Vegna Vaðlaheiðarganga

Varúð: Mjög persónuleg færsla.

Ég bý vitlausu megin við Víkurskarðið. Á veturna gerist það iðulega að skarðið er illfært og all oft ófært.

Sumarið 2007 var ég gengin 24 vikur á leið þegar barnið hætti að hreyfa sig. Litla stúlkubarnið mitt var dáið.
Ég varð ófrísk aftur ári síðar og var sett í byrjun nóvember. Meðgangan gekk vel á allan hátt en ég þarf væntanlega ekki að taka fram að ég var frekar stressuð. Vegna forsögu minnar var ég metin sem áhættumeðganga og læknirinn minn sagði að ekki kæmi til greina að ég gengi með allan tímann og alls ekki fram yfir. Ég lagðist því inn á fæðingardeild föstudaginn 24. okt. 2008 þar sem framköllun fæðingar var ákveðin næsta mánudag. 
Við hjónin vorum lengur á leiðinni en til stóð því Víkurskarðið var lokað og við þurftum að fara Dalsmynnið. Maðurinn minn kom síðan aftur til mín á sunnudeginum því veðurútlit var víðsjárvert.
Þetta gekk allt vel hjá okkur og líka hjá Húsavíkurhjónunum sem áttu barn sama dag þótt þau hafi þurft að keyra í gegnum storminn og snjóhríðina.

Fjórum árum seinna varð ég aftur ófrísk. Orðin fjórum árum eldri og með sjaldgæfan sjálfsofnæmissjúkdóm í ofanálag. Aftur var ég metin áhættumeðganga og þurfti að fara reglulega, yfir Víkurskarð, í vaxtarsónar. Þá voru auknar líkur á að barnið myndi fæðast fyrir tímann vegna sjúkdómsins.

Þetta fór allt vel og ég á tvo flotta stráka. En það er ekki góð tilfinning að búa við þær aðstæður þegar svona stendur á að geta ekki treyst því að komast á sjúkrahús.

Í mínum huga snúast Vaðlaheiðargöng ekki um að stytta leiðina til Akureyrar um 9 mínútur. Þau snúast um miklu meira.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista