mánudagur, ágúst 12, 2013

Bara svona hinsegin.


Ekki svo að skilja að ég ætli að blanda mér inn í réttindabaráttu samkynhneigðra (tel mig ekki skulda neitt á þeim vígstöðvum eftir að ég komst að því að sumir ónefndir samkynhneigðir karlmenn beita sér sérstaklega gegn jafnréttisbaráttu kvenna) þá er samt smá atriði hérma sem ég skil ekki.
Miðað við málflutning sumra þá er samkynhneigt fólk á einhvern hátt ,,óeðlilegt" og gengur gegn náttúrunni. Er þá væntanlega miðað við þær náttúrulegu hvatir hverrar skepnu að vilja viðhalda lífefni sínu. Þar sem þeim hvötum var lengi vel einungis fullnægt með samlífi karls og konu þá er það væntanlega hið ,,eðlilega" samlíf sem við er átt.
Nú væri hægt að rekja í löngu máli að tæknin hefur gert okkur kleift að eignast börn án þess að til hvílubragða karls og konu þurfi að koma. Þá hefur sumt af ,,eðlilega" fólkinu fundið upp á þvílíku athæfi sér til fjárhagslegs ávinnings að varla er hægt að tala um neitt ,,eðlilegt" eða kynlíf yfir höfuð þótt karl og kona komi þar nærri.
Það er hins vegar ekki sá flötur sem undrar mig. Það sem undrar mig er að þessir ,,eðlilegu náttúrusinnar" skuli virkilega telja að kynhneigð sé valin. Að hún sé á einhvern hátt lífsstíll.
Því ef svo er þá er ekki til nein ,,náttúruleg" né ,,eðlileg" kynhneigð. Tel ég ljóst að málflutningur sem inniheldur slíka rökvillu hljóti að falla um sjálfan sig.


sunnudagur, júní 16, 2013

Að vera rekin úr kór.


Þegar ég flutti þvert yfir landið 2005 þá var strax nefnt að það vantaði alltaf fólk í kirkjukórana. Ég er engin diva, það er vitað, en mér finnst gaman að syngja. Sem hluti af aðlögunarferli og til að fá smá félagsskap þá mætti ég á kirkjukórsæfingar í næstu kirkju. Kórstjórinn bjó á sömu þúfu og tók mig bara með á æfingarnar. Við uppgötvuðum að ég er alt og það tók svolítinn tíma að láta mig ná tóni en það tókst. Mér var stillt upp á milli hinna alt raddanna og svo sungu þær í eyrun á mér á 1-2 æfingum og þar með var það komið. Mér þótti gaman í kórnum og að taka þátt í því félagsstarfi sem honum fylgdi. 
Ég söng líka gamanvísur á starfsmannaskemmtun eitt sinn og þar var þaulreyndur tónlistarmaður. Hann kallaði mig til sín til að segja mér alveg sérstaklega að ég gæti bara alveg sungið. Var ég frekar ánægð með mig eftir það.

Löngun mín og vera í kirkjukór er líka af öðrum meiði. Ég vil gjarnan að Guð sé til þótt ég efist um það. Þannig að vera mín í kórnum var líka leit mín að Guði. Þegar við misstum stúlkubarnið okkar sumarið 2007 þá hætti ég í kórnum. Ég hafði ekkert við þennan Guð að tala.
2010 vorum við hins vegar búin að eignast stóra strákinn okkar og byggja okkur hús. Ég var tilbúin að hefja leit mína að Guði aftur.

En nú vorum við flutt og ný kirkja varð fyrir valinu. Kirkjan þar sem litla stúlkan okkar er jörðuð, þar sem við giftum okkur og skírðum drenginn. Kirkjan ,,mín."

Þá var líka búið að  segja mér upp vinnunni og ég hugsaði með mér að það væri ágætt að hitta fólk annað slagið. Svo þegar kórinn auglýsti eftir nýju fólki þá mætti ég á æfingar.

Það var alveg ljóst strax frá upphafi að ég var ekki velkomin. Ég var boðin velkomin en það var ekkert talað við mig. Þegar ég keyrði heim eftir fyrstu æfinguna þá var ég með vanlíðunartilfinningu og hugsaði með mér að þetta hefðu verið mistök. Ég ákvað samt að gefast ekki upp.
Ég átti í erfiðleikum með að finna tóninn eftir þriggja ára hlé og það var ekkert gert til að hjálpa mér. Þegar ég nefndi það við kórstjórann að ég ætti í erfiðleikum með að finna tóninn þá sagði hann að það væri best að syngja ekkert heldur bara hlusta til að byrja með. Ég gerði það en konan við hliðina á mér var ný líka og söng ekki svo ég heyrði mun meira í sópraninum hinum megin. Mér fannst þetta varla ganga svo ég byrjaði aftur að reyna að syngja, hallaði mér fram til að heyra í þarnæstu konu. Sú kona rykkti sér til hliðar með þvílíkum fyrirlitningarsvip að mér hefði ekki brugðið meira þótt hún hefði slegið mig. Ég hrökklaðist aftur á bak í sætið mitt og var gjörsamlega miður mín.
Síðan ákveður kórstjórinn að syngja inn raddirnar og senda okkur í tölvupósti. Þá gætum við bara æft okkur heima. Brilljant. Hins vegar vildi svo óheppilega til að hann gleymdi að senda mér upptöku. (Er fullyrt.)
Ég man ekki hvort ég mætti á tvær eða þrjár æfingar. Hins vegar fórum við til Reykjavíkur á þessum tíma og ég ákvað að fara degi fyrr, á æfingakvöldi, þótt það væri óþarft, bara til að losna við æfingu því þær ollu mér þvílíkri vanlíðan. En, ég ætlaði ekki að gefast upp.
Svo kemur eitt æfingakvöldið og ég er að herða mig upp í að mæta, þá hringir kórstjórinn. Samtalið var einhvern veginn á þessa leið:

Kórinn er búinn að ræða mikið um falska gaulið mitt og vill að ég hætti. Konurnar sækja það sérstaklega stíft.
Ég malda í móinn og segi honum að ég hafi sungið í öðrum kór og það hafi verið í lagi.
Honum er alveg sama, hann gerir kröfur. Svo lýkur hann samtalinu svona:
,,Ef þú endilega vilt, þá máttu mæta á æfingar eftir áramót. Þú gætir jafnvel fengið að syngja í einhverjum messum."

Ég kalla ekki allt ömmu mína í andstyggilegheitum heimsins en þetta meiddi mig.

sunnudagur, júní 02, 2013

Óformleg gagnbókun við gagnbókun.


Á fundi sveitarstjórnar þann 16. maí síðastliðinn var tekin fyrir fundargerð Fræðslunefndar frá 6. maí. Í fundargerðinni kemur fram að að skólahald Þingeyjarskóla eigi að halda áfram með óbreyttum hætti og jafnframt er farið fram á kennsluafslátt fyrir alla kennara og skólastjórnendur svo þeir geti átt samráð um samstarf starfsstöðvanna.
Mér lýst ekki nema mátulega á hvort tveggja og tek þetta upp á fundinum. Undarlegt nokk þá erum við meirihlutinn ósammála og endar umræðan á að lagðar eru fram bókanir.
Ég set fram þessa bókun:

                  „Ég harma ákvörðun Fræðslunefndar og sveitarstjórnar um áframhaldandi rekstur tveggja starfstöðva Þingeyjarskóla. Reynsla síðasta vetrar sýnir að nemendur og foreldrar eru óánægðir með núverandi fyrirkomulag. Tel ég affarsælast að skólahald skólans fari fram á einum stað með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Þá tel ég þessi vinnubrögð ekki til marks um ábyrga fjármálastefnu með sérstöku tilliti til síðasta ársreiknings.“

Og meirihlutinn svarar með þessari:

                  „Meirihlutinn bendir á að ekki er verið að taka nýja ákvörðum um rekstrarform               Þingeyjarskóla. Jafnframt vekur meirihlutinn athygli á að fræðslumálin fóru u.þ.b.1% fram úr áætlun samkvæmt ársreikningi 2012.“

Ég hef ýmislegt við þetta að athuga en sá lítinn tilgang með að setja fram gagnbókun við gagnbókuninni og setja kannski af stað einhverja endaleysu.

Hins vegar sé ég nú að Skarpur hefur séð fréttagildi í þessu (ólíkt öðrum sem sáu ekkert nema nafn útrásarvíkings ;) ) og setur í litla frétt. Því langar mig að setja hér fram óformlega gagnbókun við gagnbókunina.

Í gagnbókuninni kemur fram að ekki sé ,,verið að taka nýja ákvörðun um rekstrarform Þingeyjarskóla." Þótti meirihlutanum það jafnvel út úr kú að vera að ræða sameiningarmál skólanna undir þessum lið, þ.e. Fundargerð Fræðslunefndar þótt þess beri ekki merki í smekklega orðaðri gagnbókuninni. Óneitanlega kemur mér það spánskt fyrir sjónir þar sem ákvörðun um sameingu skólanna var einmitt tekin undir liðnum Fundargerð Fræðslunefndar á sínum tíma án þess að slík umræða væri neins staðar boðuð á fundarboði. Stundum má sem sagt ræða sameiningarmál undir liðnum fundargerð Fræðslunefndar og stundum ekki. 
Hins vegar nefnir meirihlutinn að fræðslumál hafi ekki farið nema 1% fram úr áætlun skv. ársreikningi. Nú má auðvitað alltaf leika sér með tölur. Fræðslumál eru langstærsti póstur sveitarfélagsins og talsverðir fjármunir sem geta falist í þessu eina prósenti. En ég ætla ekki að elta ólar við það enda var ég meira að horfa til framtíðar.

Skólastjóri Þingeyjarstjóra með blessun Fræðslunefndar leggur nefnilega til að allir kennarar skólans fái einnar stundar kennsluafslátt og hver skólastjórnandi 4 tíma kennsluafslátt næsta vetur. (Það er talað um 20 tíma allt í allt í fundargerðinni en ég hreinlega veit ekki hvort kennsluafsláttur skólastjórnenda sé inni í því eða hvort þeir 12 tímar séu til viðbótar. Má til samanburðar nefna að kennari í fullri stöðu kennir 26 tíma á viku.)
Ég geng að því sem vísu að ekki séu fleiri kennarar eða skólastjórnendur í starfi en nauðsynlegt er og viðkomandi ráðnir í það vinnuhlutfall sem nauðsynlegt er. Því þykir mér það liggja ljóst fyrir að verði af þessum kennsluafslætti þá gengur af kennsla. Kennsla sem verður að sinna. Þ.a.l. þurfi að ráða fleiri og útgjöld sveitarfélagsins verði meiri. En fram kom á fundi sveitarstjórnar þann 2. maí sl.  reikningsniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 60, 3 millj. kr. Þykir mér það því skjóta skökku við að auka útgjöld sveitarfélagsins frekar og ekki merki um ábyrga fjármálastefnu. 
En kannski er það bara ég.

föstudagur, maí 31, 2013

Kinnungar


Eins og gengur og gerist í sveitum landsins þá eru sumir hreppar betri en aðrir. Í gegnum árin safnast upp rígur sem hófst út af einhverju sem enginn man enda skiptir það engu máli. Undirliggjandi er sú einfalda staðreynd að sveitin mín er betri og fegurri en sveitin þín. Punktur og basta.
Þess vegna hefur þetta sameingarbrjálæði haft heldur vond áhrif. Allt í einu er sveitin mín sem er mest og best og frábærust  í sömu sveit sett og aðrar sveitir. Hins vegar hafa sveitungar brugðið á það snilldarráð að sameinast ekki í raun og sann heldur halda áfram að hnýta og kýta.
Þannig er því sem betur fer farið í Þingeyjasrsveit. Einhverjir besserwissarar tóku upp á þeim óskunda að sameina hér nokkrar sveitir en við í Kinninni vitum sko vel hvar er fallegast, hvar mesta veðursældin er og hver eru best. Sei, sei já, Við vitum allt um það. Já, þið dælingar allir hvort sem þið eruð aðal, reyk, bárð eða fnjósk áttið ykkur á því að við erum best. Við erum enginn lágreistur dalur. Við erum háreist Kinn
Eins og eðlilegt er þá nýtur svona afburðafólk gæða sinna og er verðlaunað eftir því.
Svo það getur vel verið að Kinnískar konur séu látnar fara og aðaldælskum raðað á garðann í staðinn þá skiptir það sko ekki máli. Ne-hei. Nei, við fengum... Wait for it...  Uppþvottavél í Ljósvetningabúð! Geri aðrir betur.

Og þótt Aðaldælingur hafi fengið skólastjórastöðuna og Reykdælingur sveitarstjórastöðuna og gengið fram hjá reyndu Kinnungunni í hlutastarfinu þá bliknar það í samanburðinum við uppþvottavélina sem við fengum í Ljósvetningabúð.
Og það getur vel verið að það eigi að setja 50 milljónir í framkvæmdir í Hafralækjarskóla, 10 millur í Breiðumýri og 5 milljónir í Stórutjarnaskóla þá skulum við ekki gleyma því að við fengum 100 þúsnund króna uppþvottavél í Ljósvetningabúð. Já-há, just eat your heart out.
Og það getur vel verið að Fnjóskdælingar fái að halda skólanum sínum og Bárðdælingar fái að hafa áfram leikskólastöð en við; við fengum við sko nýja uppþvottavél. Glampandi fína uppþvottavél.
Og auðvitað vill enginn kaupa ljótu félagsheimilin ykkar sem þarf að laga fyrir tugi milljóna á meðan glæstir viðskiptamenn sogast að félagsheimilinu okkar og sjá fyrir sér ferðamannaparadís eins og gefur að skilja enda Kinnin paradís á jörðu.

En ég vil að það sé alveg 100% á tæru að við höldum sko uppþvottavélinni!!!


Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...