laugardagur, febrúar 20, 2016

Ósköp voru rökin rýr...

Í aðdraganda og framkvæmd sameiningar Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla fannst mér alltaf eðlilegt að Hafralækjarskóli væri valinn. Hann er byggður sem skóli og hentar betur til skólastarfs að mínu auðmjúka áliti. Hins vegar ræð ég ekki neinu og strangt tiltekið skiptir mitt álit afar litlu nema á fjögurra ára fresti þegar ég greiði atkvæði.

Í desember þegar ég var nýbyrjuð í jólafríi og var í verkefnafráhvarfi setti ég saman bækling um skólamálaumræðu í sveitarfélaginu frá síðasta bæklingi. Ég las eða skimaði yfir allar greinar og sá þá að Samstaða setti fram mun rýrri rök fyrir flutningnum í Hafralækjarskóla en mig minnti.


Í kosningabaráttunni lagði Samstaða áherslu á fjárhagslega hagræðingu sem myndi nást með sameiningunni.
Sjá t.d hér. (bls.3)

Svo voru skrifaðar skýrslur og þær voru kynntar. Þar kom fram:
 Bjarni Þór Einarsson byggingatæknifræðingur gerði mat á rýmisþörf og ástandi á núverandi skólahúsnæði á báðum starfsstöðvum og gerði grein fyrir því á fundinum. Hans mat er að húsnæði Hafralækjarskóla sé yfirdrifið og rúmi vel alla nemendur Þingeyjarskóla. Húsnæðið þarfnast þó mikilla endurbóta og metur hann viðhaldsþörfina á húsnæði Hafralækjaskóla upp á 477 milljónir króna, ef koma á húsnæðinu í gott stand. Það væri þó hægt að framkvæma það vildhald á lengri tíma. Ástand húsnæðis Litlulaugaskóla er gott en það rúmar ekki alla nemendur Þingeyjarskóla. Til þess að svo megi verða þarf að byggja við skólann og metur hann kostnaðinn við það vera um 250-300 milljónir króna. (bls. 20)

Það verður ekki fram hjá því litið að Litlulaugaskóli rúmar ekki alla nemendur Þingeyjarskóla en það er samt ódýrara að byggja við Litlulaugaskóla en að koma Hafralækjarskóla í „gott stand.“

Samstaða lagði svo til á sveitarstjórnarfundi að starfsemin yrði flutt í Hafralækjarskóla. Engin greinargerð fylgdi með þeirri tillögu af því að ekki átti að „leggja fræðslunefnd til forskrift“ áður en hún fengi tillöguna til umfjöllunar. Hvernig einhverjum getur mögulega dottið í hug að það að meirihluti sveitarstjórnar leggi eitthvað til og vísi svo til undirnefndar sinnar sem er skipuð af því sama fólki sé ekki forskrift er með ólíkindum en það er eins og það nú er.

Að vísu sendi Samstaða íbúum bréf á síðu Þingeyjarsveitar þann sama dag og greindi frá hinum mörgu ástæðum sínum fyrir tillögunni. Þær eru:

·         Húsnæði Hafralækjarskóla uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til skólahúsnæðis. Húsnæðið er tekinn út eins og annað opinbert húsnæði með reglulegum hætti af eftirlitsaðilum s.s. Eldvarnareftirliti, Vinnueftirliti og Heilbrigðiseftirliti.*

Ber að skilja þetta sem svo :
a) að húsnæði Litlulaugaskóla uppfylli ekki allar kröfur sem gerðar eru til skólahúsnæðis? Samt hefur skóli verið starfræktur þar áratugum saman.
b) að húsnæði Litlulaugaskóla hafi ekki verið tekið reglulega út með opinberum hætti af eftirlitsaðilum?! Hvernig má það vera og hver ber ábyrgð á því!?

·         Skólinn er miðsvæðis með tilliti til skólaaksturs

Ég ber ekki á móti því. En bendi á að þegar Stórutjarnaskóli verður settur í pottinn þá er hann miðsvæðis og ég ætlast til að þessi rök standi líka þá.

·         Skólinn er vel búinn og í ágætu ástandi

Er hann betur búinn en Litlulaugaskóli? Hvernig stendur á því? Af hverju er skólum sveitarfélagsins mismunað varðandi búnað?
Bjarni Þór Einarsson sagði í sinni skýrslu að húsið værið komið í „verulega viðhaldsþörf.“ Ef það er „ágætt ástand“ þá vil ég ekki vita hvernig þau skilgreina slæmt ástand.
·        
 Skólinn hefur mikið og gott pláss og aðstöðu til að kenna flestar greinar

Litlulaugaskóli hafði hvorki mikið né gott pláss en hann hafði aðstöðu til að kenna flestar greinar og gerði það.
Stórutjarnaskóli hefur enn meira og betra pláss til að kenna flestar greinar bara svo því sé haldið til haga fyrir framtíðina.
·         Skólinn hefur aðgang að Ýdölum til notkunar fyrir íþróttir, leiksýningar, hátíðarhöld og samkomuhalds

Litlulaugaskóli hafði aðgang að íþróttahöllinni svo ég sé ekki alveg vigtina í þessu.
·       
  Skólahúsnæðið er í eigu sveitarfélagsins og hægt er að flytja alla starfsemi þingeyjarskóla í húsnæðið án mikils kostnaðar

Öh, gildir ekki það sama um Litlulaugaskóla?
·        
Húsnæðið krefst viðhalds sem hægt er að halda innan viðráðanlegra fjárútláta á næstu árum

Reynslan hefur sýnt að „viðráðanleg fjárútlát“ eru talsvert sveigjanlegt hugtak.
·        
Við getum ekki réttlætt það að byggja nýjan skóla á Laugum þegar sveitarfélagið á húsnæði sem uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til skólahúsnæðis

Það er alveg sjónarmið (og ég minni aftur og enn á hið ágæta húsnæði Stórutjarnaskóla.) Hins vegar var ekki nauðsynlegt að byggja nýtt hús, það nægði að byggja við. Skv. skýrslu Bjarna er viðbyggingin ódýrari en kostnaðurinn við að koma Hafralækjarskóla í „gott stand.“
Út frá hagkvæmnissjónarmiðum var það ekki rökrétt að flytja skólann að Hafralæk nema fyrir þá sök sem fram kom á fundi Foreldrafélags Litlulaugaskóla og Krílabæjar:

Fulltrúar meirihlutans ... tóku það jafnframt fram að ekki stæði til að fara út í 250 milljóna króna viðhaldsframkvæmdir á Hafralækjarskóla, sem samkv. skýrslu Bjarna Þórs Einarssonar þyrfti til, ef koma á húnæðinu á Hafralæk í gott stand. (bls. 45)

Vissulega vil ég að gætt sé aðhalds í fjármálum sveitarfélagsins en ég vil samt frekar að vel sé um börn sveitarfélagsins búið. Ég kann því illa að börn séu látin eyða lungann úr deginum í húsnæði sem uppfyllir ekki kröfur um góðan aðbúnað.  
Þau rök sem Samstaða setti fram til stuðnings ákvörðun sinni eru ósköp veigalítil þegar grannt er skoðað. Það er slæmt því það ýtir undir þann grun margra að ákvörðun hafi legið fyrir löngu áður en út í ferlið var farið. Það sem síðan hefur gerst gerir lítið annað en að styrkja þann grun.



*Málfræðivillan er í upphaflega bréfinu. Beinar tilvitnanir verða að vera trúar uppruna sínum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...