Upplýsingar um "kvörtunina"*

Eins og fram hefur komið óskaði ég eftir aðgangi að starfslokasamningi á milli Þingeyjarsveitar og fráfarandi skólastjóra Þingeyjarskóla. Þingeyjarsveit synjaði aðgangi og kærði ég synjunina til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Kæran er nú í ferli.
Þingeyjarsveit synjaði aðgangi á grundvelli 5. greinar upplýsingalaga nr. 50 frá 1996 og telur að samningurinn innihaldi upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni einstaklings sem eðlilegt sé að leynt fari.
Ég tel rétt að taka fram að ég hef engan áhuga á einkamálefnum viðkomandi einstaklings. Ég hef hins vegar talsverðan áhuga á meðferð sveitarstjórnar á fjármunum sveitarfélagsins.
Núverandi meirihluti sveitarstjórnar hefur setið að völdum frá því Aðaldælahreppur hinn forni var sameinaður Þingeyjarsveit. Stjórnsýsla þeirra og vinnubrögð hafa því miður ekki verið til fyrirmyndar og hefur kostað sveitarfélagið og þar með okkur íbúana talsvert fé. 
Má m.a. nefna þegar gengið var fram hjá hæfari umsækjanda í stöðu eldvarnareftirlitsmanns sem leiddi til stjórnsýslukæru og greiðslu bóta. Þegar gengið var fram hjá hæfari umsækjanda í stöðu deildarstjóra tónlistardeildar Hafralækjarskóla sem leiddi til kæru og greiðslu bóta. Þegar HLH var fenginn til að skrifa skýrslu en ekki veittar réttar upplýsingar svo skýrslan sem kostaði talsvert var ekki fyllilega rétt. 

Skólarnir eru stærstu vinnustaðir sveitarfélagsins og helstu útgjaldaliðir. Hægt er að nokkru leyti að sjá hvernig fjármálum þeirra er varið í ársreikningum sveitarfélagsins. Þá er einnig hægt að sjá að miklu leyti hvernig launamálum við skólana er háttað þar sem kjarasamningar eru opinber gögn og almennt aðgengilegir á heimasíðum viðkomandi stéttarfélaga. Um starfslokasamninga gilda hins vegar engin lög og engar reglur. Það hlýtur að teljast fullkomlega óeðlilegt að stjórnvald hafi  möguleika á að semja um hvað sem er, að útdeila opinberum fjármunum hvernig sem því sýnist og bera svo fyrir sig "trúnað." 

Þá væri stjórnvaldi í lófa lagið að fela stjórnvaldslegt klúður í svona samningum. T.d. kaupa sig undan lögsókn með veglegum starfslokasamningum sem jafnvel innihalda þagnarákvæði.
Ég er ekki að segja að það hafi gerst en möguleikinn er til staðar og það nægir.

Nú hefði verið fyllsta ástæða til að óska eftir öllum starfslokasamningunum en ég tók ákvörðun um að gera það ekki. Í nýju upplýsingalögunum sem taka gildi í Þingeyjarsveit 1. jan. 2016 er gerð ríkari upplýsingakrafa um laun æðstu stjórnenda og ákvað ég að hafa það til hliðsjónar. Þá velti ég fyrir mér að bíða þar til þau lög tækju gildi en í þeim er einnig ákvæði um einka- og fjárhagsmálefni og því eflaust verið beitt. 

Ef fólk vill kynna sér upplýsingalögin og tilgang þeirra má benda á bækling forsætisráðuneytisins Upplýsingalög - í þágu almennings.

 *Lögfræðingur sveitarfélagsins vísar til mín sem "kvartanda" á einum stað en ekki kæranda. Leiðinlega lýsandi fyrir allt viðhorfið.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir