Ferðaþjónustan

Ég sá um alla fyrirtækjastofnunina og sótti um öll leyfi sem til þurfti. Þá stofnaði ég og setti upp airbnb síðuna og svaraði þar öllum fyrirspurnum. Ég setti líka upp facebook síðu og auglýsti gistinguna og borgaði svokallað “boost” úr eigin vasa.


Hvert einasta skref var tekið með erfiðismunum. Sá-sem-ekki-má-nefna er eins og áður sagði gríðarlegur besserwisser og veit allt og kann allt best. Hann vildi að lágmarksdvöl gesta væri fjórar nætur og átti nóttin að kosta 40 þúsund krónur. Einhverra hluta vegna átti lengri dvöl að þýða minna slit á húsinu! Þetta gat hann aldrei rökstutt. Bara fullyrti.* Við höfðum þetta svona fyrst í stað á síðunni og fyrir utan eina fyrirspurn kom engin bókun og lítið skoðað. Að lokum samþykkti hann, eftir að ég ýtti eftir því svo það sé viðurkennt, að lágmarksdvöl væri ein nótt og kostaði ca. 22 þúsund** en honum fannst hann greinilega vera að gefa eftir og var ósáttur. En eftir þessa breytingu fóru bókanir að berast og sumarið var nánast uppbókað og ágætar tekjur i vændum.

Það mátti alls ekki opna fyrir bókanir fyrr en 1. júní því Sá-sem-ekki-má-nefna vildi setja upp aðra eldhúsinnréttingu í húsinu. Hann fékk gefins notaða eldhúsinnréttingu frá systur minni. Einhverra hluta vegna þurfti hann að bíða með þetta verkefni fram á síðustu stundu þótt hann hafi vitað frá í febrúar að húsið myndi opna 1. júní. Á þessari síðustu stundu uppgötvaðist lekur ofn og var hann farinn að skemma út frá sér. *** Þá heimtaði hann að ég lokaði fyrir bókanir svo hann hefði meiri tíma. Fyrsti gesturinn átti að koma 6. júní svo ég lokaði fyrir bókanir þar til. Hann fullyrðir að ég hafi ekki lokað fyrir bókanir en ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvað hann meinar með því. Ég hreinlega veit ekki hvort hann var virkilega að fara fram á að ég afbókaði fólk sem var búið að panta sér gistingu með margra mánaða fyrirvara og var á leið til landsins. Það var alla vega ekki hugtakið sem hann notaði, hann sagði “loka fyrir bókanir” og ég gerði það.



*Nú höfum við hjónin leigt út herbergi á airbnb í rúmt ár. Í 2-3 skipti hefur það gerst að gestir eru í 3-4 daga. Þessir gestir eru mun meira á staðnum, nota þ.a.l. alla aðstöðuna meira eins og eldhús og baðherbergi. Fullyrðingin er því beinlínis röng.
**Airbnb setur fram tillögur miðað við aðrar skráningar í kringum okkur. Ég fór eftir því.
***Sá-sem-ekki-má-nefna fékk ca. milljón út úr tryggingunum en hefur ekki enn gert við skemmdirnar mér vitanlega.

Næst: Slit sameignarfélagsins.


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir