Versalir
Laugardagur 18. júní. Dagur III
Eitt af því sem kom okkur dálítið á óvart og kannski aðallega börnunum var töluverður fjöldi undirmálsfólks. Þegar við vorum snemma á ferðinni sem var nú oftast þá hittum við iðulega á sofandi fólk niðri í Metróinu. Þá voru margir að betla, sumir spiluðu á hljóðfæri og voru með húfuna á jörðinni. Einu sinni sat gömul kona hjá útgangi og betlaði og í eitt skipti sat kona sem gekk klárlega ekki heil til skógar í tröppunum hjá lestinni okkar. Við þurftum að ganga dálítinn spotta frá hótelinu að stöðinni. Í einni götunni sem við gengum var einhvers konar heimili þar sem við hittum iðulega fólk sem sumt hvert var í hjólastólum og annað ekki alveg andlega heilt. Seinni part vikunnar tók fyllibytta sér heimili þarna fyrir utan, ég veit ekkert hvort hann var heimilismaður þarna eða ekki, en hann sat á bekk fyrir utan með flöskuna sína á kvöldin hvort sem við vorum seint eða snemma á ferðinni og á morgnana líka. Við hittum líka einu sinni mann sem stóð á miðri gangstéttinni og talaði hávært upp í loftið og steytti hnefann. Persónulega held ég að velferðarkerfið okkar sé bara betra en það hvarflaði líka að mér að kannski væri umburðarlyndi okkar minna. En ég spái betur í það seinna.
Það var ákveðið að bregða sér í Versali þennan daginn. Við höfðum keypt 5 daga miða í Metróinn sem við gátum notað á þessa helstu staði. Leiðakerfið er ágætlega skipulagt og ég held ég hefði nú getað klórað mig fram úr því en stóra systir sá um kortið og alla svona skipulagningu, fann út úr öllum þessum leiðum og lestaskiptingum. Það var óneitanlega ósköp þægilegt:) Við komum út hjá einhverri ,,mini" höll sem ég veit ekki hver er og þar voru hátíðahöld í gangi sem ég veit enn minna um. Þarna hljóp ég inn í minjagripaverslun og keypti ermalausa bolinn, rauðu sólgleraugun og rauðu derhúfuna. Ógeðslega flott. Verslunarfólkið gat ekki sagt okkur hvaða hátíðahöld væru í gangi. Eitthvað vorum við að spá í hvort ,,mini" höllin væri Versalir en svo héldum við áfram og beygðum fyrir hornið og þá var ljóst að svo var ekki.
Þessi mynd sýnir rosalegheitin ekki alveg nógu vel en ég bendi á gyllingarnar. Höllin er ofboðsleg og maður verður hálf hvumsa af öllum íburðinum. Hér er dæmi um smá kertastjaka.
Við vorum sammála um það ferðafélagarnir að það væri ekki skrítið að lýðræðisbyltingin hafi átt rætur í Frakklandi og við öðluðumst líka dálítinn skilning á því af hverju alþýðan fann hjá sér þörf til að skilja höfuð frá búkum aðalsfólks í fallöxinni. Ég get rétt ímyndað mér að kotbændurnir sem voru að ströggla hafi fundist munurinn svolítið svakalega þegar þeir sáu svo bruðlið í Versölum. En það var mjög gaman að ganga þarna um og skoða þennan heim. Talandi um að ganga um. Ég og litla frænka vorum orðnar talsvert þreyttar í fótunum af öllu labbinu, ég held að fæturnir á mér hafi vaxið úr 39 í 45 á þessum dögum. Þar sem sandalarnir meiddu okkur dálítið þá fórum við bara úr þeim og gengum berfættar um Versali. Yfirleitt eru trégólf en marmari á milli herbergja. Það var mjög gott að komast á´marmarann og kæla fæturna. Svo kom gangur sem var allur marmaralagður og við vorum auðvitað mjög anægðar en þá kom vörður hlaupandi á eftir mér og skipaði mér í skóna. Ég skil ekki enn af hverju ég mátti ekki ganga um berfætt í Versölum en ég er heldur ekki mikið inni í hentistefnureglum túristavarða.
Það er hægt að kaupa miða í afmarkaða hluta hallarinnar en við keyptum aðgang að henni allri. En þar sem það þurfti að sýna miðana við hvern inngang þá lentum við í því að týna þremur miðum áður en við gátum skoðað safn þingsins og garðana. Stærri litla frænka skoðaði bara safnið enda er nýjasti MR-ingurinn í fjölskyldunni að hugsa um að fara í sagnfræði þegar fram líða stundir, hún hefur að sjálfsögðu rétt á að skipta um skoðun en þetta er stefnan núna. Okkar langaði hins vegar allar í garðinn og þá voru góð ráð dýr. Við tókum bara sénsinn á því að sýna manninum miðann og svo kom sér vel að vera með digital cameruna því við gátum sýnt honum að við hefðum verið í allri höllinni. Hann var svona líka næs, trúði okkur alveg og hleypti okkur inn í garðinn. Við vorum líka alveg að segja satt.
Garðurinn er alveg jafn ofboðslegur og höllin. Risa stór með styttum og gosbrunnum út um allt.
Hér eru stelpurnar að hvíla sig með einni styttunni. Hins vegar var brjálæðislega heitt þennan dag og við vorum bara orðnar örmagna. Ég man ekki alveg hvort það var þennan dag nákvæmlega en snemma í ferðinni lentum við stærri litla frænka í því að fá dúndrandi hausverk og var það snarlega rakið til vökvaskorts. Eftir það pössuðum við okkur á því að vera alltaf með nóg vatn og veitti ekki af.
Við fórum úr höllinni og skoðuðum umhverfið. Duttum inn í verslun og misstum okkur aðeins, afgreiðslufólkinu til mikillar gleði. Að vísu afgreiddum við nánast alveg minjagripa- og gjafakaup svo þetta var ekkert svo óskaplegt. Svo fundum við okkur stað til að setjast niður og borða. Eins og venjulega fengum við góðan mat. Aumingja þjónninn þurfti að hlaupa yfir götu til að geta sinnt starfinu og hann var alveg að stikna. Búinn að hneppa frá sér langt niður á maga. Ég er ekkert að kvarta en hann var frekar horaður. Svo tókum við lestina til Notre Dame og töltum aðeins í Latínuhverfinu áður en við fórum heim.
mánudagur, júní 27, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli