Rasisma gefið gildi

Síðastliðinn fimmtudag mætti forsætisráðherra í löngu tímabært viðtal hjá fjölmiðli. Hann er forsætisráðherra íslenska ríkisins og íslenska ríkið á útvarpsstöð, RÚV, svo það hefði mátt vera eðlilegt að hann mætti þangað. Það gerði hann þó ekki. Hann og annað framsóknarfólk telur að RÚV sé sérstaklega í nöp við Framsóknarflokkinn þótt aðrir séu ekki sammála því. Látum það liggja á milli hluta. Á Íslandi er rekin önnur stór útvarpsstöð, Bylgjan. Forsætisráðherra var í viðtali við Fréttablaðið þennan sama dag þar sem farið var um hann mjúkum höndum. Þar sem sömu eigendur eru að Bylgjunni og Fréttablaðinu má ætla að um hann væri farið sömu silkihönskunum þar. En forsætisráðherra valdi að fara í viðtal við jaðarútsvarpsstöðina Sögu sem er þekkt fyrir harða hægristefnu og hefur lengi legið undir ámæli um rasísk viðhorf og hatursorðræðu.
Framsókn hefur lengi dorgað í "gruggugu vatni". Er skemmst að minnast kosningarbaráttu flokksins í Reykjavík í síðastliðnum kosningum sem og þjóðernissinnaðra áherslna á Landsfundi.
Forsætisráðherraembættið er (annað) okkar æðsta embætti og svo sannarlega það valdamesta. Þegar forsætisráðherra þjóðarinnar veitir fjölmiðli viðtal þá gefur hann þeim fjölmiðli ákveðið gildi. Þegar forsætisráðherra velur einn fjölmiðil til að veita viðtalið sem beðið hefur verið eftir þá gefur hann þeim fjölmiðli mikið gildi. 
Skilaboðin eru skýr.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir