Fæðingarorlof feðra er bráðnauðsynlegt jafnréttismál. Sérstaklega fyrir konur því þær hafa síður verið ráðnar í stöður vegna mögulegra barneigna og svo hafa þær verið fældar úr störfum sínum þegar börnin eru á leiðinni. Þetta er líka bráðnauðsynlegt fyrir börnin því lengi vel var hugarfarið það að mæður ættu börnin ein og feður sinntu þeim lítið, jafnvel hreint ekki neitt. Því miður þá er enn fjöldi barna sem hefur lítið sem ekkert af feðrum sínum að segja. En fyrst og fremst er þetta nauðsynlegt fyrir feðurna sjálfa að fá að njóta þess að vera feður og tengjast börnum sínum.
Fyrir nokkru kom þó í ljós að ákveðinn galli var á þessu þegar afar tekjuhár maður fór í fæðingarorlof og nánast hreinsaði út sjóðinn. Það er ömurlegt til þess að vita að nokkrir menn geti eyðilagt þetta þarfa fyrirkomulag vegna fáránlega hárra launa sinna. Það er gott að hafa góðar tekjur en mánarlaun sem telja í nokkrum milljónum eru út í hött. Ég hreinlega skil ekki hvað fólk gerir við svona mikið af peningum.
Hugmyndir um hámarkslaun hafa komið upp í þessu sambandi en eina skiptið sem ég hef heyrt ríkisvaldið ræða um hámarkslaun var í kjaraviðræðum við kennara. Grunar mig að hámarkslaun verði frekar notuð á hinn venjulega vinnandi mann og vil að varlega verði farið í allar slíkar umræður. Hins vegar hlýtur að mega setja hámark á fæðingarorlofsbætur, hámark milljón kannski. Fjölskyldan ætti að geta lifað á því. Flest okkar hinna lifa á mun minna.
Fyrir stuttu síðan voru öryrkjar krafðir um skattaskýrslur sínar tuttugu ár aftur í tímann því grunur lék á að einhverjir væru að fá of mikið. Ég held að það sé nákvæmlega engin hætta á því að öryrkjar séu að fá of mikið og mér finnst hugmyndin ein og sér fáránleg. Að heimta skattaskýrslur tuttugu ár aftur í tímann hlýtur að vera lögbrot því einstaklingum er ekki skylt að geyma gögn meira en fimm eða sjö ár aftur í tímann. Ég gæti ekki fyrir mitt litla líf framvísað skattaskýrslum síðustu tuttugu ára.
Börnin okkar sitja á völtum stólum og lesa illa farnar námsbækur. Grunnskólar landsins eru allir fjársveltir. Í Fellaskóla hefur staðið til að setja upp Listasmiðju í ein fimm ár. Það hefur ekki tekist og mun ekki takast um sinn. Ástæðan? Það kostar tíu milljónir að standsetja húsnæðið. Tíu milljónir eru rétt rúmlega mánaðarlaun eins forstjórans, tæplega tveggja mánaða laun annars. Allir grunnskólanemendur Breiðholts myndu njóta góðs af þessari Listasmiðju og að ég held allir grunnskólanemendur Reykjavíkur hafa aðgang að henni.
En við viljum auðvitað búa í samfélagi þar sem börn og öryrkjar sitja á hakanum á meðan nokkrir karlmenn geta lifað í vellystingum praktuglega.

Ummæli

  1. Ég er ósammála þessu með fæðingarorlofið. Það á að vera tekjutengt. Ekki viljum við fara aftur til þess tíma þegar allir fengu 80 þúsund eða álíka í fæðingarorlof og sumar einstæðar mæður höfðu ekki efni á að taka það. Atvinnurekendur borga hlutfall af launum í fæðingarorlofssjóð, þannig að maðurinn með ofurlaunin hefur borgað margfalt meira en aðrir í sjóðinn, áður en hann tekur fæðingarorlofið.

    SvaraEyða
  2. I stand corrected, áttaði mig ekki á þessu.
    En það var talsverð umræða um þennan mann á sínum tíma. Og ég hef líka heyrt fólk hneykslast á mönnum sem vinna mjög mikið á meðan konan er ófrísk til að geta fengið sem mest úr sjóðnum. Það ætti þá að koma á sama stað niður. Ætli að fólk viti þetta almennt ekki, eins og ég?

    SvaraEyða
  3. Núna er miðað við laun sl. 2 ár, einmitt til þess að draga úr áhrifum af einhverri ofurvinnu á meðgöngunni. Svo er komið 480.000 króna þak á fæðingarorlofsgreiðslur, þannig að þeir sem eru með milljón á mánuði fá ekki meira en það í fæðingarorlofi.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir