Að vera rekin úr kór.


Þegar ég flutti þvert yfir landið 2005 þá var strax nefnt að það vantaði alltaf fólk í kirkjukórana. Ég er engin diva, það er vitað, en mér finnst gaman að syngja. Sem hluti af aðlögunarferli og til að fá smá félagsskap þá mætti ég á kirkjukórsæfingar í næstu kirkju. Kórstjórinn bjó á sömu þúfu og tók mig bara með á æfingarnar. Við uppgötvuðum að ég er alt og það tók svolítinn tíma að láta mig ná tóni en það tókst. Mér var stillt upp á milli hinna alt raddanna og svo sungu þær í eyrun á mér á 1-2 æfingum og þar með var það komið. Mér þótti gaman í kórnum og að taka þátt í því félagsstarfi sem honum fylgdi. 
Ég söng líka gamanvísur á starfsmannaskemmtun eitt sinn og þar var þaulreyndur tónlistarmaður. Hann kallaði mig til sín til að segja mér alveg sérstaklega að ég gæti bara alveg sungið. Var ég frekar ánægð með mig eftir það.

Löngun mín og vera í kirkjukór er líka af öðrum meiði. Ég vil gjarnan að Guð sé til þótt ég efist um það. Þannig að vera mín í kórnum var líka leit mín að Guði. Þegar við misstum stúlkubarnið okkar sumarið 2007 þá hætti ég í kórnum. Ég hafði ekkert við þennan Guð að tala.
2010 vorum við hins vegar búin að eignast stóra strákinn okkar og byggja okkur hús. Ég var tilbúin að hefja leit mína að Guði aftur.

En nú vorum við flutt og ný kirkja varð fyrir valinu. Kirkjan þar sem litla stúlkan okkar er jörðuð, þar sem við giftum okkur og skírðum drenginn. Kirkjan ,,mín."

Þá var líka búið að  segja mér upp vinnunni og ég hugsaði með mér að það væri ágætt að hitta fólk annað slagið. Svo þegar kórinn auglýsti eftir nýju fólki þá mætti ég á æfingar.

Það var alveg ljóst strax frá upphafi að ég var ekki velkomin. Ég var boðin velkomin en það var ekkert talað við mig. Þegar ég keyrði heim eftir fyrstu æfinguna þá var ég með vanlíðunartilfinningu og hugsaði með mér að þetta hefðu verið mistök. Ég ákvað samt að gefast ekki upp.
Ég átti í erfiðleikum með að finna tóninn eftir þriggja ára hlé og það var ekkert gert til að hjálpa mér. Þegar ég nefndi það við kórstjórann að ég ætti í erfiðleikum með að finna tóninn þá sagði hann að það væri best að syngja ekkert heldur bara hlusta til að byrja með. Ég gerði það en konan við hliðina á mér var ný líka og söng ekki svo ég heyrði mun meira í sópraninum hinum megin. Mér fannst þetta varla ganga svo ég byrjaði aftur að reyna að syngja, hallaði mér fram til að heyra í þarnæstu konu. Sú kona rykkti sér til hliðar með þvílíkum fyrirlitningarsvip að mér hefði ekki brugðið meira þótt hún hefði slegið mig. Ég hrökklaðist aftur á bak í sætið mitt og var gjörsamlega miður mín.
Síðan ákveður kórstjórinn að syngja inn raddirnar og senda okkur í tölvupósti. Þá gætum við bara æft okkur heima. Brilljant. Hins vegar vildi svo óheppilega til að hann gleymdi að senda mér upptöku. (Er fullyrt.)
Ég man ekki hvort ég mætti á tvær eða þrjár æfingar. Hins vegar fórum við til Reykjavíkur á þessum tíma og ég ákvað að fara degi fyrr, á æfingakvöldi, þótt það væri óþarft, bara til að losna við æfingu því þær ollu mér þvílíkri vanlíðan. En, ég ætlaði ekki að gefast upp.
Svo kemur eitt æfingakvöldið og ég er að herða mig upp í að mæta, þá hringir kórstjórinn. Samtalið var einhvern veginn á þessa leið:

Kórinn er búinn að ræða mikið um falska gaulið mitt og vill að ég hætti. Konurnar sækja það sérstaklega stíft.
Ég malda í móinn og segi honum að ég hafi sungið í öðrum kór og það hafi verið í lagi.
Honum er alveg sama, hann gerir kröfur. Svo lýkur hann samtalinu svona:
,,Ef þú endilega vilt, þá máttu mæta á æfingar eftir áramót. Þú gætir jafnvel fengið að syngja í einhverjum messum."

Ég kalla ekki allt ömmu mína í andstyggilegheitum heimsins en þetta meiddi mig.

Ummæli

 1. Það skil ég vel að hafi meitt. Þetta var hálf skítleg framkoma, eiginlega óskiljanleg í ljósi bæði hins félagslega þáttar sem er stór hluti kórstarfsins og ekki síður að almennt eru allir velkomnir í kirkjukóra og áhugamannakóra. Minn fyrrverandi kórstjóri sagði alltaf að allir gætu sungið með réttri raddbeitingu og stuðningi félaganna í kórnum.

  SvaraEyða
 2. Ömurlegt! Illa gert af fullorðnu fólki að haga sér svona, maður hélt að núorðið væri umræðan svo mikil að maður passaði sig á að hafa einhvern útundan, og að gera þetta á þennann hátt. Hvernig verður maður góður söngvari ef maður má ekki æfa sig einhvers staðar? 'Eg skil vel að þú hafir orðið sár. Þetta er bara oft svona, sérstaklega í litlum bæjum, fólk er dauðhrætt við að fá einhvern nýjan inn í hópinn. Það var alveg eins hérna í Kalmar þegar ég flutti hingað. Ég þekkti engann og fór þess vegna ein á kaffihús, böll, pöbba og svoleiðis, varð að reyna að hitta fólk á mínum aldri (19 ára þá). Strákarnir voru í lagi, en stelpurnar... alveg glatað þangað til að þær sáu að maður var ekkert hót fyrir þær. Tók langann tíma að komast inn í vinahópana, en svo þegar einhver sleppti manni inn var eins og hinir þyrðu að umgangast....
  'Eg vona að þú komist í annann kór þar sem þeir kunna að meta þig!

  Kveðjur,
  Þórdís Helga
  ("gömul" bekkjarsystir þín)

  SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista