þriðjudagur, apríl 28, 2015

Illa dulin hótun um brottrekstur



Meirihluti sveitarstjórnar og
sveitarstjóri Þingeyjarsveitar.



Hálsi 28. apr. 2015



Á fjögurra ára fresti fer fram kosning til sveitarstjórnar. Frambjóðendur gera grein fyrir málefnum sínum og setja fram ýmis konar loforð sem þeir hyggjast standa við nái þeir meirihluta eða berjast fyrir ella.

Þér náðuð áframhaldandi meirihluta í kosningunum og framlengduð samning við áður handvalinn sveitarstjóra.

Fram hefur farið undanfarið tæpt ár mat á hæfi yðar til að standa við loforð yðar sem og almennri hæfni til stjórnsýslu. Eftir yfirferð gagna og þeirra upplýsinga sem liggja fyrir bendir allt til að aðrir standi yður framar þegar kemur að störfum við stjórnsýslu.

Skal þar tiltekið:

  • Ógegnsæi. Ákvarðanir teknar bak við luktar dyr og íbúum og minnihluta sveitarstjórnar skammtaðar upplýsingar eftir geðþóttaákvörðunum yðar.
  • Valdníðsla. Leysa upp nefndir því skoðanir minnihlutafulltrúa eru yður ekki þóknanlegar.
  • Hroki. Þegar fólk stendur frammi fyrir mögulegum atvinnumissi er gert lítið úr ótta þess með útúrsnúningum.
  • Ómennska. Í stað þess að sýna fólki sem stendur frammi fyrir því að missa lífsviðurværi sitt skilning er reynt að níða það niður í svaðið.
  • Áhugaleysi gagnvart hag sveitarfélagsins. Í stað þess að sýna mennsku og skilning þeim íbúum og útsvarsgreiðendum sveitarfélagsins sem eru að missa atvinnu sína er þeim sýnd slík lítilsvirðing að ólíklegt má telja að þeir vilji búa hér áfram, atvinnulausir og niðurlægðir af sveitarstjórn sinni og sveitarstjóra.
  • Kæruleysi gagnvart lögum. Þrátt fyrir tæplega 40 ára samanlagða reynslu af sveitarstjórnarsetu datt engu yðar í hug að fletta upp í lagasafni og athuga hvort kosningaloforð um íbúakosningu í hluta sveitarfélagsins stæðist lög.
  • (Líklegt) Brot gegn meðalhófsreglu. Að segja aðeins upp starfsmönnum annarrar tveggja starfsstöðva sem lagðar eru niður.
  • Skortur á skynsemi. Miðað við þau sár sem þegar er búið að veita samfélaginu á Laugum eru þessar einhliða bréfasendingar með hreinum ólíkindum.
  • Kosningaloforðasvik. Í kosningabaráttunni lofuðuð þér gegnsærri stjórnsýslu og samtali við íbúa. Allt hefur þetta verið svikið.

Þér getið reynt að telja yður trú um að þér séuð: „gott fólk í góðu samfélagi að gera sitt besta.“ En staðreynd málsins er að gott fólk kemur ekki svona fram við annað fólk, svona framkoma skapar ekki gott samfélag og ef þetta er yðar besta þá er það einfaldlega ekki nógu gott.

Yður er heimilt að mótmæla eins og þér viljið.

Áréttað er að ef þér bætið yður ekki getur það leitt til þess að þér verðið hrakin úr starfi.

Virðingarfyllst;


_______________________________________
Ásta Svavarsdóttir íbúi og útsvarsgreiðandi.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...