Þegar ég fékk kvíðakastið.

Fyrir rúmu ári greindist ég með gallsteina. (Undarlega algengt hér í sveit, held svei mér að það þurfi eitthvað að rannsaka vatnið!) Eftir að ég hafði legið sárþjáð í 6 klukkutíma og ælt lifur og lungum var ég svo heppin að vinkona mín hringdi í mig og skipaði mér að tala við lækni þar sem hljóðið í mér var skrítið og ,,nei Ásta, þetta er ekki bara svæsin ælupest!"
Ég fór á spítalann og gisti þar eina nótt, guð minn góður hvað verkjalyf eru dásamleg uppfinning, og var greind með gallsteinakast sem síðar var staðfest.
Ekki veit ég hvað gallblaðran mín hefur gert lækninum en honum er mikið í mun að ég losi mig við hana. Hann uppástendur að þegar steinar eru komnir í gallblöðruna þá sé hún ónýt hvort sem er og aðeins til óþurfta. Ég hins vegar er uppfull af tilfinningasemi gagnvart líffærunum mínum og vil gjarna halda þeim.
Og hvað gerir viðkvæmt lítið blóm sem stendur frammi fyrir læknamafíunni sem vill bara taka úr því líffærin? Jú, það leggst á netið og leitar að einhverju óhefðbundnu. Auðvitað.
Fyrst fann ég trilljón síður þar sem mælt var með ómældu magni af ólífuolíu og sítrónum sem áttu að ,,hreinsa út" gallblöðruna. Einhvers staðar vottaði fyrir heilbrigðri skynsemi í höfðinu á mér því þetta fannst mér ekki geta staðist. Svona mikil fituneysla hlyti að ýta undir annað kast og gera hlutina verri svo ekki féll ég fyrir þessu. Einhverjum bætiefnum var mælt með sem áttu að ,,minnka" steinana og ég borðaði þau samviskusamlega. Svo undir vor fann ég út að fíflarót (í hófi) gæti haft góð áhrif svo ég keypti hana auðvitað samdægurs.
Stuttu eftir að ég byrja að taka fíflarótina daglega tala ég við konu sem var með gallsteina en nú var búið að taka úr henni gallblöðruna. En það mátti litlu muna því blaðran rofnaði í höndunum á lækninum, hún var orðin svo þunn. Gallblaðran þjónar nefnilega þeim tilgangi að framleiða gall sem meltir fitu, er sem sagt fituleysir. Og ef blaðran springur inni í manni þá er maður í vondum málum. Jú, jú, ég vissi þetta svo sem en ég hélt að blaðran yrði að vera full af steinum til að vera í sprengjuhættu. Þá fer mig svona að ráma í það að amma mín var með gallsteina á sínum tíma og lenti í því að blaðran sprakk. Hún var eiginlega sjúklingur eftir það. Hmmm....
Ég man nú ekki hvort það leið einn dagur eða tveir en ég er svona að hugsa um þetta. Svo finn ég það að ég er eitthvað að verða skrítin í munninum. Mér finnst tungan vera að bólgna upp og kokið að lokast. Já, ókey, indælt. Þetta heldur áfram þótt ég reyni að ignora það svo ég fer að hafa áhyggjur af þessu og kemst að þeirri niðurstöðu að það komi bara tvennt til greina: Ég er að koma mér upp ofnæmi fyrir fíflarótinni og kafna fljótlega eða ég er að fá kvíðakast í fyrsta skipti á ævinni.
Ég geng um gólf og velti fyrir mér hvað ég eigi að gera. Ef ég er að bólgna upp af ofnæmi þá verð ég auðvitað að fara til læknis . Það er líka betra að fara til læknis ef þetta er kvíðakast. Ef þetta er hins vegar eitthvað hysteríu shit-fit þá vil ég helst ekki opinbera það mjög mikið. What to do? What to do?
Að lokum kemst ég að þeirri niðurstöðu að af tvennu illu sé betra að lifa kjánalega en deyja kjánalega svo ég hringi í lækninn og fæ að koma akút.
Ég lýsi fyrir honum þessum einkennum og hann tekur strok úr munninum á mér til að útiloka streptókokka. Á meðan við bíðum eftir niðurstöðunni ræðum við um gallsteina og andlega líðan mína sem er bara nokkuð góð á þessum tímapunkti og ég er frekar hissa á þessu kvíðakasti. ,,En við þurfum ekkert að velta okkur mikið upp úr því" segir hann ,,því þú ert með streptókokka." Ha!?
Það er sem sagt hægt að fá streptókokka án þess að fá hita. Þetta vissi ég ekki. Svo huggaði hann mig með því að einkennin sem ég fyndi ,,væru ekki ímyndun." Mér létti nú mikið við það. Svo fór ég heim með pensílín og kvíðakastið fjaraði út í sandinn.
En þetta var mjög raunverulegt panikk á meðan á því stóð:)

Ummæli

  1. Ég hef líka fengið svona "kvíðakast". Það reyndist vera óþol fyrir bólgueyðandi lyfi, sem lét blóðþrýstinginn hjá mér fara upp úr öllu valdi.

    Samt var ég upphaflega greind með kvíðakast af lækni á bráðamótttöku. Ég var svona dögum saman og hélt auðvitað áfram að taka lyfið sem gerði mig veika, þar til ég hringdi í heilsugæsluna og spurði hvort að það væri hægt að vera með kvíðakast í marga daga. Þá loksins var þetta skoðað af alvöru.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir