Þvinguð nærvera


Ég ætla að setja upp fræðilegt dæmi. Vinsamlegast athugið að fólk og atburðir eru tilbúningur.

Það búa gömul hjón í blokkaríbúð í Reykjavík. Þau eiga fullorðna dóttur sem var lengi í sambandi með manni sem bjó með henni og börnunum hennar. Þegar á leið kom í ljós að maðurinn átti við erfiðleika að stríða.  Látum nægja að segja að sambúðin var mjög erfið. Hann veittist einnig að hjónunum þegar þau komu að málum en þau lögðu ekki fram kæru frekar en dóttir þeirra. Maðurinn hefur því engan dóm á bakinu. Það var alls konar djöfulgangur sem gekk á sem kom aldrei til kasta dómstóla en gömlu hjónin vita um. Dóttirin og maðurinn hafa slitið samvistir en eiga enn í deilum um eignir, maðurinn er að reyna að eigna sér hlut í íbúð dótturinnar sem hún átti ein.

Batnandi manni er best að lifa og eftir því sem gömlu hjónin vita best hefur maðurinn tekið sig á síðastliðin ár í sínu einkalífi. Hann er m.a.s. kominn í vinnu. Hann vinnur hjá einkapóstþjónustu í Reykjavík og kemur reglulega með sendingar í blokkina til gömlu hjónanna. Hefur lykil að stigahúsinu.

Hjónunum finnst þetta óþægilegt. Þeim finnst óþægilegt að hitta manninn reglulega og hafa jafnvel dálítinn beyg af honum. Hann gerir þeim ekkert en pósturinn þeirra er stundum krumpaður í póstkassanum og hann leynir ekki andúð sinni í svipbrigðum og háttalagi.
Þau ákváðu því að hafa samband við fyrirtækið og athuga hvort möguleiki væri að annar maður bæri út í húsið til þeirra. Fyrirtækið brást ókvæða við. Það hætti ekki að láta manninn bera út í hús gömlu hjónanna, það hætti bara að bera út póstinn til þeirra. Ef gömlu hjónin vildu fá póstinn sinn urðu þau að sætta sig við reglulega nærveru mannsins.

Er þetta eðlilegt? Getur fyrirtæki þvingað nærveru manns upp á fólk? Hjónin eru ekki að fara fram á að maðurinn sé rekinn, þau eru aðeins að fara fram á að hann verði fluttur í annað hverfi.
Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista