Herra Bjarni Benediktsson.
Fyrirgefðu að ég skrifi þér í páskafríinu en ég held að þú sért eini maðurinn sem getur leyst þann vanda sem upp er kominn í íslenskri pólitík og samfélagi.
Ég ætla ekki að neita því að ég hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn og sé ekki að ég muni nokkurn tíma gera.
Nú er svo komið að forsætisráðherra sem er formaður samstarfsflokks ykkar í ríkisstjórn er rúinn öllu trausti og meirihluta fólks gróflega ofboðið. Til marks um hve ofboðið fólki er þá hurfu hryðjuverkin í Brussel í skuggann á skattaskjólsmálinu.
Stjórnarandstaðan mun leggja fram vantrauststillögu sem verður felld því ríkisstjórnarflokkarnir hafa, eðli málsins samkvæmt, meirihluta á Alþingi. Ég veit ekki hvort hægt sé að leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherrann einan en mér þykir augljóst að slík tillaga verði einnig felld því þingmenn þínir yrðu þá að koma fram sem einstaklingar og kjósa gegn ráðherranum.
Forsætisráðherrann er berst um á hæl og hnakka og hikar ekki við að taka fleiri með sér í fallinu. Hann gerir Landsbanka Íslands ábyrgan fyrir stofnun aflandsreikningsins og segir bankann hafa mælt með slíkum reikningum við efnaða Íslendinga. Viðbjóðslegra siðleysi á ég erfitt með að ímynda mér og við skulum ekki gleyma tengslum Illuga Gunnarssonar við Landsbankann.
Þá er Eyjan, málgagn Framsóknarmanna, byrjuð að ýja að vitneskju um fleiri aflandsreikninga og nefnir í sama pistli að Sjálfstæðismenn séu ekki duglegir að koma forsætisráðherranum til varnar. Hreinni verða hótanirnar ekki.
Þannig að möguleikarnir eru eftirfarandi:
a) Sigmundur situr áfram í þínu skjóli, almenningi til armæðu. Við munum halda að vörnin komi til af því að þið hafið eitthvað að fela.
b) Sigmundur situr áfram en almenningi er svo ofboðið að hann mun knýja fram afsögn ykkar. Það hefur gerst áður, vanhæf ríkisstjórn, manstu.
c) Þú sest í forsætisráðherrastólinn.
Ég skal alveg viðurkenna að ég vil endilega að skattaskjólslistinn verði birtur og/eða þið farið frá völdum en ég sé það ekki gerast. Þú ert hins vegar að mínu auðmjúka áliti mun álitlegra forsætisráðherraefni en Sigmundur. Ef þið skiptið, eins og Halldór og Davíð gerðu um árið, þá myndi skapast ró í samfélaginu. Sigmundur má samt ekki verða fjármálaráðherra. Hann getur tekið sér frí, klárað námið sitt og orðið sendiherra á Tortóla með tíð og tíma.
Hugsaðu málið.
Kveðja,
Ásta
Engin ummæli:
Skrifa ummæli