Starfslokasamningurinn - Lokaorð (vonandi)

Eftir langa mæðu, kæru, tímaeyðslu og fjárútlát hafa íbúar Þingeyjarsveitar, og raunar allir, fengið aðgang að starfslokasamningi fv. skólastjóra Þingeyjarskóla. Samningi sem átti að vera opinber frá upphafi þar sem opinberir aðilar eru að sýsla með opinbert fé.
Ég hef að vísu ekki eytt neinum fjármunum í ferlinu, nema óbeint, en Þingeyjarsveit lét lögfræðing svara upphaflegu erindi mínu, lögfræðingur sendi andsvar við kærunni og lögfræðingur las yfir úrskurðinn.
Svo þegar samningurinn loksins berst þá er ekkert í honum sem kallar á þessa leynd. Ekkert. Það eru engar upphæðir, engar persónuupplýsingar. Þetta er, og afsakið orðbragðið, algjört prump. Þetta er svo ómerkilegt að ég hreinlega trúði því ekki að ég hefði fengið allt í hendur. 

Ekki misskilja mig, samningurinn er vissulega veglegur (ég fer nánar í það á eftir). Þetta er miklu meira en almennir launþegar geta átt von á en samningarnir sem kennararnir gerðu eru samt sem áður áþekkir. En við vissum það fyrir, við vitum það vel að starfslokasamningar eru gerðir til að tryggja uppsögðum launþega betri kjör en almennir kjarasamningar. 

Þar sem engin lög eða reglur gilda starfslokasamninga er erfitt að vita hvað sé eðlilegt og venjulegt í slíkum samningum. Ég veit að KÍ aðstoðaði við gerð samningsins svo ég tel eðlilegt að ætla að KÍ viti hvernig starfslokasamningum er almennt háttað hjá skólastjórnendum og kennurum. Ég sendi því fyrirspurn á lögfræðing KÍ sem vísaði henni til formanns viðkomandi aðildarfélags. Skv. því svari þá leggur SÍ það til fyrir sitt fólk og nær yfirleitt fram.

Þetta vissi Þingeyjarsveit allan tímann. Þau voru með samninginn í höndunum, þau vissu að það eru engar upphæðir í honum, þau vissu að úrskurðarnefndin hafði sett það fordæmi í úrskurðum sínum að afhenda ætti starfslokasamninga. Þau vissu að þau voru með tapað mál í höndunum, lögfræðingurinn hlýtur að hafa sagt þeim það. Ég vissi það ekki. Ég veit það hins vegar núna þegar ég horfi á samninginn. Svo af hverju þessi endalausa leynd? 

Samstaða lofaði opinni og gegnsærri stjórnsýslu. Eitthvað tjatt á persónulegum fundum er ekki opin og gegnsæ stjórnsýsla. Það sem útsvarsgreiðendur vilja vita er hvernig er verið að verja fjármunum þeirra. Og það er fullkomlega eðlileg krafa. Það varð efnahagshrun á öllu landinu fyrir ekki löngu síðan vegna óábyrgrar fjármálastjórnunar. 
Samstaða og sveitarstjórinn hennar myndu gera vel í því að segja íbúum meira og betur hvað er að gerast og hvernig fjármunum er varið. Sú saga gengur t.d. að flutningur bókasafns Litlalaugaskóla hafi kostað 10 milljónir. Það er fjarri öllu sanni en hvar eru þær upplýsingar að finna? Af hverju stendur þetta hvergi á heimasíðu sveitarfélagsins? 
Ritstjóri 641.is bauð sveitarstjórninni dálk á síðunni. Af hverju var það ekki þegið? Átti ekki að stofna
facebook síðu? Hvar er hún? Ef við vitum hvað þið eruð að gera þá myndum við ekki tortryggja ykkur. Það helst í hendur.

Útreikningar.
Skv. starfslokasamningnum þá á við útreikning mánaðarlegra greiðslna að taka meðatal slíkra greiðslna á tímabilinu 1. feb. 2014 - 31. jan. 2015.
Nú vill svo skemmtilega til að hérðasmiðillinn 641.is lét reikna út fyrir sig helstu útsvarsgreiðendur í Þingeyjarsveit árin 2014 og 2015. Skólastjórinn fyrrverandi komst ekki á topp 10 listann 2014 en hafði verið útreiknuð og deildi miðillinn því með mér þegar ég óskaði eftir því. Skv. útreikningum 641.is (með fyrirvara um útreikningana að sjálfsögðu) var skólastjórinn með 683.042 í laun á mánuði 2014. Það eru 8.196,504 á ári. (átta milljónir, eitt hundrað nítíu og sex þúsund, fimm hundruð og fjórar.)
Skólastjórinn kemt á listann fyrir árið 2015 og þá með 1.011.243 kr á mánuði. Það eru 12.134,916 á ári. (tólf milljónir, hundrað þrjátíu og fjögur þúsund, níu hundruð og sextán.)
Hún er því að fá 3.938,376 (tæplega fjórum milljónum) meira árið 2015 en árið á undan. Það er auðvitað alveg eðlilegt þar sem viðkomandi er bæði á fullum starfslokagreiðslum frá ÞIngeyjarsveit og í 50-70% vinnu hjá Þingeyjarsveit á sama tíma. Það eina sem ég hnýt um er að starfslokin tóku gildi 31. júlí 2015 og nýja starfið hófst 1. ágúst 2015. Það þýðir að séu starfslokagreiðslurnar þær sömu og launin árið á undan þá eru launin fyrir 50-70% deildastjórastöðu 787,680 þús. á mánuði. 
Mikið svakalega hafa grunnskólakennarar samið vel síðast!

Tek við leiðréttingum vegna útreikninga.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir