Úrskurður

Síðastliðinn fimmtudag barst mér í sniglapósti úrskurður frá Úrskurðarnefnd um upplýsingalög. Úrskurðurinn er ekki enn kominn á heimasíðu nefndarinnar en lokaorð bréfsins eru svona: Nefndin heldur sig því við þá stefnu sína að fjármálagjörningar stjórnvalds geti ekki farið leynt nema mikið liggi við. Nefndin setur heldur enga fyrirvara né vill að yfir eitthvað sé strikað eins henni er þó heimilt.

Það er meira en ár síðan ég lagði fram kæruna og verður biðtíminn að teljast alltof langur. Ekki er þó við nefndina að sakast heldur ríkisvaldið, augljóslega þarf að veita meiri fjármunum til nefndarinnar. Þessi langi biðtími auðveldar stjórnvaldi að liggja á upplýsingum því loksins þegar úrskurður liggur fyrir eru mál nánast fallin í gleymskunnar dá og allir búnir að missa áhugann.
Í þessu tilfelli t.d. þá tekur starfslokasamningurinn til tímabilsins 25. feb. 2015 til og með 31. júli 2016. Hann er runninn út á tíma loksins þegar við fáum að sjá hann.

Ég hef ekki enn fengið samninginn í hendur, skrifstofa Þingeyjarsveitar var í sumarfríi síðustu viku en ég býst fastlega við að hann berist mér í tölvupósti á morgun. Ég setti beiðnina fram í tölvupósti og því ber að svara á sama hátt. Nema auðvitað þau vilji kæra úrskurðinn sem vekur þá mjög áleitnar spurningar.

23. gr. Birting og aðfararhæfi úrskurða.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skal birta úrskurð þeim sem fór fram á aðgang að gögnum og þeim sem kæra beindist að svo fljótt sem verða má.
Ef nefndin hefur tekið til greina beiðni um aðgang að gögnum ber að veita aðgang að þeim jafnskjótt og úrskurður hefur verið birtur, nema þess sé krafist að réttaráhrifum hans verði frestað skv. 24. gr.
Úrskurður samkvæmt lögum þessum um aðgang að gögnum eða afrit af þeim er aðfararhæfur, nema réttaráhrifum hans hafi verið frestað.
  (Upplýsingalögin)*

Ferillinn.
Þann 18. maí 2015 sendi ég inn beiðni um aðgang að gögnum. Í byrjun júní fékk ég bréf frá lögfræðingi Þingeyjarsveitar þar sem beiðnni var hafnað. 10. júní 2015 sendi ég kæruna til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þingeyjarsveit var gefin kostur á að svara sem og hún gerði með greinargerð frá lögfræðingi. (Þar sem ég var kölluð "kvartandi". ) Mér var gefinn kostur á að svara sem ég gerði. En fram kemur í úrskurðinum að athugasemdir hafi ekki borist. Ég er lítillega móðguð þar sem ég er frekar ánægð með andsvarið mitt en það er svona, kona fær ekki allt sem hún vill. En það skiptir engu, stefna og vilji Úrskurðarnefndarinnar er alveg skýr.
Rétt er að taka fram að ég naut aðstoðar ungs lögfræðings við allt ferlið sem las yfir og lagaði það sem þurfti og veitti ráðgjöf. Naut ég þar ættartengsla.

Formatið fyrir beiðnina fékk ég frá formanni óstofnaðra Samtaka erfiða fólksins, Styrmi Barkarsyni, þar sem ég er virkur meðlimur. (Ég vona að hann fyrigefi mér að deila formatinu.)

Ég fer í gegnum þetta svo fólki viti að svona ferli er svolítið mál og ákvörðunin var erfið, ég ætla ekkert að neita því. Hins vegar á stjórnsýsla að vera opin og gegnsæ og stundum þarf að hjálpa henni að vera það.
(Svo og þeim sem geta ekki farið eftir kosningaloforðunum sínum.)

Ég geri ekki ráð fyrir að birta samninginn opinberlega þótt hann sé nú formlega orðinn opinber. Vilji fólk sjá hann ætti að nægja að biðja um hann á skrifstofunni. Vilji fólk aðrar upplýsingar eins og t.d. um aðra starfslokasamninga eða laun og fríðindi sveitarstjórnarfulltrúa er velkomið að nota fyrrnefnt format.


*17. gr. í eldri lögum sem úrkurðað er eftir.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista