Á listin að gjalda mannsins?

Eitt af því fyrsta sem mér var kennt í bókmenntafræðinni forðum daga var að höfundurinn væri dauður. Roland Barthes gaf út formlegt dánarvottorð 1967 í grein sinni La mort de l'auteur. Greinin var þýdd og gefin út í greinasafninu Spor í bókmenntafræði 20. aldar sem ég keypti og las auðvitað samviskusamlega. 
Kenningin gengur út á það að ekki eigi að greina verk ævisögulega, þ.e. að ævi og persóna höfundarins skipti litlu sem engu máli þegar kemur að túlkun verksins.
Í bókmenntafræðinni horfðum við á myndina The Fearless Vampire Killers sem Roman Polanski leikstýrði og lék í. Myndin gerir grín að blóðsugusögum og -bíómyndum og mér þótti hún frekar fyndin á þeim tíma.


Á þessu bókmenntafræðilega hryllingsskeiði horfði ég líka á Rosemary's baby og fannst hún góð sem slík.
Á þessum tímapunkti, um miðjan tíunda áratuginn, var það ekki í einhverju hámæli að Polanski hafði nauðgað ungri stúlku. Ég hreinlega man ekki hvort ég vissi um það eða hvort það var gert lítið úr því. En það var seinna sem þessi umræða varð meira áberandi og almenn samúð fluttist til stúlkunnar.

Vissulega er maðurinn perraskratti og glæpamaður. En á ég að hætta að horfa á myndirnar hans?
Hvar endar maðurinn og listamaðurinn tekur við? Eða er þetta sami maðurinn? 
Ég hreinlega veit það ekki.

Nú hefur mér alltaf leiðst þessi ímynd um listamanninn sem leyfist allt og kemst upp með allt af því að hann er svo mikill listamaður. Að því leyti tengi ég saman listamanninn og einstaklinginn. 
Ég er mikill Bubba aðdáandi en mig hefur aldrei langað að hitta Bubba því ég held að hann sé hundleiðinlegur. Ég vil ekki að maðurinn Bubbi eyðileggi fyrir mér listamanninn Bubba.
Þegar ég stóð fyrir framan Mónu Lísu í Louvre hér um árið þá fann ég sterkt til þess að ég væri nálægt verki sem Da Vinci hefði sjálfur snert.

Þannig að þið sjáið að ég sjálf hef enga hugmynd um hvar aðgreiningin liggur. 

Woody Allen, Roman Polanski og Casey Affleck eru bara peð í listasögunni og í rauninni lítill missir þótt ég sniðgengi allar þeirra myndir. 

En ég velti samt fyrir mér hvort ég eigi að gera það því ég veit ekki hvort listamaðurinn og maðurinn séu eitt og hið sama.

Get ég notið listaverks ef listamaðurinn er ógeð? Bukowski var ógeð. Á ég að afskifa hann?
Það er vissulega vont að verðlauna fólk sem við vitum að hefur brotið af sér. En hvar liggja mörkin? Á að fordæma verk sem eru framleidd eftir að glæpurinn er framinn? Eða á að fordæma öll verkin?

Ég er ekki að taka afstöðu, ég hreinlega veit ekki hvað mér á að finnast.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista