Þann 19. mars sl. var haldinn fundur í Hálsbúi ehf. með eigendum, einum ráðgjafa (mér) og lögfræðingum þeirra. Fundurinn stóð í ca. einn og hálfan tíma. Með þremur lögfræðingum á fullu tímakaupi þá getið þið rétt ímyndað ykkur hvort hann hafi verið ódýr.
Á þessum fundi kom ýmislegt fram og ýmsu haldið fram eins og t.d. ímynduðum hústökurétti sem er ekki til í íslenskum lögum. En hvað um það...
Við viljum kaupa búið og höfum gert þeim alls konar tilboð og allhá. Allt kemur fyrir ekki. Meðeigendurnir eru ákveðnir í því að flæma okkur fjölskylduna í burtu af Hálsi. Litlu frændur þeirra, einu barnabörn foreldra þeirra, skulu ekki fá að alast upp á jörð afa síns og ömmu, langafa og langömmu. Eina lausnin sem þeir bjóða upp á er að allt sé selt, þ.m.t. okkar hús. Það fæst nefnilega meira fyrir þeirra eignir ef húsið okkar er selt með.
Þannig að þrátt fyrir að við viljum ekki fara heldur kaupa þá samþykktum við að láta endurskoðanda skoða bókhald félagsins með tilliti til sölu. Við samþykktum líka að tveir fasteignasalar myndu meta eignir búsins og þær fasteignir sem á þeim stæðu, okkar hús meðtalið. Undir þessa fundargerð höfum við hjónin skrifað fyrir allnokkru síðan.
Hins vegar geta meðeigendurnir ekki skrifað undir fundargerðina.
Á hvaða vegferð eru þeir menn sem geta ekki einu sinni samþykkt það sem þeir leggja til sjálfir?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli