Bestu vinir Kinnar

Ég verð að viðurkenna það; stundum finnst mér halla á okkur Kinnunga í sameinaðri Þingeyjarsveit. Við höfum engan skóla, engan yfirmann (bara hálfan deildarstjóra), sveitarstjórnin vill endilega selja okkar félagsheimili en ekki önnur. Þannig að já, ég hef verið dálítið hvekkt. En svo áttaði ég mig á því um daginn að þótt sveitarstjórnin í Þingeyjarsveit kunni ekki að meta okkur þá kann ríkisstjórnin og Vegagerðin það svo sannarlega. 
Síðastliðið sumar var gert við Skjálfandabrúna við Ófeigsstaði (Kinnarbrúna). Brúin er víst ekki upp á sitt besta samt sem áður svo til að tryggja öryggi Kinnunga er búið að lækka hámarkshraðann töluvert. Það er nefnilega meiri hristingur eftir því sem hraðar er keyrt og meiri líkur á að brúin hrynji því hraðar sem er farið. Þess vegna má aðeins keyra á 30 km/klst yfir brúna. Og til að tryggja öryggi okkar enn frekar þá er lögreglan iðulega á ferli og sektar þessa óábyrgu ökumenn eða hreinlega sviptir þá ökuleyfi. Að sjálfsögðu, það er til lítils að sækja vinnu eða nauðsynjar til Húsavíkur ef maður ætlar bara að hrynja ofan í Skjálfanda.  Það er þá betra að sitja heima og svelta, það segir sig alveg sjálft.


Ríkisstjórninni og Vegargerðinni finnst líka alger óþarfi að setja bundið slitlag á Bárðardalsveginn. Enda er það alger óþarfi fyrir fyrir nokkrar holur. Mér finnst liggja alveg ljóst fyrir að ef það springur tvisvar á sama sjúkrabílnum þegar hann er að flytja sjúklinng á milli heims og heljar á sjúkrahús þá hljóti nú bara að vera illa léleg dekk undir sjúkrabílnum ef hann þolir ekki nokkrar holur. 


Ég verð bara að segja það að ég er þakklát ríkisstjórninni og Vegagerðinni fyrir umhyggju hennar í garð okkar Kinnunga. Það virkilega hlýjar hjartarótunum.
Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista