Karlmennskan

„Kallarðu sjálfan þig karlmann? Þú ættir að skammast þín.“ Þetta höfum við heyrt. En þetta: „Kallarðu sjálfa þig konu? Þú ættir að skammast þín.“?

Við höfum öll ákveðnar hugmyndir um kynin. Femínistar hafa reynt að brjóta konur út úr sínu hefðbundna sniðmáti og við vitum talsvert um stöðu kvenna og þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Karlarnir eru hins vegar enn nokkuð fastir í sínum hlutverkum þótt óneitanlega hafi þeir notið góðs af jafnréttisbaráttunni.
Einhvern tíma las* ég að karlar skilgreindu sig sem karla á þann hátt að þeir væru ekki konur. Það er óneitanlega frekar sorglegt að skilgreina sig út frá því sem maður er ekki heldur að skilgreina sig út frá því sem maður er.


Til að skilja hugtakið karlímynd verður fyrst að útskýra hugtakið kynjaímyndir. Þorgerður Þorvaldsdóttir (2002) segir að kynjaímyndir eigi við þær hugmyndir sem eru ríkjandi innan samfélagsins um hvað það þýði að vera karl eða kona. Jafnframt á hugtakið við hvernig ætlast er til að karlar og konur hegði sér, hvernig kynin eigi að líta út og hvað þau „...eiga og mega taka sér fyrir hendur.“
Þorgerður telur að ríkjandi karlímyndir séu meðal annars veiðimaðurinn, ofurtöffarinn, sá jakkafataklæddi sem hafi bæði völd og fjármuni og loks fjölskyldufaðirinn; hinn ábyrgi faðir og fjölskyldumaður sem eigi sífellt meiri vinsældum að fagna. Umfram allt telur hún að karlímyndir vísi til þeirra hlutverka sem samfélagið ætli karlinum. (Hulda Jónsdóttir, 2006)

Ég hef lengi haft ákveðna hugmynd um hvað karlmennska er. Hún er klisjukennd eins og flestar og helst í hendur við tískubólurnar; Hinn ábyrgi faðir og fjölskyldufaðir er táknmynd karlmennskunnar í mínum huga.
Það eru tvær persónur úr dægurmenningunni sem sýna þessa hugmynd mína. Annars vegar Múfasa úr Lion King og Atticus Finch úr To kill a Mockingbird.
Það má eflaust þykja skrítið að mér þyki teiknað ljón vera táknmynd fyrir karlmennskuna en mér finnst það alveg viðeigandi því við erum í raun að tala um kyngervi (e. gender) en ekki kynið (e. sex) sjálft sem slíkt.
Báðir eru þeir ábyrgir feður sem sinna uppeldi barna sinna á ástúðlegan hátt.



En þeir eru líka „alvöru“** karlmenn sem vernda fjölskyldu sína þegar á þarf að halda.



Ég hef örlitlar áhyggjur að það hafi áhrif á þessa skoðun mína að Múfasa er í virðingarstöðu, hann er jú kóngurinn sjálfur (og nú lít ég algjörlega fram hjá fjölkvænisfítusnum) og getur þ.a.l. „skaffað“ sem er eitt helsta hlutverk karlmanna.
Þá er Gregory Peck einhver sá alfallegasti maður sem gengið hefur á jörðinni. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að neita að það hefur áhrif. Atticus Finch í líkama Gregory Peck er mjög einfaldlega hinn fullkomni karlmaður.

Það geta ekki allir verið gordjöss.


* Í bók, man ekki hvaða. Nei, finn það ekki á netinu, las það samt.
**Ægilega leiðinleg hugmyndafræði en ég finn ekki betra hugtak í bili.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir