Var að fara í gegnum hirslur mínar þegar ég fann ljóð sem ég hafði samið. Já, ljóð. Eitt sinn ætlaði ég nefnilega að verða stórskáld. Vala, ég veit að þú manst eftir þessu:

Kanntu að steppa?

Hald ei þú munir sleppa
ég ætla þig að hreppa.
Þegar að þér er farið að kreppa
og mikil orðin þín andarteppa
mun ég frá þínum buxum hneppa
taka af þér alla leppa
og í dansinn með þig skreppa.
Kanntu að steppa?

Þetta var samið í menntó, á þeim árum þegar ég talaði um mig sem hitt Nóbelsverðlaunaskáldið. (Oh, come on, ég var sextán.)


Þegar ég var 22 fór ég með Gumma æskuvini til Raufarhafnar. Þar vann ég í Fiskiðju Raufarhafnar og fílaði mig sem sannan Íslending. Verst var þó að ég var haldin hinni skelfilegustu bónusfötlun, það var alveg sama hvað ég reyndi ég náði aldrei upp almennilegum hraða. Og það er að sjálfsögðu ekki nóg að vinna hratt maður má ekki skera of mikið af fiskinum. Ef bein eða ormar sluppu í gegn þá fékk maður kassann aftur í hausinn. Minnir að það hafi verið 3 gallar þá kom hann aftur.

Örvæntingarfull kona með hníf í hendi.
Fletti' í gegnum flökin
fingra kann ég tökin.
Skoða alla skugga
sker í burtu ugga.
Ansi orðnar leiðar
orma djöfuls veiðar.
Verð þó til að vanda
vegferð minna handa.
(Veröld mín í voða
vil ei endurskoða.)
Strita ég og strita
stolt í mínum svita.
Núll á bónusblaði
bældur er minn hraði.

Það var kona af skrifstofunni sem dreifði bónusblöðunum og ég benti henni vinsamlegast á að einu sinni voru boðberar illra tíðinda drepnir.
Stálarinn, sá sem brýndi hnífana, var Skafti bóndi frændi Gumma. Einu sinni var Skafti fjarverandi og þá var Raggi aðstoðarverkstjóri að rembast við að stála en gekk frekar illa.

Raggi þykist stála stál
stelur frá oss biti.
Besti Raggi brýnt er mál,
brýndu af smá viti!

Engin hægt er flök að flá,
föllum hratt í svaðið.
Skafti betur skerpir þá
skelþunnt hnífablaðið.

Ég gaf Ragga þetta einhvern tíma á fylleríi (það er bara þrennt sem hægt er að gera á Rieben; vinna eins og hestur, drekka eins og svín and fuck like a rabbit) en hann vildi ekki trúa að ég hefði samið það. Svo hefur hann væntanlega týnt því.
Ef þið eruð að velta fyrir ykkur þessu nostalgíu-kasti þá bendi ég á menningarmyndina The Mummy Returns þar sem hunkið sagði: Maður sem sættist ekki við fortíð sína á ekki framtíð.
Og ég heiti Ásta Svavarsdóttir ef einhver hefur áhuga á að birta þessi stórbrotnu ljóð einhvers staðar. (As if.)

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir