fimmtudagur, júní 04, 2015

Opið bréf til Inga Freys

Ágæti Ingi Freyr.
Ég las pistil þinn Það sem við tölum um þegar við tölum um mafíósa í Skagafirði sem birtist á vef Stundarinnar nýlega.  Pistillinn er hreint ágætur eins og flestir þínir pistlar. Hins vegar finnst mér bera á ákveðnu þekkingar og/eða skilningsleysi gagnvart veruleika fólks sem býr í fámennum samfélögum.
Núna skulum við setja upp ímyndaðar aðstæður. Setjum upp lítið þorp sem í búa um 1500 manns. Í þorpinu er rekin fiskvinnsla og segjum kaupfélag þótt það sé óheppileg tenging. Fiskvinnsluna á sama fjölskyldan og stofnaði hana 1940. Kaupfélagið er í almenna eigu en einhverra hluta vegna hefur sami ættboginn stjórnað því nánast frá stofnun. Þetta er eitt af því fyrsta sem þú myndir frétta ef þú flyttir í þorpið. Ef þú býrð einhverja stund á staðnum kemstu að því að stórbóndi fyrir utan bæinn hefur líka talsvert að segja um það sem gerist í þorpinu.
Svo kemstu allt í einu að því að ættartengsl skipta talsvert meira máli í þorpinu en í Reykjavík. Tengsl sem fólk í Reykjavík flokkar ekki sem skyldleika er það svo sannarlega í þorpinu.
Þú veist að allir topparnir í fiskvinnslunni eru ættingjar, það er jú einkafyrirtæki. En allt í einu áttar þú þig á því að flestallir sem vinna fyrir kaupfélagið eru líka á einhvern hátt eru skyldir eða tengdir.
Það er lýðræðisleg kosning í þorpsráð og allar helstu ættirnar eiga fulltrúa í því.


Ókey, þetta er svo sem allt í lagi á meðan ekkert gerist. Segjum nú sem svo að þú vinnir við snyrtingu  í fiskvinnslunni af því að það eina vinnan sem aðfluttir og illa ættaðir geta fengið í þorpinu. Og ekki misskilja mig, það er ekkert að heiðarlegri vinnu. En þú ert kominn með slæma vöðvabólgu í herðarnar og langar til að breyta um starf. Einn daginn er síðan auglýst nýtt starf, segjum í afgreiðslu í kaupfélaginu og þú hugsar með þér: „Jess! Þetta er akkúrat starfið fyrir mig.“ Það eina sem vantar upp á er að þú hefur ekki farið á námsskeiðið „Hvernig á að greina þjófa skjótri svipan“ en þú vannst í búð í tíu ár í Reykjavík og hefur næmt auga fyrir þjófum. Og þú ferð að spyrja í kaffinu hvort einhver ætli að sækja um og að þú sért að velta því fyrir þér. Þá færðu vorkunnarfull augnatillit úr öllum áttum og loks er þér sagt í hálfum hljóðum: „Manstu þegar yngsta dóttir fjarskylda ættingja einhvers fékk frí um daginn? Hún fór á námskeiðið „Hvernig á að greina þjófa í skjótri svipan.“ Á þessum tímapunkti áttar þú þig á því hvernig heimurinn virkar. Þú sækir um starfið en færð það auðvitað ekki. Þú getur kært og jafnvel unnið og fengið bætur en starfið færðu ekki. Þú ert hins vegar orðinn „erfiður.“ Þú veist að þetta er ósanngjarnt. Þú veist að þetta er ekki í lagi en hvað ætlarðu að gera? 

Fljótlega ferðu að heyra utan að þér að yngsta dóttir fjarskylda ættingjans sé ekki bara miklu hæfari í raun í starfið heldur sért þú eiginlega illa hæfur í því starfi sem þú ert núna. Skyndilega ertu kominn í hættu með að missa lífsviðurværið þitt. Hvað ætlarðu að gera?
Öll þurfum við ákveðin grundvallaratriði til að lifa af: Þak yfir höfuðið og mat. Til að geta veitt okkur og okkar þetta þurfum við aðgang að fjármagni. Atvinnuleysisbætur geta, eða ættu að geta, bjargað þessum nauðþurftum. Til að geta veitt okkur og okkar eitthvað meira þá þarf vinnu.
Við þurfum líka að hafa félagslegt net. Við viljum eiga vini. Við viljum að börnin okkar eigi vini. Jú fyrirkomulagið er rotið, þorpsbúarnir vita það allir. En þegar þú ferð út með mótmælaspjaldið og gjallarhornið þá koma þeir ekki með þér. Skiljanlega. Fiskvinnslan og kaupfélagið eru grundvöllur þorpsins. Þú getur látið prinsippin ráða og steytt hnefann og misst vinnuna. En húsið þitt selst ekki. Ættingjar konunnar þinnar búa allir á staðnum. Vinir barnanna þinna. Hvað ætlarðu að gera?
Ekki dæma þorpsbúana, Ingi Freyr. Þeir eru bara að reyna að lifa af.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...