Síðastliðið vor var mér sagt upp vinnunni. Ég kenndi við Meðferðarheimilið Árbót og þegar því var lokað þá missti ég vinnuna. Ég er ekkert ánægð með það og hef ákveðnar athugasemdir við það ferli allt saman en svona er þetta. Það hefur ekki hvarflað að mér að skammast mín fyrir það að vera atvinnulaus enda ber ég ekki ábyrgð á efnahagsástandi þjóðarinnar, vinslitum Braga og Árbótarhjóna, fækkun í sveitum landsins né því að tilheyra ekki elítunni.
Í sex mánuði var ég á biðlaunum en það lá ljóst fyrir að ég myndi fara á atvinnuleysisbætur í febrúar. Undanfarin 8 ár hef ég verið á fyrirframgreiddum launum en fór nú á eftirágreidd laun svo ljóst var að þarna myndi myndast bil.
Í janúar hringi ég í Vinnumálastofnun til að fá leiðbeiningar. Mér er sagt að ég þurfi að fá vottorð frá vinnuveitanda. Svo á ég að fara á skrifstofu Vinnumálastofnunar á Húsavík nokkrum dögum áður en ég fell út af launaskrá, skrá mig og afhenda þetta vottorð.
Um miðjan janúar mæti ég á áðurnefnda skrifstofu. Þreytulegi ungi maðurinn þar tilkynnir mér að ég geti ekki skráð mig fyrr en ég dett út af launaskrá. Þann fyrsta febrúar á ég að setjast við tölvuna og skrá mig. Ekki fyrr. Ég fæ borgað frá þeim degi sem ég skrái mig. Ef ég skrái mig 2. feb. þá fæ ég borgað frá 2. feb. Hann getur ekki heldur tekið við vottorðinu, ég á að koma með það aftur seinna. Við atvinnuleysingjarnir höfum jú ekkert betra að gera en rúnta á milli staða (20 mín. akstur x2) á ódýra bensíninu.
Þann 1. febrúar sest ég við tölvuna til að skrá mig. Ég þarf að skrá mig í lífeyrissjóð. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkis og bæja A-deild er minn sjóður. Hann er ekki valmöguleiki í skráningunni. Ég hringi í Vinnumálastofnun. Það er ekki svarað. Ég hringi í annað númer. Þar fer af stað hálftíma hljóðrituð ræða um það hvernig eigi að bera sig að. Þegar henni er lokið er ekki svarað. Allan tímann er ég með netsamtal við þjónustufulltrúa á bið á heimasíðunni. Eftir nokkrar tilraunir er svarað í fyrra númerinu. Þar fer konan af stað með einhverja rullu sem er vandamáli mínu óviðkomandi. Ég næ að stoppa hana af og lýsa vandkvæðum mínum. Hún segir mér að hringja í hitt númerið aftur. Ég hringi aftur í það númer, hlusta aftur á hálftíma ræðuna, en svo er svarað! Þar fæ ég þær upplýsingar að Húsavíkurskrifstofan geti lagað þetta. Húsavíkurútibúið er lokað á þriðjudögum svo það gerir nú ekki mikið gagn. Þá á ég að sleppa lífeyrissjóðnum. Ég fer aftur í skráninguna. Ef ég sleppi lífeyrissjóðnum þá hleypir kerfið mér ekki áfram í skráningarferlinu. Við skulum ekki gleyma að ég fæ greitt frá þeim degi sem ég skrái mig. Algjörlega hinsegin ákveð ég að hringja í Húsavíkurskrifstofuna. Fyrir hreina tilviljun er strákurinn þar og svarar símanum. Hann segir mér að skrá mig bara í einhvern góðan lífeyrissjóð svo ég komist inn og svo lögum við þetta seinna. Ég geri það. Í þessu umsóknarferli er spurt hvort ég hafi aðrar tekjur. Já, ég hef aðrar tekjur. Ég sit í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar og fæ laun fyrir það. Ég set inn hversu há laun ég fæ. Þetta fylli ég skilmerkilega inn og sendi umsóknina. Nokkrum dögum seinna fer ég í viðtal við unga manninn á Húsavík og skila inn vottorðinu. Þá segi ég honum einnig að mér hafi orðið á mistök við skráninguna, ég hafi sett inn nettó laun fyrir sveitarstjórnarsetuna en ekki brúttó. Þá stóð líka í skráningunni einhvers staðar að tilkynntar tekjur yrðu samkeyrðar við upplýsingar Ríkisskattstjóra. Það er ágætt því launin eru mismunandi eftir fundafjölda. Ég man ekki hvernig orðaskipti okkar þjónustufulltrúans voru um þetta en ég hugsaði alla vega ekki meira um málið né hafði af því frekari áhyggjur. Mér er ljóst að tekjurnar ná því marki að skerða bæturnar og er fullkomlega sátt við það. Hann gat ekki lagað lífeyrissjóðsskráninguna en sendi póst á einhvern sem átti að geta það. Það hefur ekki verið gert enn þá. Þá ræddum við um skattkortið mitt og hvort ég vilji leggja það inn hjá honum eða hvort ég ætti kannski að skipta því vegna launanna frá Þingeyjarsveit.
Upp rennur 1. mars. Bankareikningurinn orðinn tómur enda ekkert útborgað síðastliðin mánaðarmót og gjalddagi gluggabréfa að renna upp. Kreditkortareikningurinn gjaldfellur 2. mars. Þegar bankareikningurinn er jafntómur eftir hádegi byrja ég að hringja. Það er að sjálfsögðu þriðjudagur svo mín þjónustuskrifstofa er lokuð og strákurinn ekki við. Svo ég hringi annað. Þar svarar kona, þreytuleg og viðbúin árás. Það er mjög óþægilegt að tala við fólk sem er í stöðugri vörn og alveg með það á hreinu að maður sé að fara að ráðast á það. Ég ber upp vanda minn og segi henni að ég þurfi að fá útborgað annars hafi ég ekki efni á reikningunum mínum. ,,Þetta er ekki mér að kenna!" Ég er ekki að kenna þér um það, ég vil bara fá að vita við hvern ég á að tala til að laga þetta. Það mun vera Greiðslustofa. Svo ég byrja að hringja þangað. Fyrst beið ég í hálftíma og svo beið ég í þrjú korter. Símanum var að sjálfsögðu ekki svarað. Ég hef sennilega ekki verið eina manneskjan sem fékk ekki útborgað. Á milli þess sem ég þurfti að hlusta á sama sálardrepandi jass-stefið, ekki lag, stef, þá var mér tilkynnt af símsvara að ég mætti eiga von á því að samtalið yrði tekið upp. Bara svona ef mér dytti í hug að vera með einhver læti út af svona nauðaómerkilegum hlutum eins og því að lifa af. Mér er aldrei sagt númer hvað ég er í röðinni. Það er talsverður munur á að vera númer 2 eða 107. Svo loka þau klukkan þrjú og ég náði ekki í gegn. Daginn eftir er engin útborgun komin svo ég hringi aftur og hlustaði sleitulaust á sama sálardrepandi stefið í önnur þrjú korter. Við atvinnuleysingjarnir höfum jú ekkert betra að gera en liggja í símanum allan daginn og borga fyrir að fá að hlusta á jass-stef. Loksins er svarað. Sama þreytan, sama vörnin. Nei, þetta er bara því miður ekki komið í gegn. Umsóknin þín var ekki samþykkt fyrr en 25. svo þetta tekur smá tíma. Við skulum ekki gleyma að ég mátti alls ekki sækja um fyrr. Þetta kemur örugglega á morgun. Kreditkortareikningurinn verður reyndar gjaldfallinn á morgun en ég efast ekki um að Borgun komi til með að sýna þessu djúpstæðan skilning. Alveg örugglega.
Ég bíð allan fimmtudaginn en ekkert gerist. Maðurinn minn borgaði kreditkortareikninginn en við höfum ekki efni á þessu lengi í viðbót. Á föstudeginum hringi ég aftur og enn í Greiðslustofu. Undarlegt nokk er strax svarað. Það er sjálfvirkur símsvari að segja mér að Greiðslustofa sé opin alla virka daga á milli 9 og 15. Klukkan er hálf þrjú. Kósý.
Á mánudeginum hringi ég í þjónustufulltrúann á Húsavík. Það er ekki borgað út nema 1. og 7. hvers mánaðar þannig að stúlkan fyrir helgi fór hreinlega með rangt mál. Þann 7. fékk ég loks útborgað og það hefur verið í lagi síðan.
Þann 10. maí síðastliðinn fæ ég bréf dagsett þann 9. frá Vinnumálastofnun. Þau hafa komist að því með samkeyrslu við upplýsingar frá Ríkisskattstjóra að ég hafi fengið laun frá Þingeyjarsveit. Merkilegt. Ég tók það bara fram strax í umsókninni 1. febrúar. Og nú eigi ég að gjöra svo vel að gera grein fyrir þessum tekjum annars eigi ég það á hættu að vera tekin af bótum í refsingarskyni í tvo mánuði. Ég hélt nú reyndar að ég hefði gert það en allt í lagi. Ég hringi í vini mína hjá Greiðslustofu. Fæ bara að hlusta á uppáhalds stefið í smá stund. Ég lýsi vandræðum mínum. Jú, ég á sem sagt að tilkynna mánaðarlega um launin. Fylla út á heimasíðunni og senda. Allt í lagi. Það hefði verið ágætt að vita það aðeins fyrr en allt í góðu. Ég redda þessu. Ég sest við tölvuna og fylli þetta skilmerkilega út. Kanna mínar síðar nokkrum dögum seinna og sé að þetta hefur verið móttekið og afgreitt. Þá hlýtur þetta að vera allt í góðu lagi.
Í dag fæ ég bréf frá Vinnumálastofnun. Þar er mér formlega tilkynnt að þar sem ég ,,lét hjá líða að tilkynna um tilfallandi tekjur" þá verði bótaréttur minn felldur niður í tvo mánuði frá og með 24. maí. 2011.
Já, þið haldið það. Ég held ekki.
Framkoma starfsfólks Vinnumálastofnunar við skjólstæðinga sína er lítilsvirðandi. Þetta eru ófagleg vinnubrögð og mannfyrirlitning af verstu sort. Það er nógu vont og sárt að missa vinnuna sína. Það er nógu vont og sárt að fá ekki aðra vinnu. Ég hef verið á vinnumarkaði í 20 ár og greitt mína skatta og skyldur. Mér finnst ekki gaman að þiggja þessar atvinnuleysisbætur en ég á rétt á þeim og ég þarf á þeim að halda. Andskotinn hafi það að ég verði ómagi á sveitarfélaginu mínu af því að þið hjá Vinnumálastofnun kunnið ekki að lesa!