þriðjudagur, október 18, 2011

Ekkert álver.

Fyrir einum 4 ef ekki 5 árum síðan vorum við nokkur að hvíslast á milli hvort við ættum að taka upp formlega baráttu gegn álverinu. Það var mjög vandmeðfarið því hér var farið með álversandstöðu eins og mannsmorð. Svo hitti ég ónefnda konu og spurði hvort hún vildi vera með. Hún svaraði:

,,Ég myndi vera með ef ég héldi eitt andartak að hingað kæmi álver. En það er ekkert álver að koma hingað."
Ég hváði og spurði hvernig hún fengi þetta út:
,,Það er enginn búinn að leggja neina peninga í þetta nema sveitarfélögin. Alcoa er ekki alvara fyrr en þeir leggja einhverja alvöru peninga í þetta. Þannig virkar bissness."

Það varð aldrei úr neinni baráttu gegn álverinu því við sáum að þetta var rétt.  Það var engin alvara komin í málið. Og sú alvara kom aldrei.

Þeir sem vilja kenna sitjandi ríkisstjórn um að ,,eyðileggja" álversævintýrið fyrir sér geta bara skoðað blöðin og farið í gegnum fréttir. Jú, jú, Alcoa borgaði laun fyrir alveg heilan einn mann í einhvern tíma. Það er dropi í hafið miðað við veltu fyrirtækisins.
Ég heyrði um daginn, sel ekki dýrar en ég keypti, að undanfarna mánuði hefði PR deildin hjá Alcoa verið að vinna að því hvernig væri hægt að hafna Norðlendingum án þess að það kæmi illa út fyrir fyrirtækið. Tímasetningin er engin tilviljun. Fallegt af þeim samt að staðfesta orð Steingríms. Það hefur væntanlega ekki verið ætlunin.
Hvað mönnunum gekk til að vera með þennan blekkingarleik er í raun óskiljanlegt. Svo ekki sé talað um ófyrirgefanlegt að draga heilt byggðarlag svona á asnaeyrunum í öll þessi ár. Líklegasta kenningin er sú að þeir hafi viljað tryggja sér orkuna til stækkunar fyrir sunnan. Ef þeir eru alltaf efstir á blaði og einoka alla umræðu þá komast fáir aðrir möguleikar inn í umræðuna.
 
Flest sáum við samt í gegnum þetta, hvar sem við stöndum í flokkum. Það er í rauninni ámælisvert að það skuli hafa verið einblínt á þetta álver sem allir vissu að myndi aldrei koma og standa í vegi fyrir allri annarri atvinnuuppbyggingu á meðan.



þriðjudagur, október 11, 2011

Ég þori varla að segja það...

Þegar fréttist af bréfi Guðrúnar Ebbu þá var ég alveg viss um að þarna væri ,,sönnunin" komin. Þarna var hún, hafin yfir vafa. Svo horfði ég á viðtalið í gær. Eitt af því fyrsta sem hún segir er að  ,,hún hafi ekki munað fyrr en..." Allt í einu fóru að koma fram bældar minningar.
Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um bældar minningar. Sumir ganga svo langt að segja að þær séu ekki til. Ég er ekki fræðimaður í þessari grein svo ég er enginn stóri dómur um þetta. Ég er ekki heldur að segja að Guðrún Ebba sé að ljúga. Hvað ætti konunni að ganga til? Ég efast ekkert um að Guðrún Ebba trúi þessu sjálf. En á meðan bældar minningar sem sálfræðifyrirbrigði er ekki hafið yfir  vafa þá eru allar fullyrðingar byggðar á ný-mundum áður bældum minningum ekki hafnar yfir vafa.
Ég er alls ekki að segja það að Ólafur Skúlason hafi verið saklaus maður. Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni 1996, ekki vegna ásakananna  heldur vegna viðbragða hans við þeim. Hrokinn var yfirgengilegur.
Nú er það komið í ljós að ÓS hafði dómínerandi viðveru og var hrokafullur. Hann hafði líka einkaklósett heima hjá sér.  Það þarf enginn að hafa einkaklósett heima hjá sér nema sá sem telur sig hafinn yfir annað fólk,  m.a. fjölskylduna sína. Eða auðvitað sá sem er up-to-no-good. Allt eru þetta skapgerðarþættir sem bendir til níðings. Það er mjög líklegt. En það er ekki sannað. Þetta er algjört grundvallaratriði. Í réttarríki er fólk saklaust uns sekt er sönnuð.

Nú er verið að ráðast að kirkjunnar mönnum fyrir aðgerðaleysi þeirra og jafnvel heimta afsagnir. Fyrir hvaða sakir? Auðvitað voru mistök. Auðvitað mátti gera betur. En við skulum ekki gleyma því að Ólafur Skúlason hefur aldrei verið dæmdur og sekur fundinn. Í augum laganna er hann saklaus.







mánudagur, október 10, 2011

Elsku besta Vinnumálastofnunin

Núna er góða fólkið hjá Vinnumálastofnun búið að ákveða að sveitarstjórnaseta mín flokkist undir ,,hlutastarf". Að vísu flokkar stéttarfélagið mitt sveitarstjórnarsetuna ekki undir hlutasatrf heldur ,,fundarsetu" sem reiknast ekki sem prósentuvinna en eins og góða stúlkan hjá Vinnumálastofnun bentu mér svo vinsamlega á um daginn þá vinnur Vinnumálastofnun ekki með verkalýðsfélögunum.
Vinnumálstofnun hefur sem sagt ákveðið það, algjörlega upp á eigið einsdæmi og einhliða að sveitarstjórnaseta mín flokkist sem 16% hlutastarf og hefur skert atvinnuleysisbæturnar mínar sem því nemur, niður 84%. Núna skulda ég VMST fullt af pening og hún er byrjuð að draga hann af mér. Mikið varð ég glöð þegar ég fékk útborgað síðast. Samt hef ég alltaf gefið upp launin og verið dregið af mér í samræmi.
Ég mæti á fundi tvisvar í mánuði. Þeir eru svona 3-4 tímar. Þetta er sem sagt alveg heill einn vinnudagur í mánuði. Síðast þegar ég vissi þá var vinnuvikan skilgreind sem 40 stundir. Þá ætti mánuðurinn að vera 160 stundir.  Nú hef ég svo sem aldrei verið sterk í stærðfræði en ég er tiltölulega sannfærð um að 8 af 160 séu ekki nema 5%. Gefum okkur að sveitarstjórnarsetan sé vel launuð og það eru nú alveg deildar meiningar um það. 16% er samt ansi ríflegt.




Tannlæknaraunir

Tannlæknirinn minn, sem ég er mjög ánægð með, hefur verið í fríi og/eða vinna annars staðar undanfarið. Í byrjun júlí er hringt í mig frá tannlæknastofunni og mér boðin skoðun sem ég þigg. Að vísu, er þá bætt við, er þetta nemi. Hmmm. Ég ákveð samt að  þiggja þessa skoðun því hvernig eiga þessir krakkar að læra ef þau fá ekki að spreyta sig.Auk þess fann ég ekki fyrir neinu og var tiltölulega sannfærð um að allt væri heilt.
Ég mæti á tilnefndum tíma og neminn skoðar mig. Allt heilt nema hvað að einn fyllingin er farin að ,,leka" og neminn vill endilega fá að laga hana. Í stórum jaxli. Ég skal viðurkenna að ég vildi það ekki. Hjartað sagði nei, en höfuðið sagði já, af fyrrgreindri ástæði. Hvernig eiga þau að læra...
Ég mæti aftur og neminn gerir við fyllinguna. Samanlagt var þetta 40 þús. króna fyrirtæki.
Viðgerðin fór fram á fimmtudegi. Þá um helgina finn ég að það er ekki allt í lagi með fyllinguna, það svona ,,dúmpar" á hana og ég get ekkert notað tönnina. Ég hringi á mánudegi og fæ að koma. Neminn segir að tannbein hafi verið bert og sparslar í þetta. Allt í orden.
Líða svo nokkrir dagar og ég finn að þetta er ekki lagi. Ég finn fyrir því þegar fer á tönnina og get lítið notað hana. Hringi ég aftur og fæ að koma. Er nú samt orðið greinilegt að ég er grunuð um hysteriu. Neminn sparslar meira og segir mér að það taki yfirleitt svona 3 vikur fyrir fyllingar að jafna sig.
Nokkru síðar verður ljóst að það er ekki í lagi með tönnina. Ég bíð samt í rúmar þrjár vikur áður en ég hringi aftur. Núna er þetta eiginlega orðið vandræðalegt. Neminn sparslar meira. Í þetta skipti er hins vegar tannlæknirinn minn á svæðinu og ég er hálfpartinn að vona að hann kíki á þetta en hann lætur það ógert.
Líður nú og bíður. Ég held áfram að finna fyrir tönninni þótt það hafi minnkað mjög mikið. Hins vegar kular líka í hana. Ég ákveð að láta mig hafa það. Ég geti bara ekki farið einu sinni enn. Vandamálið er hins vegar það að tönnin er hægra megin sem er sterka hliðin mín. Vinstra megin er ég með krónu sem bólgnar stundum í kringum ef álagið verður of mikið. Þegar ég er búin að tyggja bróðurpartinn af matnum vinstra megin í þrjá mánuði þá endar það auðvitað með því að krónan kvartar.
Það endar með því eina helgina að ég get hvorugu megin tuggið. Ég er vissulega komin yfir fertugt. En ég er skrambakollur ekki nema 41 og mér finnst það ansi hart að vera í alvöru að velja mat sem er mjúkur undir tönn. Ég ætlaði samt að láta mig hafa. Alveg þar til á miðvikudag þá vikuna að það var frekar kalt og ég asnaðist til að anda með opinn munninn. Mér var kalt í tönninni fram undir hádegi.
Svo ég hringdi. Klíníkdama samstarfstannlæknisins svarar. Nei, tannlæknirinn minn kemur ekki til baka fyrr en í desember. Neminn er farinn í skólann. Vei. Er þetta eitthvað akút? Ég lýsi raunum mínum og henni lýst ekkert á þetta. Býður mér tíma hjá hinum tannlækninum sem ég þigg. Mæti þar morguninn eftir og skoðar þetta og gerir eitthvað. Þegar ég borga þá segir klíníkdaman: Hann pússaði gaddana af jaxlinum á móti og svo var enn þá ber tannháls....
Eftir 3 viðgerðar heimsóknir þá var enn þá BER TANNHÁLS!!!! Hvað er eiginlega verið að kenna þessum krökkum í Tannlæknadeildinni?
Næst þegar mér verður boðinn nemi þá ætla ég að segja.....NEI!!!!!!!!!!!


þriðjudagur, október 04, 2011

Dásemdin ein


Þú ert hér með boðuð(aður) í viðtal hjá ráðgjafa á Vinnumálastofnun Norðurlands eystra.

Dagur: (Í næstu viku)
Tími: 0x:00
Staður: _____________

Skv. lögum um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir og lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, eru greiðslur atvinnuleysisbóta háðar ákveðnum skilyrðum.  Athugaðu að samkvæmt úrskurði úthlutunarnefndar getur það valdið missi bótaréttar í 40 daga að mæta ekki í boðuð viðtöl eða taka ekki þátt í þeim úrræðum sem boðið er upp á. Málinu verður vísað til úthlutunarnefndar ef misbrestur verður á mætingu.
Ef þú getur ekki komið á ofnagreindum tíma, hringdu þá (________) mánudaginn 10. október milli kl. 12:00 og 15:00, eða sendu tölvupóst á netfangið; _____________@vmst.is og fáðu nýjan tíma.

Vinsamlegast ekki taka börn með á fundinn.
Fh. Vinnumálastofnunar Norðurlands eystra
_________________
 
 
Þetta er svo kurteist og elskulegt að mér hlýnar bara um hjartarætur. 

fimmtudagur, ágúst 11, 2011

Ávíturnar

Í ónefndum skóla sem ég kenndi eitt sinn í voru tölvumál skólans í lamasessi allan veturinn og allir mjög pirraðir út af því. Þetta var mjög slæmt á tímabili, erfitt að nálgast PDF skjöl og erfitt að prenta út. Tölvuumsjónarmanni skólans (sem hafði ekki viðveru í skólanum) var hreinlega bölvað í sand og ösku af öllum kennurum skólans.
Einn daginn var ég að reyna að prenta út. (Hafði samt ná að prenta út þetta aukahefti og en það þótti ekki merkilegt.) Ég var með stofu á annarri hæð en gat ekki prentað úr tölvunum þar. Það var eitthvað klúður með tölvuna í vinnuherberginu líka svo ég var búin að hlaupa upp og niður og reyna að hafa þetta í gegn en ekkert gekk. Í eitt skiptið kem ég út af kennarastofunni og yfirmaður minn er á skrifstofunni sinni. Skrifstofan hans, kennararstofan og salerni eru inni á litlum gangi. Ég segi stundarhátt: ,,Það á að skjóta þennan mann.” Yfirmaður minn spyr hvort ég ætli að taka það að mér. Ég flissa eitthvað enda var ég að sjálfsögðu að fíflast og ætla svo að halda áfram ferð minni. Þá kallar hann mig til baka og segir: ,,Ásta, ég ætla að ávíta þig fyrir þetta. Það er ekkert gamanmál að skjóta fólk. ” Ég veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið held helst að hann sé að grínast. Nei, hann er það ekki. Ég sagði þetta á stað þar sem nemendur gætu heyrt til mín og það er bara ekki gott. Ég segi að það hafi nú enginn heyrt til mín en það skiptir ekki máli, ég get ekki verið viss um það og auk þess þá hefði getað heyrst til mín. Ég hunskast í mínar vistarverur með þetta í andlitinu. Skömmu seinna er ég í vinnustofunni og þá heyri ég að hann er að tala um á kaffistofunni og hafa í flimtingum að hann hafi ávítað mig fyrir að tala illa um tölvumanninn. Þetta þótti honum og einhverjum fleirum greinilega mjög fyndið miðað við hlátrasköllin.
Mér fannst þetta svo yfirgengilegt að ég hafði samband við KÍ. Viðmælanda mínum þar þóttu ávítunar vera fyrir litlar sakir og grínið á kaffistofunni mjög ófaglegt. Ég sendi yfirmanninum tölvupóst þar sem ég mótmæli þessari framkomu. Hann kallar á mig inn á skrifstofu og við förum yfir þetta. Hann getur samþykkt að það hafi ekki verið viðeigandi að gera grín að þessu á kaffistofunni. Hann biður mig samt ekki afsökunar á því né hefur séð ástæðu til að láta viðhlæjendur vita að þetta hafi ekki verið í lagi. En hann telur sig í fullum rétti að ávíta mig fyrir skotbrandarann og það hafi verið fullkomlega eðlilegt að ávíta mig fyrir opnum dyrum þar sem nemendur gátu alveg heyrt ávítunar því hafi þeir heyrt mín orð þá var mikilvægt að þeir heyrðu ávíturnar líka.
Ég deili ekki þeirri skoðun.

fimmtudagur, júlí 07, 2011

Information for foreign women in Iceland.

First of all: Welcome to Iceland, I hope you're happy here.

As you may know a horrible thing has happened and if I can in any little way contribute in preventing this ever happening again I must try to do so. I hope you will not find this information sheet patronizing in any way, that is not my aim. I'm only trying to help.

Iceland is not perfect. But we do have a good health care system and social care. Our health care is not totally free but it is quite affordable for the individual. We are also rather liberal and concerned about human rights.


We are very liberal in sexual matters. Some might say too much so but that is just a matter of opinion. As far as the sex is between consenting adults we really don't care what you do. Out of wedlock, one night stand, whatever you want girl, you just go for it. We won't judge.

If you don't want to get pregnant you can get contraception. It's pretty easy. You can buy condoms in every Apótek (drug store.) If you want other contraception you can go to your Primary Health Care Clinic and talk to a doctor. No-one has to know. It's totally between you and your health care professional.

If, for some reason, you get pregnant without wanting to have the baby there are ways to deal with that too. You can have the morning after pill in the first 24 hours or you can have an abortion. You will in both cases have to go to your Health care clinic and they will then advice you further on if necessary. Abortions are legal in Iceland for medical or social reasons. That being said, please remember that an abortion is a difficult step for every woman and better to prevent the pregnancy. But the possibility is there.

If you find yourself pregnant with a baby you don't want but won't for some reason, moral, religious or personal, have an abortion you can give the baby up for an adoption. There are a lot of good people that would love to raise your baby and care for it. 
You can choose this option any time. You can even do this after you have had the baby. 

But please allow me to give you a friendly advice: If you find yourself in this situation and you don't want anyone to know you are pregnant, yet I urge you to go to your Health care clinic. They have a strict confidence rule so no-one will know except them. Nobody else. 
It is so much better to have someone to talk to and make sure everything's alright  when you are pregnant.

The most difficult part is hiding the pregnancy, if you can manage that the rest is fairly easy. You just go to the hospital, sign the paper, give birth and then you'll go home the next day. No-one has to know anything. 

If you want to have the baby but are not married that is no big deal either. Being a single mom is quite acceptable here socially. That being said be aware that being a single mom is quite difficult financially and of course emotionally. Parenthood is a hard job and it is better, if possible, to share the responsibility.  

A few words in the end:
There is help available at almost every corner but you must reach out for it. The help seldom comes to find you. You will have to go to the doctor or the social worker  and seek the help. Once you're there, help will be given.

For your own benefit: Do your best to learn the language. The better you know the language more information is available to you. Knowledge is power.

fimmtudagur, júní 09, 2011

Manndómur og Landsdómur

Það er ekki oft sem mig setur hljóða. Það átti sér samt stað fyrir skömmu þegar fregnir bárust af stuðningsfundi Geirs H. Haarde í Hörpu.
Það má deila um sanngirni þess að Geir standi einn eftir ákærður. Sumum, m.a. mér, hefðu þótt sanngjarnast að allir tilnefndir hefðu fengið ákæru. Svo fór ekki en það þýðir ekki að það sé ósanngjarnt að ákæra Geir. Það er altítt að ,,stjórinn" sé látinn bera ábyrgðina. Skipstjóri er gjarna látinn fara eftir nokkra slaka túra. Íþróttaþjálfarar einnig. Er það á einhvern hátt óeðlilegt að forsætisráðherra sé látinn bera ábyrgð á ríkisstjórn sinni?
Það má vel vera að Geir H. Haarde hafi ekki gert neitt rangt. Sé svo hlýtur þá ekki Landsdómur að komast að einmitt þeirri niðurstöðu?
Hvernig má það vera að maður sem komist hefur til æðstu metorða innan valdastofnana samfélagsins treysti nú ekki þessum sömu valdastofnunum? Valdastofnunum sem hann sjálfur átti þátt í að móta og manna. Hvað megum við hin þá segja?
Geir reynir að halda því fram að þeir einstaklingar sem nú halda um valdatauma sé ekki treystandi. Það má einu gilda. Ef kerfið er þannig uppbyggt að öllu skipti hvaða einstaklingar manna það þá er kerfið meingallað. Lítið fór nú fyrir gagnrýni Geirs á kerfið á meðan hann og flokkur hans sátu að völdum. Höfðu þeir þó nægan tíma til breytinga hefði hugur þeirra raunverulega til þess staðið.
Þá kvartar Geir sáran, í dýrasta sal landsins, yfir því hve kostnaðarsöm málsvörnin sé. Ég spyr aftur, hvað megum við hin segja?
Nú er þrískipting valdsins hornsteinn lýðræðisins. Dómsvaldið er einn hluti þess. Allir borgarar eiga þess kost að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Að sama skapi mega allir borgarar eiga þess von að vera stefnt fyrir dómstóla af hinum og þessum sökum. Það hefur fjöldi fólks lent í málaferlum að ósekju og borið af því kostnað.
Voru fjármála- og forsætisráðherralaunin virklega svo lág að Geir gat ekkert lagt fyrir? Eru lífeyrisréttindi alþingismanna skorin við nögl?

Kannski er ég barnaleg inn við beinið en ég hef alltaf borið ákveðna virðingu fyrir embættum. Forsætisráðherraembættið hefur mér t.d. alltaf þótt virðingarvert þótt því fylgi argaþras stjórnmálanna. Auðvitað er fólkið sem sinnir því hverju sinni bara venjulegt fólk og eflaust ósanngjarnt af mér að ætlast til að viðkomandi lagi sig að embættinu að ákveðnu leyti. En ég geri það samt. Vegna þessa kann ég því ákaflega illa að heyra fv. forsætisráðherra ,,væla" í fjölmiðlum.
Það má vera að þetta væl sé hluti af málsvörninni, að fá samúð hjá þjóðinni til að hafa áhrif á dóminn. En mér þykir þetta engan veginn við hæfi.

Það er engum blöðum um það að fletta að Geir H. Haarde var forsætisráðherra þegar íslensk þjóð varð fyrir því mesta efnahagsáfalli sem hún hefur orðið fyrir frá lýðveldisstofnun. Það má vera að forsætisráðherrann þáverandi beri á því enga ábyrgð og hafi ekkert getað gert til að forðast áfallið eða draga úr því. En er ekki eðlilegt að um það sé spurt? Geir H. Haarde hefur örugglega spurt sig þessa sjálfur. Hann segist viss um svarið.
Mikið væri það flott ef fv. forsætisráðherra sýndi æðruleysi og fagnaði kærkomnu tækifæri til hreinsa mannorð sitt eða greiða skuld sína við samfélagið ella.

þriðjudagur, maí 31, 2011

Update varðandi Vinnumálastofnun

Ég hringdi í þjónustufulltrúann á Húsavík í dag. Sem betur fer var hann við þótt það sé þriðjudagur. Hann fletti upp umsókninni minni, sá að ég hafði fært inn að ég fengi laun frá Þingeyjarsveit og fannst þetta mjög skrítið. Hann hringdi í Greiðslustofu og bað viðkomandi þar um að fletta upp umsókninni minni. Þar kom í ljós að ég fór með rétt mál. Hins vegar hafði skráningin ekki skilað sér inn í kerfið einhvern veginn. Þ.a.l. á að taka þetta aftur fyrir og draga til baka fyrri ákvörðun. Þetta er að sjálfsögðu mjög gott.

Hins vegar hefði verið miklu betra ef þetta upphlaup hefði alls ekki átt sér stað. Ég hélt og trúði í tæpan sólarhring að það ætti að tekjusvipta mig í tvo mánuði. Þegar maður er með íbúðarlán og lítið barn þá er það talsvert mikið mál. Ég er vissulega gift en þvert á almannaálit þá eru bændur ekki hálaunamenn. Kosturinn er vissulega sá að við hefðum ekki soltið og má þakka fyrir það.

Ég ætla líka að þakka þjónustufulltrúanum á Húsavík fyrir hans góðu aðstoð því án hans aðkomu hefði ég verið í vondum málum. Ég hringdi nefnilega sjálf í gær. Og mér var ekki trúað.

mánudagur, maí 30, 2011

Óviðunandi vinnubrögð Vinnumálastofnunar

Síðastliðið vor var mér sagt upp vinnunni. Ég kenndi við Meðferðarheimilið Árbót og þegar því var lokað þá missti ég vinnuna. Ég er ekkert ánægð með það og hef ákveðnar athugasemdir við það ferli allt saman en svona er þetta. Það hefur ekki hvarflað að mér að skammast mín fyrir það að vera atvinnulaus enda ber ég ekki ábyrgð á efnahagsástandi þjóðarinnar, vinslitum Braga og Árbótarhjóna, fækkun í sveitum landsins né því að tilheyra ekki elítunni.
Í sex mánuði var ég á biðlaunum en það lá ljóst fyrir að ég myndi fara á atvinnuleysisbætur í febrúar. Undanfarin 8 ár hef ég verið á fyrirframgreiddum launum en fór nú á eftirágreidd laun svo ljóst var að þarna myndi myndast bil.
Í janúar hringi ég í Vinnumálastofnun til að fá leiðbeiningar. Mér er sagt að ég þurfi að fá vottorð frá vinnuveitanda. Svo á ég að fara á skrifstofu Vinnumálastofnunar á Húsavík nokkrum dögum áður en ég fell út af launaskrá, skrá mig og afhenda þetta vottorð.
Um miðjan janúar mæti ég á áðurnefnda skrifstofu. Þreytulegi ungi maðurinn þar tilkynnir mér að ég geti ekki skráð mig fyrr en ég dett út af launaskrá. Þann fyrsta febrúar á ég að setjast við tölvuna og skrá mig. Ekki fyrr. Ég fæ borgað frá þeim degi sem ég skrái mig. Ef ég skrái mig 2. feb. þá fæ ég borgað frá 2. feb. Hann getur ekki heldur tekið við vottorðinu, ég á að koma með það aftur seinna. Við atvinnuleysingjarnir höfum jú ekkert betra að gera en rúnta á milli staða (20 mín. akstur x2) á ódýra bensíninu.

Þann 1. febrúar sest ég við tölvuna til að skrá mig. Ég þarf að skrá mig í lífeyrissjóð. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkis og bæja A-deild er minn sjóður. Hann er ekki valmöguleiki í skráningunni. Ég hringi í Vinnumálastofnun. Það er ekki svarað. Ég hringi í annað númer. Þar fer af stað hálftíma hljóðrituð ræða um það hvernig eigi að bera sig að. Þegar henni er lokið er ekki svarað. Allan tímann er ég með netsamtal við þjónustufulltrúa á bið á heimasíðunni. Eftir nokkrar tilraunir er svarað í fyrra númerinu. Þar fer konan af stað með einhverja rullu sem er vandamáli mínu óviðkomandi. Ég næ að stoppa hana af og lýsa vandkvæðum mínum. Hún segir mér að hringja í hitt númerið aftur. Ég hringi aftur í það númer, hlusta aftur á hálftíma ræðuna, en svo er svarað! Þar fæ ég þær upplýsingar að Húsavíkurskrifstofan geti lagað þetta. Húsavíkurútibúið er lokað á þriðjudögum svo það gerir nú ekki mikið gagn. Þá á ég að sleppa lífeyrissjóðnum.  Ég fer aftur í skráninguna. Ef ég sleppi lífeyrissjóðnum þá hleypir kerfið mér ekki áfram í skráningarferlinu. Við skulum ekki gleyma að ég fæ greitt frá þeim degi sem ég skrái mig. Algjörlega hinsegin ákveð ég að hringja í Húsavíkurskrifstofuna. Fyrir hreina tilviljun er strákurinn þar og svarar símanum. Hann segir mér að skrá mig bara í einhvern góðan lífeyrissjóð svo ég komist inn og svo lögum við þetta seinna. Ég geri það. Í þessu umsóknarferli er spurt hvort ég hafi aðrar tekjur. Já, ég hef aðrar tekjur. Ég sit í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar og fæ laun fyrir það.  Ég set inn hversu há laun ég fæ. Þetta fylli ég skilmerkilega inn og sendi umsóknina. Nokkrum dögum seinna fer ég í viðtal við unga manninn á Húsavík og skila inn vottorðinu. Þá segi ég honum einnig að mér hafi orðið á mistök við skráninguna, ég hafi sett inn nettó laun fyrir sveitarstjórnarsetuna en ekki brúttó. Þá stóð líka í skráningunni einhvers staðar að tilkynntar tekjur yrðu samkeyrðar við upplýsingar Ríkisskattstjóra. Það er ágætt því launin eru mismunandi eftir fundafjölda. Ég man ekki hvernig orðaskipti okkar þjónustufulltrúans voru um þetta en ég hugsaði alla vega ekki meira um málið né hafði af því frekari áhyggjur. Mér er ljóst að tekjurnar ná því marki að skerða bæturnar og er fullkomlega sátt við það. Hann gat ekki lagað lífeyrissjóðsskráninguna en sendi póst á einhvern sem átti að geta það. Það hefur ekki verið gert enn þá. Þá ræddum við um skattkortið mitt og hvort ég vilji leggja það inn hjá honum eða hvort ég ætti kannski að skipta því vegna launanna frá Þingeyjarsveit.

Upp rennur 1. mars. Bankareikningurinn orðinn tómur enda ekkert útborgað síðastliðin mánaðarmót og gjalddagi gluggabréfa að renna upp. Kreditkortareikningurinn gjaldfellur 2. mars. Þegar bankareikningurinn er jafntómur eftir hádegi byrja ég að hringja. Það er að sjálfsögðu þriðjudagur svo mín þjónustuskrifstofa er lokuð og strákurinn ekki við. Svo ég hringi annað. Þar svarar kona, þreytuleg og viðbúin árás. Það er mjög óþægilegt að tala við fólk sem er í stöðugri vörn og alveg með það á hreinu að maður sé að fara að ráðast á það. Ég ber upp vanda minn og segi henni að ég þurfi að fá útborgað annars hafi ég ekki efni á reikningunum mínum. ,,Þetta er ekki mér að kenna!" Ég er ekki að kenna þér um það, ég vil bara fá að vita við hvern ég á að tala til að laga þetta. Það mun vera Greiðslustofa. Svo ég byrja að hringja þangað. Fyrst beið ég í hálftíma og svo beið ég í þrjú korter. Símanum var að sjálfsögðu ekki svarað. Ég hef sennilega ekki verið eina manneskjan sem fékk ekki útborgað. Á milli þess sem ég þurfti að hlusta á sama sálardrepandi jass-stefið, ekki lag, stef, þá var mér tilkynnt af símsvara að ég mætti eiga von á því að samtalið yrði tekið upp. Bara svona ef mér dytti í hug að vera með einhver læti út af svona nauðaómerkilegum hlutum eins og því að lifa af. Mér er aldrei sagt númer hvað ég er í röðinni. Það er talsverður munur á að vera númer 2 eða 107. Svo loka þau klukkan þrjú og ég náði ekki í gegn. Daginn eftir er engin útborgun komin svo ég hringi aftur og hlustaði sleitulaust á sama sálardrepandi stefið í önnur þrjú korter. Við atvinnuleysingjarnir höfum jú ekkert betra að gera en liggja í símanum allan daginn og borga fyrir að fá að hlusta á jass-stef. Loksins er svarað. Sama þreytan, sama vörnin. Nei, þetta er bara því miður ekki komið í gegn. Umsóknin þín var ekki samþykkt fyrr en 25. svo þetta tekur smá tíma. Við skulum ekki gleyma að ég mátti alls ekki sækja um fyrr. Þetta kemur örugglega á morgun. Kreditkortareikningurinn verður reyndar gjaldfallinn á morgun en ég efast ekki um að Borgun komi til með að sýna þessu djúpstæðan skilning. Alveg örugglega.

Ég bíð allan fimmtudaginn en ekkert gerist. Maðurinn minn borgaði kreditkortareikninginn en við höfum ekki efni á þessu lengi í viðbót. Á föstudeginum hringi ég aftur og enn í Greiðslustofu.  Undarlegt nokk er strax svarað. Það er sjálfvirkur símsvari að segja mér að Greiðslustofa sé opin alla virka daga á milli 9 og 15. Klukkan er hálf þrjú. Kósý.
Á mánudeginum hringi ég í þjónustufulltrúann á Húsavík. Það er ekki borgað út nema 1. og 7. hvers mánaðar þannig að stúlkan fyrir helgi fór hreinlega með rangt mál. Þann 7. fékk ég loks útborgað og það hefur verið í lagi síðan.
Þann 10. maí síðastliðinn fæ ég bréf dagsett þann 9. frá Vinnumálastofnun. Þau hafa komist að því með  samkeyrslu við upplýsingar frá Ríkisskattstjóra að ég hafi fengið laun frá Þingeyjarsveit. Merkilegt. Ég tók það bara fram strax í umsókninni 1. febrúar. Og nú eigi ég að gjöra svo vel að gera grein fyrir þessum tekjum annars eigi ég það á hættu að vera tekin af bótum í refsingarskyni í tvo mánuði. Ég hélt nú reyndar að ég hefði gert það en allt í lagi. Ég hringi í vini mína hjá Greiðslustofu. Fæ bara að hlusta á uppáhalds stefið í smá stund. Ég lýsi vandræðum mínum. Jú, ég á sem sagt að tilkynna mánaðarlega um launin. Fylla út á heimasíðunni og senda. Allt í lagi. Það hefði verið ágætt að vita það aðeins fyrr en allt í góðu. Ég redda þessu. Ég sest við tölvuna og fylli þetta skilmerkilega út. Kanna mínar síðar nokkrum dögum seinna og sé að þetta hefur verið móttekið og afgreitt. Þá hlýtur þetta að vera allt í góðu lagi.
Í dag fæ ég bréf frá Vinnumálastofnun. Þar er mér formlega tilkynnt að þar sem ég ,,lét hjá líða að tilkynna um tilfallandi tekjur" þá verði bótaréttur minn felldur niður í tvo mánuði frá og með 24. maí. 2011.
Já, þið haldið það. Ég held ekki.
Framkoma starfsfólks Vinnumálastofnunar við skjólstæðinga sína er lítilsvirðandi. Þetta eru ófagleg vinnubrögð og mannfyrirlitning af verstu sort. Það er nógu vont og sárt að missa vinnuna sína. Það er nógu vont og sárt að fá ekki aðra vinnu. Ég hef verið á vinnumarkaði í 20 ár og greitt mína skatta og skyldur. Mér finnst ekki gaman að þiggja þessar atvinnuleysisbætur en ég á rétt á þeim og ég þarf á þeim að halda. Andskotinn hafi það að ég verði ómagi á sveitarfélaginu mínu af því að þið hjá Vinnumálastofnun kunnið ekki að lesa!

þriðjudagur, maí 17, 2011

Tíminn

Frá því ég komst til vits og ára hef ég vitað að tíminn líður. Ég átta mig fullkomlega á því að ég eldist með hverjum deginum sem líður og einhvern tíma verð ég gömul. Ef ég er heppin. Því það er jú ekki nema um tvennt að velja; eldast eða deyja. Á tilteknum tíma og rúmi beið mín öldrun. Þetta hef ég alltaf vitað. En satt best að segja þá trúði ég því aldrei raunverulega. Ég vissi að ég yrði einhvern tíma gömul en ég gerði ekki ráð fyrir því að einhvern tíma myndi breytast í núna.
Ég hef verið að upplifa ákveðna hluti undanfarin 10 ár eða svo:
Ég hætti að skilja hvað stóð í BT auglýsingabæklingunum.
Ég fer til læknis og það er barn sem tekur á móti mér. Við þetta barn á ég að tala eins og fullorðna manneskju sem viti hvað hún sé að gera. Fyrir nokkru lenti ég á svona læknabarni sem sagðist ætla að ráðfæra sig við sérfræðingana sem eru orðnir gamlir í hettunni, reynsluboltana. Þessir lífsreyndu karlar eru strákar á sama aldri og ég.
Þegar ég horfði á Live Aid í beinni á sínum tíma þá skildi ég ekkert hvað þessi gamli skröggur Mick Jagger var að vilja upp á svið. Fyrir stuttu horfði ég á tónleikana á DVD og var að velta fyrir mér hvað Jagger hefði verið ungur og sprækur þarna.
Í fyrra lendi ég svo í þeim ósköpum að verða fertug. Ég átta mig á því að fólk sem fæðist 1970 verður fertugt 2010 en ég samt ekki alveg að átta mig á því hvernig þetta gat komið fyrir mig. En svona er sem sagt staðan. Konan er orðin fertug. Og það er auðvitað eins og við manninn mælt það hrynur allt sem hrunið getur.
Hvítu hárin eru ekki lengur á stangli, þau eru búin að ummyndast í strípur. Gribbuhrukkan sem kom bara þegar ég setti í brýnnar er komin með heimilisfesti. Ég fæ stundum verk í hnéið. Ég get ekki vakað langt fram eftir nóttu og hef glatað skilningnum á að nokkur skuli yfir höfuð vilja það. Mér finnst vera alltof mikil læti og hávaði í barnamyndum nú til dags.
Í hitt-í-fyrra var ég að keyra og hlusta á útvarpið. Þá segir kynnirinn: ,,Hér er blast from the past. Þetta lag sat í toppsætinu fyrir aldarfjórðungi síðan." Í höfðinu á mér fór að spilast svart-hvítt rokkabillí. Nei. Wake me up before you go-go. Það lá við að ég keyrði út af. Og þetta var í hitt-í-fyrra.
To be continued....

þriðjudagur, apríl 05, 2011

Sæt lítil samsæriskenning

Sennilega hef ég setið í Þýskum bókmenntum á sínum tíma (frekar en menntó) þegar upp kom umræða um Baader-Meinhoff hryðjuverkagengið. M.a. veltum við fyrir okkur hvað fólkinu hefði eiginlega gengið til. Kennarinn útskýrði það þannig að hugmyndafræðin gengi út á að til að ná fram sinni draumaskipan þá yrði að gera núverandi ástand svo óþolandi að fólki fyndist allt betra en það. Þetta þykir mér undarleg hugmyndafræði en sel ekki dýrar en ég keypti.
Umræðan um Icesave velti þessari minningu fram úr rykföllnum geymslum áranna. Mér er fyrirmunað að skilja að sama fólk sem vælir endalaust um það að ,,ríkisstjórnin geri ekki neitt" ætli sér nú að gera ríkisstjórninni eins erfitt fyrir að ,,gera eitthvað" og hægt er og helst að koma algjörlega í veg fyrir það. Við getum reynt að blekkja okkur fram í rauðan dauðann en það blasir við að með Nei-i erum við í besta falli að tryggja status quo næstu árin. Málaferli taka tíma og þó svo ólíklega vildi til að við ynnum þá verður lánshæfismatið okkar í ruslflokki á meðan svo það er alveg spurning hversu mikið við græðum. Lendum við í þeim ósköpum að tapa málinu gætum við verið dæmd til þess að greiða alla upphæðina. Eitt þúsund og tvö hundruð milljarða. Það verður gaman að greiða ,,skuldir óreiðumanna" margfalt hærri en við hefðum þurft að gera.
Nei, mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvað fólkinu gengur til. Það eina sem mér dettur í hug og finnst líklegt er að það sé verið að reyna að koma ríkisstjórninni frá. Það sjónarmið er í sjálfu sér alveg gott og gilt en þá myndi ég gjarna vilja að fólk kæmi heiðarlega fram og viðurkenndi það. Þá vil ég gjarna fá að vita líka hvaða valkost annan það sér í stöðunni. Vill fólk í alvöru fá gömlu hrunflokkanna aftur á valdastól? Flokkana sem komu okkur í þessa stöðu. Flokka sem hafa ekki gert neitt annað en hygla vinum og vandamönnum í gegnum árin. Heldur fólk í alvöru að þessir flokkar fari allt í einu að hugsa um hag alþýðunnar? Þeir hafa aldrei gert það! Til að kóróna allt saman þá samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn Icesave samninginn á þingi því atvinnurekendur, eigendur framleiðslutækjanna, voru að komast í þrot vegna lokaðra lánalína. Í þessu tilviki fara saman hagsmunir atvinnurekanda og hinna vinnandi stétta. Þegar búið er að taka Samfylkingu, Vinstri-græna og Sjálfstæðisflokkinn út úr jöfnunni þá er enginn raunhæfur kostur eftir. Svo hvað er í gangi?
Hvurslags málflutningur er þetta sem er í gangi? Hvaðan kemur mötunin?
Tökum hugtakið ,,skuldir óreiðumanna." Hvaðan kemur það? Jú, frá Davíð Oddssyni. Manninum sem einkavæddi bankana. Manninum sem færði tilvonandi óreiðumönnum bankana á silfurfati. Manninum sem afnam allt eftirlit með fjámálastofnunum svo þiggjendur bankanna gætu orðið óreiðumenn. Manninum sem keyrði Seðlabanka Íslands í gjaldþrot og dýpri skuldir en Icesave skuldin verður ef við segjum já. Manninum sem er nú ritsjóri Morgunblaðsins og heldur úti stöðugum áróðri gegn ríkisstjórninni, samningnum og sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Helsti áróðurinn kemur frá honum og hans fylgismönnum (Útvarpi Sögu, ÍNN og meðlimum Frjálshyggjufélagsins). Hvað gengur manninum til?
Það kom berlega í ljós í frægu Kastjósviðtali, sem kostaði okkur hryðjuverkalög, og svo síðar í aðdraganda kosninga að Davíð Oddsson á sér draum. Hann er með De Gaulle heilkennið á alvarlegu stigi. Það varð hins vegar ljóst að framboð myndi ekki skila honum aftur á valdastól. Hefðbundin tæki lýðræðisins duga því ekki. Það eina sem getur skilað honum aftur á valdastól er bylting. Hvernig kemur maður á byltingu? Jú, maður gerir ástandið óbærilegt.

föstudagur, apríl 01, 2011

Nei-ið

Hafi ég skilið málflutning þeirra sem vilja hafna Icesave samningunum þann 9. apríl næstkomandi þá eru þessar ástæður helstar:

1. Okkur ber engin skylda til að borga þetta.

2. Þótt við höfnum samningnum þá gerist ekki neitt sbr. síðustu höfnun.

3. Icesave er bara inngöngumiði í ESB og með því að hafna samningnum þá losnum við við ESB.

Allt í lagi. Allt er þetta gott og gilt. Ég er til í ýmislegt til að losna við ESB. En ég get ekki að því gert en mér sýnist vera einhver rökvilla í þessum málflutningi.

Af hverju fáum við ekki inngöngu í ESB ef við neitum að borga? Hlýtur það ekki að vera vegna þess að Evrópusambandsþjóðirnar telja að okkur sé skylt að borga? Er nóg að við teljum að okkur sé ekki skylt að borga, verða ekki viðsemjendur og jafnvel fleiri að deila þeirri skoðun?

Og eru það ekki þessar sömu Evrópuþjóðir sem hafa dómsvald í málinu? Hvernig er hægt að halda því fram að við eigum möguleika á því að vinna dómsmál þegar það (virðist) liggja ljóst fyrir að við fáum ekki aðild að ESB ef höfnum samningnum af því að fólkið í Evrópusambandslöndunum telur okkur skylt að borga...?

Ef ESB dömpar umsókninni okkur af því við höfnum samningnum þá er það eitthvað sem gerist. Þá er það klárlega ekki rétt að EKKERT gerist. Viðsemjendur okkar hafa líka gefið það út að frekari samningaviðræður séu ekki í boði svo þá blasir dómstólaleiðin við. Að fara fyrir dóm er atburður, þ.e. eitthvað sem gerist. Og nota bene, það er ESA sem stefnir okkur og við endum fyrir EFTA dómstólnum. Þið vitið, þetta apparat sem tilheyrir ESB sem mun hafna umsókninni okkar af því að ... Ja, einhverjum gæti dottið í hug að það sé vegna þess að þeir telji okkur skylt að borga.

Segjum nú sem svo að við höfnum þessu og förum fyrir dómstóla og vinnum málið. (Sem við hljótum auðvitað að gera af því okkur er ekki skylt að borga skv. röksemdafærslunni). Þá hefur ESB enga ástæðu til að hafna umsókninni okkar svo við hljótum að halda áfram för okkar þangað inn. Þannig að það að hafna Icesave samningnum er engin trygging fyrir því að við förum ekki í ESB.

En, alla vega. Það er eitthvað í þessu sem mér finnst ekki ganga upp. En kannski er það bara ég...

mánudagur, febrúar 21, 2011

Synjunin

Ég hef alltaf verið hlynnt 26. grein stjórnarskrárinnar. Mér finnst nauðsynlegt að til staðar sé ákveðinn öryggisventill ef svo bæri við að stjórnmálamenn færu offari. Ég fagnaði ákaft þegar forsetinn virkjaði í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins 26. greinina og synjaði fjölmiðlalögunum svokölluðu staðfestingar. Af hverju fagnaði ég? Jú, ég stend vinstra megin við línuna frægu. Eins og málið var sett upp af fjölmiðlum og andstæðingum þáverandi ríkisstjórnar þá snerust lögin um persónulega vanþóknun Davíðs Oddssonar á Bónusfeðgum. Lögin snerust um eignahald á fjölmiðlum og krosseignatengsl. Forsetinn synjaði lögunum staðfestingar, ríkisstjórnin dró þau til baka og þau aldrei sett. 2008 varð efnahagshrun á Íslandi. Margt hefur verið tínt til um ástæður þess, m.a. að fjölmiðlar, flestir í eigu Bónusfeðga, sinntu ekki hlutverki sínu og það voru engin lög um krosseignatengsl. Úpps...
Núna situr vinstri stjórn í landinu og að sjálfsögðu styð ég þá ríkisstjórn. Þannig í raun er alveg sama hvað ég segi um sífellda synjun fostetans til að staðfesta lögin um Icesave, það verður alltaf metið út frá flokksskírteininu mínu. Það eru þó nokkrir hlutir sem ég tel vert að íhuga.

Öryggisventillinn: Nú hefur sami forsetinn notað þessa áður ónýttu grein þrisvar sinnum á síðustu 7 árum. Á fyrstu 60 árum lýðveldins var ákvæðið aldrei nýtt og aldrei af 4 forverum sitjandi forseta. Er ventillinn að virka eða er hann orðinn lekur?

Þingræðið: Í Alþingiskosningum vitum við að við erum að velja pólitíska fulltrúa. Þetta er fólkið sem fer með valdið í landinu. Ég kýs forseta eftir allt öðrum forsendum. Nú hefur stjórnskipan landsins verið breytt einhliða á þann veg að hér er forseta þingræði. Það hlýtur að hefta störf þingsins gríðarlega að það sé ekki nóg að ná meirihluta innan þess, það þarf líka að þóknast forsetanum.
Höfum í huga að þessi ríkisstjórn mun ekki sitja að eilífu. Einhvern tíma kemur ný ríkisstjórn. Er sú ríkisstjórn reiðubúin að hlýta þessum skilmálum? Gefum okkur að Bjarni Ben. verði forsætisráðherra og Davíð Oddsson forseti.


Lýðræðið: Nú hefur verið sýnt fram á mjög ákveðna vankanta á undirskriftasöfnuninni kjosum.is. Er hægt að knýja fram synjun á hvaða máli sem er? Er nóg að vera hávær? Er betra að hafa kerfisfræðing innanborðs? Dugar sem sagt að eiga peninga og hafa tengsl? Hverjir eru það? Það er ekki almenningur í landinu, svo mikið er víst. Hvar er þá lýðræðið?

Forsetaembættið: Þegar ég kýs forseta kýs ég ekki eftir pólitískum áherslum. Ég hef alltaf litið á forsetaembættið sem sameiningartákn þjóðarinnar og skrautfjöður. Það má vera að mér skjátlist en ég er þá ekki ein um þennan misskilning. Reyndar tel ég að þvílík eðlisbreyting hafi átt sér stað á forsetaembættinu að forsendur séu brostnar og eðlilegt að kosið verði sem fyrst eftir hinum nýju forsendum.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...