miðvikudagur, nóvember 27, 2002

Spítalalíf 3. kapítuli.
Eins og áður hefur komið fram þá eru Landspítali og Kleppsspítali tveir ólíkir menningarheimar. Á Kleppi var deild sem var vel rekin og fúnkeraði mjög vel. Á Landspítala var deild sem var bara í hreinu og kláru hakkabuffi. (Það eru auðvitað fleiri deildir á báðum spítulum en ég er bara að tala um þær tvær sem mér viðkoma.) Meðal annars gekk deildin á Kleppi vel því þar var læknapar sem starfaði mjög vel saman og hafði gott samstarf við hjúkrunarsviðið. Það er sem sagt læknasvið og hjúkrunarsvið sem koma að deildunum, en deildir heyra undir hjúkrun. Þ.a.l. eru það hjúkkurnar og deildastjórinn sem er hjúkrunarfræðingur sem eru yfirmenn starfsmanna. Ekki læknar þótt sumir hrokagikkirnir haldi annað.
Það hlýtur því að teljast alveg einstök stjórnkænska að í 1. Leggja niður deildina á Kleppi. 2. Blanda henni saman við hakkabuffið á Landsanum. 3. Stía í sundur læknaparinu og í 4. eftirláta læknunum í rústunum deildina af því að þeir ,,áttu gólfið." Sérdeilis útspekúlerað.
Og eins og við mátti búast átti sér stað valdabarátta á milli menningarheima, þ.e. hjúkrunarsviðs af Kleppi og læknasviðs Landsans. Sú barátta leystist reyndar eftir nokkra mánuði en ég er ennþá með skófarið í andlitinu eftir að hafa lent á milli. Svo hafði meirihluti læknanna vit á því að drulla sér fljótlega í burtu. Af hverju þeir gátu ekki allir andskotast til þess strax er mér hins vegar spurn.
Og svo fór það að gerast sem var svarið og sárt við lagt að myndi ekki gerast. Skítamóralinn í húsinu fór að síast út úr veggjunum. Allt í einu skipti meira máli að hafa reglu á starfsmönnunum en sjúklingunum. Deildarreglur voru síbrotnar af vakthafandi hjúkrunarfræðingi, símatímar lengdir upp úr öllu valdi, reykingatímar hvenær sem var svo og svo giltu mismunandi reglur á vöktum allt eftir smekk og skapi vakthafandi hjúkrunarfræðings dæmi sé tekið. En almáttugur, starfsmennirnir voru í tölvunni! Þeir voru með gsm síma! Þeir lásu á yfirsetunum! Það varð náttúrulega að setja höft á þetta fólk.
Það skipti engu máli að það var einn tiltekinn starfsmaður sem sat límdur við tölvuna. Nei, nei. Aðgangurinn var tekinn af öllum. Og það skipti heldur engu máli þótt það væri einn tiltekinn starfsmaður sem væri alltaf í símanum og með gsm símann á sér. Allir voru skammaðir. Svo var algjörlega litið framhjá Litla Prinsinum sem gerði varla handtak og svaf jafnvel á vöktunum. Lá endalaust í símanum og skoðaði klámsíður á netinu. Nei, það var ekki hægt að skamma hann. Hann var svooo sætur. Það var bara látið bitna á öllum öðrum í staðinn. Feministadeildin, what a laugh.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...