Ættingjarnir

Frá og með sumrinu 2015 hefur frændfólk þeirra bræðra komið til sumardvalar. Það er ungt par með fjögur börn. Með þeim voru um tíma kærasti elstu dótturinnar, hálfsystir konunnar og kærasti hennar og vinkona konunnar og kærasti hennar. Stundum kemur eldri systirin líka með sitt barn. Geta því verið allt frá 5 og upp í 13 manns þegar mest er.
H. hringir í mig og spyr hvort það sé ekki í lagi að fólkið borði hjá okkur. Ég segi já við því enda í góðu sumarfríi sem kennari og laga alltaf mat í hádeginu hvort sem er. Hins vegar gerði ég ekki ráð fyrir því að við Marteinn ættum að bera allan kostnað af matnum líka en það hefur reynst tilfellið. Kom það berlega í ljós þegar ég slysaðist til að leggja til að keyptar yrðu pizzur í Dalakofanum sem reyndust kosta 18 þúsund krónur ofan í hópinn og engum datt í hug að leggja í púkkið. Það er vaninn í minni fjölskyldu að fólk leggi til með sér og átti ég ekki von á neinu öðru. Marteinn hefur ekki viljað taka þetta upp því hann bendir á að þau hjálpi okkur á búinu. Það er rétt að ákveðnu leyti, þau hjálpa H. miklu meira en Marteini. H. og þau sjálf hafa líka sagt það fullum fetum að þau séu vinir hans, þau komi hingað til hitta hann og hjálpa honum. Þau útvega honum líka ýmsa hluti, eins og t.d. notaðan þurrkara. Ekki búinu. Ekki okkur. Honum.


Eftir að vitleysan fór af stað er sagan núna á þá leið að þau voru að vinna á búinu. Undarlegt að mæta á staðinn, segjast vilja hjálpa og ætla sér svo kaup fyrir það! H. sem var alltaf að láta þau vinna til að borga upp í dvölina! Þá skil ég ekki af hverju við Marteinn eigum að borga laun vinnufólks Hálsbús.

Þessar langdvalir og hversu heimakomin þau gera sig hefur orðið til þess að aðrir ættingjar veigra sér við að koma í heimsókn. Bæði þeirra eigin ættingjar og mín fjölskylda sem ég myndi auðvitað miklu frekar vilja fá í heimsókn.
Allir sem ég tala frjálslega við vita að mér finnast þessar heimsóknir of langar og geta vottað að ég myndi aldrei eiga frumkvæði að því að bjóða lengri dvöl.


Á morgun: Fifty-fifty.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista