimanám er beinlínis byggt inn í þann útreikning.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Að greinast með krabbamein

 

Fáránleg staða

Eins og lesendur hafa kannski tekið eftir þá hef ég verið að endurbirta, lítillega uppfærða, greinargerð sem hefur verið aðgengileg á netinu frá því 7. júní í fyrra. Ég vakti reyndar ekki athygli á henni fyrr en í október eftir kattamálið og fékk hún talsverðan lestur þá.  Vegna þessarar endurbirtingar er núna verið að reyna að setja mér einhverja úrslitakosti. Það sem er nú kannski merkilegast við það er sú staðreynd að þetta er greinargerðin sem viðkomandi dreifði sjálfur út um allt í nóvember 2017.  Það eru ekki margar konur svo æðislegar að m.a.s. þegar menn hata þær þá vilja þeir samt búa sem næst þeim og gera allt til að svo verði sem lengst. En út á nákvæmlega það ganga þessir afarkostir. Ég verð að segja eins og er að þessi staða er einhver sú fáránlegasta sem ég hef upplifað og er þó orðin eins gömul og á grönum má sjá. Meðeigendurnir fullyrða báðir að þeir vilji selja. Við viljum kaupa. Peningarnir liggja í bankanum og bíða eftir að verða borgaðir út

Sannleikurinn, slúðrið og ástin.

  Eftir að ég varð “klikkaða kerlingin á Hálsi” þá hef ég tekið kjaftasögum með mun meiri fyrirvara en áður. Ég hef lært að orðatiltækið „sjaldan veldur einn er tveir deila“ er kjaftæði og sannleikann er ekki endilega að finna í miðjunni á sitthvorri hliðinni. Sumir eru fullfærir um að valda og viðhalda deilum alveg einir árum saman og ljúga út í eitt. Ég hef líka fengið staðfest að það virðist mega tala hvernig sem er um konur og miðaldra konur alveg sérstaklega séu mun ómarktækari en aðrar. Þá eiga konur sem veikjast að einbeita sér að veikindum sínum. Ekki eyða orkunni í eitthvað annað. Ekki samt tala um veikindin. Bara halda kjafti. Helst úti í horni. Með þessa reynslu í farteskinu hefur mér fundist erfitt að fylgjast með fréttaflutningi og umræðum um Sólveigu Önnu annars vegar og mál Jóns Baldvins hins vegar. Orðræðan um Sólveigu Önnu hjó mjög nærri; klikkuð og erfið. Þetta er mjög algeng orðræða um konur, sérstaklega þær sem neita að læðast meðfram veggjum. Sólveig Anna benti