Einherjinn


Í gömlu húsi draugar dansa
dauðinn hverju horni í.
Héðan Frigg mun engu ansa
ekkert grær í húsi því.

Sest þar hefur hatrið að,
heiftin brýnir stálið.
Mælir eitur, mylur það.
Magnar hatursbálið.

Einherjinn hefst þar villtur við,
Valhöll hvergi finnur.
Sorgin engin gefur grið,
grimmdin alltaf vinnur.

Bara kuldi, engin ást.
Eflist hatursrótin.
Að aðrir þurfi að þjást,
það er eina bótin.

Gengnir horfa hryggir á
hrakin burtu framtíð.
Næsta kynslóð flæmd er frá
fjölda ára sinnar hlíð.

Situr einn í brota borg
brostnar vonir,  þrár.
Getur einhver sefað sorg?
Sært upp betri ár?





Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir