Önnur tegund

Síðustu helgi var sýnd í Ríkissjónvarpinu kvíkmyndin Jurassic Park 3. Með risaeðluótt ungviði á heimilinu sem sá auglýsingarnar var ákveðið að hliðra háttatíma og horfa á myndina.
Söguþráðurinn er á þá leið að táningspiltur og nýi kærasti mömmu hans týnast á Isla Sorna og dr. Alan Grant er plataður til að fara og leita að þeim. Með honum í för eru foreldrar drengsins og einhverjir fleiri.
Um leið og lent er á eyjunni fara foreldrarnir út og byrja að hrópa og kalla á þá týndu algjörlega án alls tillits til þess að enginn vildi fara með til eyjunnar að leita því á henni eru stórhættulegar risaeðlur.

Nú er sennilega best að taka fram að ég veit að risaeðlur eru ekki til nema í steingervingaformi þannig að nákvæmlega þessi atburðarás mun aldrei eiga sér stað. Hins vegar minnti þessi mynd mig á að fyrir u.þ.b. 8 árum síðan átti sér stað ekkert ósvipuð atburðarás en þá gengu tveir ísbirnir á land.
Viðbrögð fólks voru með hreinum ólíkindum því þegar til komu fyrri bjarnarins spurðist geystist fólk af stað til að reyna að sjá björninn.


Í skýrslu starfshóps sem umhverfisráðherra skipaði í júní 2008 segir:
Þegar fréttist af hvítabirninum streymdi mikið af fólki á vettvanginn og voru margir komnir á undan  lögreglu á staðinn. Byrjað var á að loka veginum við afleggjara Þverárfjallsvegs og Hrauns á Skaga en fólk var staðráðið í því að sjá dýrið og taka myndir af því þannig að sumir notuðu hjáleið sem lögreglumaður vissi ekki af og komst því nær. Af upplýsingum sjónarvotta að dæma virtist fólk ekki gera sér nokkra grein fyrir þeirri hættu sem stafaði af dýrinu. (bls. 9, feitletrun mín.)

Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig standi á því að margt fólk geri sér enga grein fyrir því að dýr geti verið hættuleg og sum hver alveg stórhættuleg.
Nú er það vissulega svo að meirihluti Vesturlandabúa búa í borgum og þekkja ekki dýr nema að litlu leyti. Gæludýr vissulega en lengi vel var t.d. hundahald bannað í Reykjavík. En það eitt að þekkja ekki til dýra útskýrir ekki ranghugmyndirnar sem margir hverjir hafa. Virðist mér, og vinsamlegast athugið að einungis er um mína skoðun að ræða, að fólk gefi dýrum iðulega mannlega eiginleika.

http://xenocidaender.deviantart.com/
Það er vel þekkt skáldsagnaaðferð að gefa dýrum mannlega eiginleika. Oftast notað í dæmisögum eins og t.d. Dæmisögum Esóps. Esóp og fleiri dæmisöguhöfund (t.d. Orwell) notuðu dýr til tákna ákveðna eintaklinga eða þjóðfélagshópa undir rós. Sögurnar, eins og t.d. Animal Farm eru alveg klárlega um fólk og aðstæður þess en ekki um dýr þótt dýr séu notuð. Hins vegar höfða dýrin til okkar tilfinningalega. Við höfum miklu meiri samúð með hestinum Boxer en við myndum nokkurn tíma hafa með hinum í sinni mannlega mynd, hinum góðgjarna og fátæka verkamanni.

Þá hefur Disney verksmiðjan aldeilis lagt sitt af mörkum með að gæða dýr mannlegum eiginleikum og gefa börnum um leið mjög rangar upplýsingar um dýr.

Nú er ég alls ekki að segja að dýr séu bara skynlausar skepnur. Hins vegar held ég að við séum ekki að gera þeim neinn greiða með því að ætla þeim eiginleika sem þau hafa ekki.
Heiðrún Villa segir í  bók sinni Gerðu besta vininn betri:
Hjá hundi, sem lifir í núinu er hamingjusamt líf – líf í jafnvægi. Það er líf þar sem hann fær að vera hundur, gera það sem hundum er eðlislægt og fá það sem hann þarfnast. (bls. 19, feitletrun mín.)
Dýr eru önnur tegund en maðurinn og það ber okkur að virða og koma fram við þau á þeim grundvelli. Það breytir engu um það að við eigum að sjálfsögðu að koma vel fram við dýr og gæta að aðbúnaði þeirra.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir