Vandamál og lausnir

 


Ég hef reynt að nálgast lífið á þann hátt að það séu engin vandamál heldur bara lausnir. Gengur vissulega ekki alltaf en ég reyni. Ég hef líka tekið eftir því að til er fólk sem finnur vandamál við öllum lausnum. Nýverið birtist færsla í opnum og fjölmennum hópi á facebook þess efnis að fullorðinn einstaklingur sem er klaufi í ensku gat ekki gert sig skiljanlegan á sölustað og fékk ekkert að borða. Þurfti því að fara svangur á braut. Uppleggið var spurningin hvort það væri til of mikils mælst að afgreiðslufólk á Íslandi talaði íslensku. Þegar ég las innleggið fannst mér vandamálið vera að viðkomandi fékk ekki að borða (grundvallarþörf) á ferðum sínum um landið og benti á að til væru alls konar þýðingaröpp fyrir snjallsíma. Þetta innlegg mitt uppskar hláturkall frá upphafspóstanda svo það var greinilega ekki aðalvandinn, vandamál var að afgreiðslufólk talaði ekki íslensku. 

Nú hefur það verið rætt ítarlega að starfsfólk á hinum ýmsu stöðum tali ekki íslensku og það sé ekki gott, sérstaklega ekki gagnvart þeim Íslendingum sem tali ekki ensku. Mælt hefur verið með er að við kúnnarnir hjálpum starfsfólkinu að læra íslensku. 


Setjum þetta upp: 

Vandamál: Starfsfólk talar ekki íslensku. 

Lausn: Viðskiptavinir kenna starfsfólkinu íslensku. 


  1. 1. Við erum í vegasjoppu, þreyttir og svangir ferðalangar standa í röð og vilja afgreiðslu. Ég bið um kaffi á íslensku. “Sorry I don’t understand.” Ég: “Oh no. This is impossible! You are working in Iceland you have to speak Icelandic. Kaffi, kaaaffffiiiii is coffee in Icelandic...” Sjáið þið þetta í anda? Væruð þið ekki til í að standa í röðinni á bak við mig?  


  1. 2. Ég sé bara enga ástæðu til þess að vinna launalaust í mínum frítíma. Það er miklu fljótlegra að skipta bara yfir í ensku, ég er ágæt í ensku svo þetta er ekkert vandamál fyrir mig. Ég vil bara fá kaffibolla, punktur. 


  1. 3. Flest starfsfólk er yfirleitt hér á Íslandi í 3-4 mánuði, það þjónar afar litlum tilgangi að kenna því íslensku.  


  1. 4. Flestir ferðamennirnir sem fólkið er að afgreiða eru útlendingar svo það er óþarfi að tala íslensku í meirihluta tilfella. 


Eftir stendur að örfáir Íslendingar fá ekki þjónustu vegna vankunnáttu í ensku. Er einhver lausn á því? Já. Það er hægt að hafa matseðlana á bæði íslensku og ensku, er m.a.s. þannig í flestum tilvikum. Það er hægt að benda á það sem maður vill og svo er hægt, wait for it.... að fá sér þýðingarapp í símann. Það er líka hægt að láta starfsfólkið vera með þýðingarapp hjá sér.  

Ég vil ekki að fólk haldi að ég sé að gera lítið úr þessu. Nú vil ég veg íslenskunnar sem mestan og bestan. Þetta er bara ekki vandamálið sem þarf að leysa. 


Vandamálið er: Af hverju eru Íslendingar ekki að vinna þessa vinnu?  


Sennilegast þykir mér að hún sé ekki nógu vel launuð. Lausnin á þessum vanda er því að hækka launin. Það er hér sem hnífurinn stendur í kúnni. Ef launin verða hækkuð þá fá eigendurnir ekki nógu mikinn milljarðahagnað. Það gengur auðvitað ekki svo hækkuðum launakostnaði verður velt út í verðlagið. Erum við tilbúin að greiða þann kostnað?  Lausnin á þessum vanda er einföld:
 

Hættum þessari misskiptingu sem viðgengst í heiminum og alveg sérstaklega á Íslandi og borgum fólki mannsæmandi laun. Það er ekki að fara að gerast því ríka liðið mun aldrei samþykkja að missa spón úr aski sínum. Beinið reiðinni þangað en ekki að saklausu fólki sem er bara að reyna að vinna fyrir sér. 

Kennum fólki íslensku. Þá er ég að tala um það fólk sem kemur hingað til búsetu. Það er tíma- og peningasóun að kenna skammtímabúum íslensku, við hljótum að vera sammála um það. En fólk sem kemur hingað til að setjast að á rétt á því að læra tungumálið. Og já, mér finnst að ríkið eigi að borga það.  


Annars bara góð. 

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber