Fara í aðalinnihald

Gamall, reiður femmi er hugsi

Ég hef fylgst með og tekið þátt í femínískri baráttu frá því ég var ungmenni í menntaskóla. Femínísk barátta hefur, eins og allt, farið í gegnum nokkrar breytingar. Nú er svo komið að ég hef verið flokkuð með „gömlum, reiðum femmum.“ Mér fannst það pínu vont fyrst en svo umfaðmaði ég nafngiftina, þótt í karlkyni sé. Ég er sumsé gamall, reiður femmi bara svo því sé haldið til haga.

Þegar ég var virkari í baráttunni þá fannst mér eðlilegt að minnihlutahópar* stæðu saman. Án þess ég ætli nánar út í það þá komst ég að því að aðrir minnihlutahópar styðja femíníska baráttu ekki jafnvel og þeim finnst að femínistar eigi að styðja þeirra baráttu. Vitna ég þá til ákalls ábyrgra feðra sem spurðu sí og æ: „Hvar eru femínistarnir nú?“

Alla vega, til að gera langa sögu stutta, þá komst ég að þeirri niðurstöðu að femínistar ættu að standa með og berjast fyrir konur. Það má vissulega styðja og taka undir baráttu annarra minnihlutahópa en aukin réttindi kvenna til jafns við aðra hlýtur að vera í forgangi.

 Vendi ég nú kvæði mínu í kross.

Setjum sem svo að ég vinni á skrifstofu verkalýðsfélags og mér finnist yfirmaðurinn minn, lýðræðislega kjörinn formaður verkalýðsfélagsins, algjörlega ómögulegur. Það er ekki bara mér sem finnst það heldur eru talsvert fleiri sammála mér í þessu mati. Við erum nógu mörg með nógu mikil umkvörtunarefni til þess að okkur finnist ástæða til að fara í hart. Á þessum tímapunkti hlýtur að liggja ljóst fyrir að það eru tvær mögulegar niðurstöður í málinu:

1.       Málið leysist farsællega og allir verða vinir.

2.       Málið leysist alls ekki heldur harðna deilurnar og varla vinnufært á skrifstofunni.

Verði niðurstaða 2. ofan á þá eru þrír möguleikar í stöðunni:

a.       Fólk heldur áfram að „vinna saman“ og vera óánægt. Öllum líður illa og veikindadögum fjölgar fram úr hófi. Þjónusta gagnvart umbjóðendum versnar.

b.       Yfirmaðurinn fer.

c.       Óánægði hópurinn fer.

Þetta veit ég áður en ég held af stað í baráttuna.

Yfirmaðurinn og kjarni í kringum hann er ekki sammála umkvörtunum okkar og setur fram sínar umkvartanir.  Það fæst engin niðurstaða og allt er í járnum. Yfirmaðurinn velur leið b. og fer.

Nema hvað. Yfirmaðurinn fyrrverandi býður sig aftur fram til formennsku og fær endurnýjað umboð í lýðræðislegum kosningum. Hvernig ber mér að skilja það? Ég hlýt að skilja það þannig að fólk vill hafa þennan formann og að hann sé þá yfirmaður á skrifstofunni. Ef ég get ekki hugsað mér að vinna undir hans stjórn þá hlýt ég að vilja fara. Ef ég segi upp þá fæ ég ekki atvinnuleysisbætur á meðan ég leita mér að annarri vinnu en ef mér er sagt upp þá fæ ég atvinnuleysisbætur.  Hver er besta mögulegan niðurstaðan úr því sem komið er? Jú, að mér verði sagt upp.

Það er alveg rétt að fjöldauppsagnir eru ekki af hinu góða. Ég skil hins vegar ekki hvernig nokkrum getur dottið í hug og í alvöru ætlast til að Sólveig Anna hafi virkilega átt að koma aftur inn á skrifstofuna og halda áfram að vinna með fólki sem hefur látið það mjög bersýnilega í ljósi að það vill ekki vinna með henni. Og vinsamlegast takið eftir að ég er ekki að taka afstöðu í deilunni sem slíkri. Kannski er Sólveig Anna alveg ómöguleg. Það breytir því samt ekki að hún var kosin, meirihlutinn valdi.

Ég hef staðið í deilum og tapað. Það er ömurlegt. Það var samt mikill léttir að losna úr aðstæðunum.

Af hverju er ég að fara í gegnum þetta í smáatriðum? Vegna þess að eftir að Sólveig Anna var kosin aftur og sagði upp fólki á skrifstofunni þá hefur mikilsmetandi fólk haldið því fram að ekki sé hægt að styðja baráttu Sólveigar vegna þessara uppsagna.

Núna þekki ég Sólveigu Önnu ekkert nema af því sem ég hef séð til hennar á opinberum vettvangi. Já, hún er mjög beinskeytt og orðhvöss. Ég held að hún sé nákvæmlega það sem verkalýðsbaráttuna vantar á Íslandi. Reyndar finnst mér vanta harðari verkalýðsbaráttu almennt í öllum heiminum. Misskipting auðsins eykst og eykst og ríkasta 1% sölsar undir sig æ meira. Verkalýðsbaráttan hefur verið mjög kurteis undanfarna áratugi og hverju hefur hún skilað?




Það er ekki nokkrum vafa undirorpið í mínum huga að hin harðneskjulega meðferð sem Sólveig Anna hefur hlotið í fjölmiðlum og í opinberri umræðu er fyrst og fremst vegna þess að hún er kona. Það er alveg margsannað að konur fá miklu verri útreið en karlar.

Þess vegna var ég mjög ánægð með grein Stefáns Ólafssonar í Vísi 2. febrúar sl. þar sem hann ræðir um meðferðina á Sólveigu Önnu.

Í gær birti svo Sóley Tómasdóttir hugleiðingar sínar um grein Stefáns. Og núna lendi ég í vandræðum. Ég skil það sem Sóley segir. Auðvitað á ekki einhver karl að segja femínistum fyrir verkum. Einstaklingsdýrkun er hættuleg og femínísk barátta hefur verið um of á forsendum menntaðra kvenna.

Það sem ég hnýt um er sú orðræða að baráttuaðferðir Sólveigar Önnu sé karllægar. Hvað þýðir það eiginlega? Fyrir mörgum árum heyrði ég sagt: „Ég er kona, allt sem ég geri er kvenlegt“ og var eignað Simone de Beauvoir. Skal viðurkennt að ég finn ekki tilvitnunina. Er virkilega verið að álasa Sólveigu Önnu fyrir það að beita ekki nógu kvenlægum baráttuaðferðum? Hvað þýðir þetta eiginlega?


Fann þessa tilvitnun.


Það sem mér þykir verst er að feðraveldið hefur tekið grein Sóleyjar og deilt henni sem enn einni svipunni á Sólveigu Önnu.

Hef ég þá tekið þá afstöðu að styðja Sólveigu Önnu skilyrðislaust? Nei, það hef ég ekki gert. Ég tók hins vegar þá ákvörðun fyrir mörgum árum síðan að ég myndi styðja konur og baráttu okkar fyrir jöfnum réttindum skilyrðislaust.

 

*Minnihlutahópur vísar til þess að bera minna úr býtum í samfélaginu. Ekki þess að hópurinn sé fámennari. 

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Að greinast með krabbamein

 

Fáránleg staða

Eins og lesendur hafa kannski tekið eftir þá hef ég verið að endurbirta, lítillega uppfærða, greinargerð sem hefur verið aðgengileg á netinu frá því 7. júní í fyrra. Ég vakti reyndar ekki athygli á henni fyrr en í október eftir kattamálið og fékk hún talsverðan lestur þá.  Vegna þessarar endurbirtingar er núna verið að reyna að setja mér einhverja úrslitakosti. Það sem er nú kannski merkilegast við það er sú staðreynd að þetta er greinargerðin sem viðkomandi dreifði sjálfur út um allt í nóvember 2017.  Það eru ekki margar konur svo æðislegar að m.a.s. þegar menn hata þær þá vilja þeir samt búa sem næst þeim og gera allt til að svo verði sem lengst. En út á nákvæmlega það ganga þessir afarkostir. Ég verð að segja eins og er að þessi staða er einhver sú fáránlegasta sem ég hef upplifað og er þó orðin eins gömul og á grönum má sjá. Meðeigendurnir fullyrða báðir að þeir vilji selja. Við viljum kaupa. Peningarnir liggja í bankanum og bíða eftir að verða borgaðir út
Látið ekki sakleysislegt útlitið blekkja! Já, við fyrstu sýn virðist þetta ósköp eðlilegur köttur. En hún er það ekki! Ég var hringd út um tvöleytið í dag því að þessi vargur, þessi glæpaköttur hafði ráðist á litlu, sætu kisustelpuna mína þar sem hún svaf í sakleysi sínu. Þær voru í fangbrögðum þegar litla systir sleit þær í sundur! Og litla, sæta kisustelpan mín var öll útklóruð með, ég er gjörsamlega miður mín, bitsár á bringunni. Svo það var brunað upp á Dýraspítala þar sem hún var sprautuð með pensilínsprautu. Það er ekki nóg með að verða fyrir svona svívirðulegu launsátri heldur þurfti hún að fara í bíl! Og fá sprautu! Á meðan skraðræðisgripurinn var heima og hrósaði sigri og þóttist aldeilis hafa tekist að hrekja keppinautinn að heiman. Þegar við komum aftur heim og Snotra litla, fórnarlambið, faldi sig uppi í glugga og rétt gjóaði einu auga í genum rifu til að fylgjast með ofbeldisseggnum, þá lá Kolfinna í leyni fyrir Dúlla. Ég ætlaði að taka hana upp og ræða þessa hegðun