miðvikudagur, janúar 24, 2007

Þjónustufulltrúar

Í tvö skipti á stuttum tíma hef ég sent þjónustufulltrúanum mínum tölvupóst og beðið um lítilsháttar bankaþjónustu. Í bæði skiptin hef ég fengið póst til baka þar sem mér er bent á að ég geti sinnt þessu í netbankanum. Ætli hann geri sér grein fyrir því að hann vinnur að því hörðum höndum að útrýma starfinu sínu?

laugardagur, janúar 20, 2007

Það er ekki gallalaust

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár og svoleiðis.
Bloggletin stafar að miklu leyti af símalínusambandinu, ég nenni bara ekki að sitja við tölvuna og svo var bara allt meinhægt. Þar til núna. Verð aðeins að hella úr skálum pirringsins.

Þar sem það er allt útlit fyrir að ég sé flutt alfarin út á land þá ákvað ég að selja íbúðina mína í Reykjavík. Ég var með fína leigjendur sem fengu aðra íbúð svo ég ákvað að skella íbúðina bara í sölu. Hún er metin lægra heldur en eins íbúðir í nærliggjnadi húsum og er ég nú ekkert sérstaklega sátt við það en fasteignasalinn bendir á að hinar íbúðirnar séu nú ekkert að fljúga út svo ég sætti mig við þetta. Ungur maður hefur áhuga og skoðar og gerir svo tilboð milljón lægra en beðið er um. Ókey, strákinn langar að leika svo ég geri gagntilboð sem er 250 þús. lægra en upphaflega var beðið um. Daginn eftir fæ ég gagn-gagntilboð þar sem ungi maðurinn hefur hækkað sig um alveg heilar 200 þús. Ég segi fasteignasalanum ég nenni nú ekki einu sinni að svara þessu. Ég sé ekki tilbúin að lækka mig um meira en 400 þús. frá uppsettu verði. Ég sé búin að hafa talsverðan kostnað af íbúðinni, borgaði utanhússviðgerð upp á rúmar 600 þús. og væri nýbúin að borga viðgerð í stigaganginum upp á 160 þús. Fasteignasalinn spyr hann megi segja stráknum þessa tölu og ég játa því. Seinna um daginn klukkan hálf fimm þegar ég er stödd í jólainnkaupum á Akureyri hringir fasteignasalinn og kemur með enn eitt tilboðið frá stráknum sem er 650 þús. lægra en upphaflega var farið fram á. Þetta sé það hæsta sem hann er tilbúinn að fara og, til að kóróna allt saman, tilboðið gildir bara til klukkan 18:00 þennan dag. Svaka stælar. Ægilegur töffari. Ég var tilbúin að skoða þetta tilboð en þessir stælar fóru bara það mikið í mig ég gat ekki tekið því. Mér líkaði ekki maðurinn, mér líkaði ekki framkoman og hann gat bara átt sig. Mér lá ekkert á að selja íbúðina. Ég gat bara fundið nýja leigjendur og beðið. Þar með slítum við fasteignasalinn samtalið.
Daginn eftir þegar ég er að keyra suður hringir síminn. Fasteignasalinn vildi endilega fara yfir stöðu markaðsins og íbúðarinnar og svona. Drengurinn er búinn að hækka sig um alveg heilar 50 þús. og fasteignasalinn mælir eindregið með að ég taki tilboðinu. Þá er hann búinn að ná henni niður um 600 þús. frá því sem sett var upp. Ég ákveð að samþykkja það. Það er gengið frá sölunni stuttu eftir áramót.
Fyrir rúmri viku síðan hringir fasteignasalinn. Kaupandinn er að heimta skaðabætur vegna leynds galla. Það voru viðarþiljur í svefnherbergisveggnum og stofuveggnum, sami veggurinn hann bara dekkar bæði stofu og svefnherbergi. Viðarþiljurnar voru þarna þegar ég keypti og voru þarna ósnertar þegar hann kaupir. Þetta rífur hann niður og undir eru sprungur. Viðgerðir upp á hundruði þúsunda. Þetta er innveggur í 50 ára gömlu húsi svo hvernig hann fær þetta út er mér óskiljanlegt.
Persónulega held ég að drengurinn hafi aldrei ætlað sér að standa við samninginn að fullu. Hann vildi fá íbúðina á lægra verði og hann ætlar sér að fá það fram með öllum ráðum. Ef það hefði ekki verið þetta þá hefði það bara verið eitthvað annað. Mér finnst það hins vegar engan veginn í lagi að það sé hægt að gera manni tilboð í eign, fá hana afhenta og eyðileggja hana fyrir mér því hann ætlaði sér alla vega að rífa allt út, og fara svo fram á afslátt. Ef hann vildi ekki borga svona mikið fyrir íbúðina þá átti hann ekki að bjóða svona hátt. Bara drullast í burtu og leyfa mér að selja einhverjum öðrum.
Hann fór með þetta í fasteignasöluna en hún virðist vera alveg stikkfrí.
Mér finnst líka skrítið að fasteignasalan fær 1.95% af söluhagnaði og sú þóknun rýrnar ekkert þótt söluverðið lækki í raun ef hann fær sínu framgengt.
Best að taka það fram að það segja mér allir að ég þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu, lögin og dómafordæmin séu öll mér í hag. Þetta er bara ves.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Dót fyrir stóra stráka

Fór á vetrarsýninguna í iþróttahöllinni á Akureyri í gær. Þar var aðallega verið að sýna vélsleða og svoleiðis dótarí. Það sló mig talsvert að annars vegar var auglýsing sem sagði: ,,Icehobby - dót fyrir stóra stráka" og hins vegar var eitthvert vörumerki sem sagði síðan: ,,Fyrir alvöru menn með hreðjar". Einhverra hluta vegna fannst mér ég ekkert sérstaklega velkomin þarna.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Long time no see

Jamm, ég hef verið upptekin. Annars vegar við persónulegt drama og hins vegar við leikritaskrif. Ég er orðin víðfrægt leikskáld. Var nefnd á nafn í þriðjudagsmogganum, hvorki meira né minna.

Helstu update eru eftirfarandi:

Ég hætti í leikfiminni. Ég borgaði of fjár fyrir að losna við bakverkinn í sumar og svo borgaði ég of fjár fyrir að hoppa hann í mig aftur. Nú er ég búin að panta tíma hjá sjúkraþjálfaranum. Ossið er pissed.

Mikið rosalega er ég orðin þreytt á ,,málflutningnum" talibanar, torfkofar og hundasúrur. Samstarfsmaður minn er það hins vegar ekki. Hann verður fljótlega myrtur.

Þvottavélin mín er að gefa upp öndina.

Þeir eru margir aumingjarnir en einn veit ég mestan.

Þjóðmálin:

Mikið rosalega kann Árni Nonsense ekki að skammast sín. Og ,,tæknileg mistök". Pikkaði þetta beint upp úr málsvörn morðingja eftir að þeir myrtu ,,óvart" konur og börn.

Praktísk atriði:

Ef einhverjir ætla að gefa mér George Michael pakkann í jólagjöf þá vil ég bæði fá DVD diskinn og, takið eftir þetta er mjög mikilvægt: þriggja diska geisladiskinn.

laugardagur, október 21, 2006

Hvalveiðarnar

Ég ætla að segja það strax í byrjun að vissulega á þjóðin að ráða sér sjálf og nýtingu sinna auðlinda. En...

Íslendingar hafa ekki stundað hvalveiðar í 17-20 ár og þorskstofninn er ekki hruninn. Hvalveiðimenn hafa ekki gengið atvinnulausir um göturnar heldur þvert á móti hefur hvalveiðibannið skapað atvinnu við hvalaskoðun hér og hvar. Aðallega Húsavík. Fátækt fólk hefur ekki soltið heilu og hálfu hungri vegna brotthvarfs hvalkjöts úr verslunum. Það er til fólk sem á ekki til hnífs og skeiðar en það er ekki vegna skorts á hvalkjöti.
Mig grunar að öll þessi eftirspurn eftir hvalkjöti sé byggð á einhverjum misskilningi. Ég grillaði hrefnukjöt í sumar. Einu sinni, bara til að prufa. Það var ágætt. Ég get ekki hugsað mér að borða neitt annað hvalkjöt og annað hvalkjöt var ekki sýnt i fréttinni um hvalkets eftirspurnina. Japanir borða hvalkjöt en þeir fullnægja sinni eftirspurn fullkomlega sjálfir. Það er enginn markaður fyrir þetta kjöt. Svo af hverju í ósköpunum er verið að hefja hvalveiðar aftur?
Það er tvennt sem mér dettur í hug.
Við álversandstæðingar vorum aðeins of duglegir að benda á hvalaskoðun sem mótvægi. Ekki eina mótvægið og ekki aðalmótvægið en gott dæmi. Ferðamenn eru þegar byrjaðir að afpanta í hvalaskoðun á Húsavík. Þegar ríkisstjórnir eru búnar að ganga af öllum atvinnuvegum landsbyggðarinnar dauðum þá kemur auðvitað sú stund að jafnvel hörðustu andstæðingar samþykkja helvítis álverið eða flytja ella. Það er ekki um neitt annað að ræða.
Hin ástæðan held ég að sé að ríkisstjórnin er að gefa Bandaríkjamönnum langt nef eins og óþroskaður krakki. ,,Ókey, þú vilt ekki leika lengur heima hjá mér með stríðstólin þín svo ég ætla að drepa hval í staðinn. Nanananananaaa..." Er þetta sjálfstæð ákvörðun eða er verið að láta aðra stjórna sér? Ég bara spyr.
Við erum að fá alþjóðasamfélagið upp á móti okkur fyrir ekkert. Kosturinn er reyndar sá að ef það er skellt á okkur viðskiptabanni þá hætta þeir kannski við að slátra landbúnaðinum. Mér þykir það samt hæpið.

sunnudagur, október 15, 2006

Og lífið heldur áfram

Litla systir var í heimsókn hjá mér um helgina. Það var mjög skemmtilegt og upplífgandi. Ég hef nefnilega verið eitthvað óskaplega þreytt undanfarið. Það gæti auðvitað staðið í einhverju sambandi við það að ég er að gera frekar mikið. Ég byrjaði t.d. í líkamsrækt í haust. Nágranni minn og samkennari spurði hvert ég vildi koma með í átak. Ég hélt það væri Í form eftir fertugt eins og þessi þjálfari var með í vor svo ég hélt mér hlyti að vera óhætt. Þetta átti líka að vera styrktarná´mskeið frekar en þolþjálfun. Samt vorum við vigtaðar í fyrsta tíma! Núna er stúlkan orðin óð og vill losa okkur við allt lýsið. Not what I signed up for! Ekki svo að skilja að maður hafi ekki gott af því að léttast en mér finnst það bara ekki alveg aðalmálið. Ég er með yngri konum þarna og ég persónulega hef engan áhuga á því að fá kúlurass, sem virðist vera takmark þessa námskeiðs. Ég var meira að hugsa um hjartað og blóðrásina og verkinn í bakinu, sem er nota bene að versna. En það er svona. Ég ætla að reyna að þrauka þetta. Bara sex vikur eftir.

föstudagur, október 13, 2006

Að lúffa

Ég hef aldrei verið mjög áfjáð í það að bera ósigra mína á torg en það urðu lyktir málsins. Ég var mjög einfaldlega svínbeygð.
Skv. túlkun hreppsins, sem ku koma frá lögfræðingi hans, þá ,,vanræktum” við ekki að gera samning. Mér var nefnilega svona elskulega boðinn samningur sem ég ákvað að afþakka. Og tveir mánuðurnir voru sko ekkert liðnir af því að málið var ,,í ferli.” Það stendur að vísu ekkert um það í 59. gr. að tíminn endurnýjist í hvert sinn sem fólk talar saman, en þetta er skilningur hreppsins. Og ekki nóg með það þá var ,,skorað á mig” að flytja úr húsnæðinu af því að mér var bent á að lesa húsaleigulögin þar sem stóð að fólk var samninglaust ætti að flytja út. Persónulega held ég að það samrýmist ekki lagahugtakinu ,,að skora á”, en hvað veit ég. Auk þess var lögfræðingurinn að skrifa útburðarbréfið og ég mátti eiga von á því daginn eftir.
Ég sá fram lagaþrætur sem ég myndi bera talsverðan kostnað af þótt ég sé nokkuð sannfærð um að ég myndi vinna þær. Hinn möguleikinn var að flytja bara. Það er að vísu ekkert húsnæði laust hér í sveit svo ég var alvarlega að íhuga það að flytja bara heim. Maður er nefnilega ekkert sérstaklega velkominn hérna, satt best að segja. Skólinn fer t.d. minnkandi ár frá ári og ekki séns á því að fá fastráðningu. Láðist líka alveg að nefna það þegar ég sótti um. Það er líka samkeppni um stöðurnar. Fólk heldur mjög fast í það sem það telur sitt. Þá er ónefnt hvað starfskraftar manns eru alveg sérstaklega vel metnir. Svo ekki sé talað um hvað hreppurinn tekur vel á móti manni og gerir allt sem í hans valdi stendur til að laða til sín og halda fólki.
Hins vegar þá eru nemendurnir mínir hér. Og Braveheart er hérna. Hann ætlar að byggja hús. Þá flyt ég í næstu sveit og hætti að borga útsvar hér. Ég ákvað því að lúffa. Ég fæ samt ágúst og september á gamla verðinu.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...