Þorrablótspistill

Aðalþorrablót Þingeyjarsveitar var í gær, þorrablót Ljósvetninga í Ljósvetningabúð.
Þar var etið, drukkið og glaðst og allt hið besta mál. 
Það er samt eitt sem ég verð að koma inn á þar sem eitt af mínum helstu stefnumálum í meintu forsetaframboði er að koma út piparsveinum.
 
Hér er mikið af einhleypum körlum og meira af körlum en konum á landsbyggðinni almennt. Svo ég
verð að segja: Strákar, hvað á það eiginlega að þýða að hanga einhvers staðar utan danssalar og kjafta við hvern annan? Á sama tíma sitja einar konur við borð. Í alvöru, þetta er ekki í lagi. Þið skuluð ekki dirfast að kvarta yfir fólksfækkun á landsbyggðinni ef þið axlið ekki ykkar samfélagslegu ábyrgð!

Ég er ekki að ætlast til að fólk komi lofað af þorrablótum en ég ætla að vera eins og hrafninn sem miðar allt við sjálfan sig og fullyrða að það er miklu skemmtilegra að vera á böllum ef maður dansar. Svo má vona. 

Ein móðir sagði mér eitt sinn að sonur hennar piparsveinninn reyndi að bjóða upp en stúlkurnar afþökkuðu flestar alltaf pent. Auðvitað er höfnunin alltaf erfið, líka fyrir karlmenn, svo það er ekki skrítið að þeir gefist upp á endanum. Þannig að ég ætla ekki að láta strákana eina bera ábyrgð á þessu. 

Ég veit svo sem ekki hvernig á að leysa þetta vandamál (og já þetta er vandamál, hugsið um fækkun skólabarna for crying out loud!) En á sínum tíma þegar ég var í þorrablótsnefnd þá var ég að möndla með hugmynd um danskort. Að allir piparsveinarnir fengju danskort og þeir sem fengju staðfestingu x margra kvenna um dans settu danskortið sitt í pott og gætu unnið verðlaun (eitthvað svona macho bænda shit eins og þeir hafa áhuga á. ) Það yrðu náttúrulega settar reglur um lágmarksaldur kvenna og giftar konur mættu ekki kvitta og svoleiðis. Alla vega að eitthvað yrði gert til að ýta á garpana til að bjóða upp konunum sem sitja og horfa á aðra dansa. Sem er glatað strákar og þið að kjafta frammi. Glaaataaað. 
Ég fékk þessu að vísu ekki framgengt þar sem upp kom ótti um að gæjarnir þyrðu ekki að mæta. Hversu sorglegt er það?

Þorrablótsvertíðinni er að ljúka núna en ég hvet nýjar nefndir til að setja þetta í hux.



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir