Mikill fjöldi fólks hefur liðið matarskort á undanförnum árum. Núlifandi Vesturlandabúar þekkja hann aðeins af afspurn. Nú er svo komið að matarskortur og hækkandi matvælaverð gerir vart við sig í flestum löndum heims. Enn sem komið er finnum við aðeins fyrir þessu í léttari pyngju en sá möguleiki er alveg til staðar að skömmtun á hveiti og hrísgrjónum verði tilfinnanlegur. Ástæður þessa eru hlýnandi veðurfar, uppskerubrestur í Nýja-Sjálandi og Kína, ræktun lífræns eldsneytis og versnandi efnahagsástand á heimsvísu.
Í svona ástandi er varhugavert að ætla að smáþjóð sitji að bestu bitunum á niðurgreiddu verði. Við erum eyþjóð, háð flutningum í lofti og láði. Flutningum sem knúðir eru af síhækkandi eldsneyti. Íslendingar verða að gæta að fæðuöryggi sínu og eina leiðin til að tryggja það er að tryggja matvælaframleiðslu innanlands. Það er alltaf betra að vera aflögufær en skorta.
Okkar helstu matvælaframleiðendur eru bændur. Því miður eru margir þeirra að hrekjast frá búskap. Andstætt almennri skoðun eru það ekki bændurnir sjálfir sem maka krókinn á framleiðslu sinni. Hagnaðurinn fer í vasa annarra.
En það er bara annar vandinn. Hinn vandinn er að bændur eru upp til hópa einhleypir. Hér í Suður-Þingeyjarsýslu er stór hópur ólofaðra karlkyns bænda sem sinna einir búum sínum. Það má ekkert koma upp á því það verður að gefa tvisvar á dag og mjólka. Enda liggja bændur ekki fyrir og kveinka sér. Þeir æla bara í flórinn og halda áfram að vinna. En það er erfitt að vera á tveimur stöðum í einu. Á sumrin verða þeir að hlaupa úr heyskap til að sinna verkunum. Vegna fjárhagsins er ekki hægt að ráða vinnumann. Þessi bú gætu hins vegar vel framfleytt einni fjölskyldu þar sem tveir fullorðnir ganga til verka. Mjólk og kjöt er á kostnaðarverði.
Það er erfitt að átta sig á af hverju bændur hafa orðið undir á hjónabandsmarkaðnum. Einhvern veginn féllu þeir úr tísku á sínum tíma ásamt landsbyggðinni í heild sinni og hafa ekki borið sitt barr síðan. Sem er miður því íslenskir bændur eru afbragðs eiginmannsefni. Þeir eru vinnusamir, jarðbundnir og æðrulausir. Gangur lífsins er þeim fullljós og þeir þekkja líka gildi þess að skemmta sér á góðum stundum. Þegar þeir syngja, syngja þeir raddað.
Nú til dags er ekki nóg að vera vinnusamur og almennilegur maður. Litlir bissnessstrákar eiga mikilli hylli að fagna. Bissnessstrákar sem siglt hafa þjóðarskútunni í strand og stokkið frá borði með fulla vasa fjár. Það verða ekki sagðar sögur af þeim í þúsund ár. Við skulum ekki gleyma að helstu hetjur íslenskrar bókmenntasögu, eins og Gunnar á Hlíðarenda og Egill Skalla-Grímsson, voru bændur.
Nú er staðan að breytast. Það er ekki nóg að vera forríkur í flottum merkjavörudruslum, aka um á upphækkuðum lúxusjeppum innanbæjar og hafa efni á því að snæða á fínustu veitingastöðunum ef ekkert er á matseðlinum annað en flamberaðir fimmþúsundkallar.
Grundvallarþarfir mannsins eru mjög einfaldar. Hann lifir ekki án matar.
Því ættu einhleypar konur að hugsa sinn gang. Sumar hafa nú þegar flutt sig af höfuðborgarsvæðinu því, undarlegt nokk, nutu konur ekki sömu hlutdeildar í góðærinu sem yfir gekk eins og karlar. Reynslan hefur sýnt að niðursveiflur í efnahagslífinu bitna verr á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni. Þá eru allar líkur á að bændur verði hin nýríka stétt er hungurvofan fer að sverfa að heiminum. Við skulum ekki gleyma hlýnun jarðar sem er nú að breyta áður gróðursælum stöðum í eyðimerkur og Íslandi í kjörræktarland. Það gæti vel farið svo að á Íslandi verði gróðursælustu landbúnarhéruð heimsins.
Í sveitinni er gott að búa og ala upp börn. Hér er fallegt og hreint loft og lítið stress. Nóg pláss á leikskólum. Vegir eru ágætir sem og fjarskiptasambönd svo konur þurfa ekki að óttast innilokun.
Hvernig á svo að finna rétta bóndann? Þeir eru eins og áður sagði heima að vinna og því heldur erfitt að nálgast þá. Hér verða því fleiri að leggja hönd á plóginn. Bændur verða líka að átta sig á samfélagslegri ábyrgð sinni og vera til samstarfs. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Hægt væri að skipuleggja
Sæluferðir í sveitina þar sem nokkrar konur dveldu á bæjum og tækju þátt í bústörfum. Það væri jafnvel hægt að búa til raunveruleikaþátt um svoleiðis tilraun. Vissulega færi þetta allt fram með siðsamlegum hætti.
Hægt væri að útvíkka hraðstefnumót og breyta þeim í helgarferðir. Konur kæmu þá og gistu á hóteli. Færu svo á hraðstefnumót með bændum og jafnvel dansleik á eftir.
Þá gæti sveitafélagið efnt til hátíðarinnar
Sveitarómantík þar sem svæðið er kynnt og ýmislegt gert sér til skemmtunar. Það gæti verið almenn hátíð sem höfðaði til flestra.
Hvernig sem að þessu verður staðið þá er það einföld staðreynd að í Suður-Þingeyjarsýslu er mikið góðra manna. Eins og staðan er núna þá eru þeir vannýtt auðlind.
Birtist í Mogganum í dag.