Héraðsmiðillinn 641.is sendi meirihluta sveitarstjórnar, byggingarfulltrúa og sveitarstjóra Þingeyjarsveitar fyrirspurn í leiðara nýverið.
Meirihlutinn svarar í dag.
Nú gæti ég sagt ýmislegt um loftárásir og ad hominem rökvilluna* en ritstjórinn boðar andsvör seinna í dag. Hermann er stór strákur og getur séð um sig sjálfur.
Nei, það er hugtakanotkun sem ég ætla að velta fyrir mér.
Í bréfinu sem birt er í dag segir:
Í þessum hópi sitja ekki kjörnir fulltrúar því þeir tímar eru liðnir að þeir séu með nefið niðri í störfum stjórnsýslunnar.
Það er sem sagt alveg ljóst að meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar lítur ekki á sig sem aðila að stjórnsýslunni!
Ég hef alltaf skilið hugtakið stjórnsýslu á þann veg að það væri framkvæmdarvaldið, þ.e. handhafar framkvæmdarvaldsins og fulltrúar þeirra. Þ.a.l. hef ég alltaf staðið í þeirri meiningu að fyrirbærið sveitarstjórn væri hluti stjórnsýslunnar, þeir fulltrúar sem ákvörðunar- og framkvæmdarvaldið hefðu.
En auðvitað þarf ekki að byggja á mínum málskilningi, það er hægur vandi að gúggla.
Á Wikipedia segir:
Opinber stjórnsýsla, eða bara stjórnsýsla til hægðarauka, nefnist mótun og framkvæmd stefnu ríkisvaldsins. Í ríkjum þar sem ríkisvaldinu er skipt er átt við störf framkvæmdarvaldsins. Með opinberri stjórnsýslu er þá ekki átt við störf löggjafarvaldsins eða dómsvaldsins. Framkvæmdarvaldið skiptist gjarnan í tvö eða fleiri stjórnsýslustig, eins og ríki og sveitarfélög. Þannig snýst opinber stjórnsýsla að miklu leyti um rekstur og starfsemi opinberra stofnana þar sem opinberir starfsmenn starfa. Sem undigrein lögfræðinnar nefnist stjórnsýsla stjórnsýsluréttur.
Og:
Sveitarfélag er svæðisbundin stjórnsýslueining innan ríkis sem er lægra sett en yfirstjórn ríkisins. Sveitarfélög hafa yfirleitt skýrt ákvörðuð landamörk og taka oft yfir eina borg, bæ eða þorp eða sveitahérað. Ein skilgreining á sveitarfélagi er að þau séu lægstu stjórnsýslueiningarnar sem hafa lýðræðislega kjörna stjórn.
Sveitarstjórn er sem sagt stjórn stjórnsýslueiningarinnar sveitarfélag og ef það gerir hana ekki að hluta stjórnsýslunnar þá veit ég ekki hvað.
Hins vegar tel ég það afarsælast að Samstaða sé sem minnst með nefið ofan í störfum stjórnsýslunnar. Það er önnur saga.
*Bréfið er beinlínis stílað á Hermann í Lyngbrekku en ekki ritstjóra 641.is.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli