Ég ætla að klára þetta ljóða-egótripp fyrst ég byrjaði á því.
Á Rieben var karakter sem bjó á verbúðinni. Hann var búinn að díla við Bakkus í gegnum árin. Þetta var ágætis gaur en gjörbreytist algjörlega með víni og varð með eindæmum leiðinlegur. (Sumir eru að ljúga því upp á mig að ég verði leiðinleg með víni en ég viðurkenni ekki neitt sem ég man ekki eftir.) Einar þessi Íslendingur aka. Sólon, vildi meina að hann væri orðinn lífsleiður og vildi bara deyja en tækist ekki sama hvað hann reyndi. Eftir brotthvarf mitt frá Raufarhöfn komst hann í blöðin fyrir það að skjóta á sér eina tána.
Alla vega, ég samdi um hann kvæði og þessar raunir hans að geta ekki dáið sama hvað hann reyndi. Mér tókst ekki að slá í gegn með því frekar en öðru. (Hins vegar er það alkunna að allir bókmenntafræðingar eru misheppnuð skáld. Ég er bókmenntafræðingur með kennsluréttindi.)

Einar ódrepandi.
(sungið við Krummi svaf í klettagjá.)

Þótt ég gjarni vilji vel
velkominn er ekki' í hel.
:Geng á vondum vegi.:

Rembist eins og rjúpan við
reykja mig í grafarfrið.
:Langt frá dánardegi.:

Kolsvart kaffi þá ég drekk
kannski nú á hjarta slekk.
:Hamast mest það megi.:

Æði þá í alkahól
andlit vísar móti sól.
:Minni frá mér fleygi.:

Vakna upp á vondum stað
vil ei meira tala' um það.
:Sit ég þá og þegi.:

Best er kannski' að koma sér
í kunningsskap við stórdíler.
:Sjaldan frá því segi.:

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir