Þess vegna er mér misboðið.

Í 10 fréttum sjónvarps í gærkvöldi kom Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur og til að greina stöðuna í þjóðfélaginu, að ég held.
Stefanía gerði sem minnst úr þeim upplýsingum sem skekið hafa þjóðfélagið undanfarna daga og sagði m.a.: "Fólki er misboðið, sumir eru ríkari en aðrir." Tónninn og svipurinn sem fylgdi þessari yfirlýsingu staðfesti orðin; það er bara öfund og smáborgaraháttur sem þjakar meirihluta þjóðarinnar. Einmitt.


Nei, Stefanía, mér er alveg sama þótt sumir séu ríkari en ég. Ég þarf stundum að nurla og get ekki leyft mér allt sem mig langar en ég hef aldrei verið fátæk né liðið skort. Það eru ekki allir jafn heppnir og ég.

Það sem misbýður mér er að hér á landi er fólk, ég mun eftirleiðis nota hið fordómafulla hugtak "þetta fólk", sem er svo ógeðslega ríkt að það veit ekki aura sinna tal. Það telur sig ekki vera stóreignafólk þótt það noti 40 milljónir til að kaupa hlut í íbúð á Dubai. Það veit ekki einu sinni hvar það geymir 40 milljónirnar sínar.

Það misbýður mér að þetta fólk skuli taka milljarða úr íslensku hagkerfi, þótt það segist borga af því skatta. Á meðan peningarnir eru í skattaskjólum erlendis þá eru þeir ekki inni í efnahagsflæðinu hérna á Íslandi að skapa verðmæti.
Ég minni á "New Deal" Roosevelts sem tókst á við kreppuna miklu. Peningarnir verða að vera í umferð. Á meðan við, þessi sem erum minna rík en hinir, klóruðum okkur upp úr kreppu lágu milljarðar gagnslausir í skattaskjólum. 
Við skulum ekki gleyma að þetta fólk skapaði kreppuna hér 2008 einmitt með því að mergsjúga peninga úr kerfinu.

Það misbýður mér að þetta fólk sem veit greinilega ekkert um það hvernig almúginn hefur það sé að stjórna landinu á þann hátt að það gagnist því sjálfu best. 
Það er unnið hörðum höndum að því að eyðileggja velferðarkerfið og menntakerfið. Landsspítalinn okkar er að niðurlotum kominn og menntakerfið hefur verið vængstýft. Svo á að einkavæða heilbrigðisþjónustu og menntakerfi svo að þetta fólk geti nú notið betri þjónustu en við hin og menntað börnin sín betur en við hin.

Það misbýður mér að einkavæðing þessa fólks byggist á því að einkavæða gróða og ríkisvæða skuldir. Svo það er ekki nóg með að þetta fólk njóti betri þjónustu á allan hátt en ég, ég þarf samt  líka að borga fyrir  það! Svo þarf ég að borga meira fyrir verri þjónustuna sem mér er boðið upp á.

Það er þetta sem misbýður mér, ekki það að einhver sé ríkari en ég. 

Svo vil ég vinsamlegast biðja RÚV um að velja stjórnmálaskýrendur sem eru ekki með gilt flokksskírteini í vasanum framvegis.


Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir